FÍ eitt stærsta lýðheilsufélag landsins

FÍ er eitt stærsta lýðheilsufélag landsins

„Ferðafélag Íslands er ein af þessum traustu stofnunum samfélagsins, enda með mikla samfélagslega skírskotun. Félagið er ekki hagnaðardrifið og starfsemi þess gengur út á að gera almenningi kleift að ferðast um landið, efla heilsu og vellíðan og sýna náttúrunni þá virðingu sem hún á skilið.“

Þetta segir Ólöf Kristín Sívertsen lýðheilsufræðingur og forseti FÍ .

Ferðafélag Íslands hefur allt frá stofnun þess árið 1927, lagt höfuðþunga á að fólk beri virðingu fyrir náttúrunni. Umhverfisstefna FÍ helgast af því að félagið sé í fararbroddi á sviði umhverfismála og stuðli að sjálfbærri þróun í öllu starfi sínu.

Það fer þannig afar vel á því að forseti félagsins hafi náttúruvernd í háskerpu en Ólöf Kristín heillaðist strax af náttúrunni sem barn og man ekki eftir sér öðru vísi en í nánum tengslum við umhverfið. Sem krakka þótti henni t.d. einstaklega gaman að fara í útilegu eða upp í sumarbústað, í fjöruferð, í Heiðmörk og á fleiri staði utan borgarinnar þar sem frelsið átti heimavöll, og svo heillaði veiðin hana líka.

Ólöf Kristín segir að landið okkar sé afar dýrmætt og hið sama eigi við um dýralífið og fólkið sem byggi það. „Eitt af meginmarkmiðum Ferðafélagsins er einmitt að gera fólki kleift að njóta landsins okkar og því leggjum við mikla áherslu á að vernda náttúruna, m.a. með skynsamlegri innviðauppbyggingu. Mögulega helgast áhugi minn á náttúrunni af því að mér hefur alltaf liðið afskaplega vel úti í náttúrunni enda hef ég einhvern veginn alltaf tengt hana við eitthvað jákvætt og skemmtilegt,“ segir Ólöf Kristín.

„Ég er líka af þeirri kynslóð sem var í minningunni alltaf úti að leika og áttu foreldrar mínir í frekar miklu basli með að koma mér inn. Mér finnst t.d. dásamlegt að sitja nálægt fjörunni og fylgjast með öldunum og sitja eða liggja einhvers staðar með lokuð augun og hlusta á fuglasönginn.“

Ólöfu Kristínu segist hreinlega hlýna um hjartarætur þegar hún heyri í hrossagauknum fyrst á vorin, „þá veit ég að sumarið er á næsta leyti,“ segir hún og hugsar eitt andartak og bætir svo við: „Já, það er líka áhugavert að uppáhaldslitirnir mínir eru blár, grænn og gulur, spurning hvort þarna sé komin þessi sterka náttúrutenging.“

 

Lýðheilsa og náttúra er góður kokteill

Þótt Ólöf Kristín sé lýðheilsufræðingur, og hafi alla tíð haft mikinn áhuga á útvist, þá kynntist hún ekki Ferðafélaginu náið fyrr en fyrir um áratug þegar hún sá mikil tækifæri í samstarfi við FÍ í tengslum við heilsueflingu í heimabæ sínum. Hún vissi að lýðheilsa og náttúra væru einstaklega góður kokteill og leitaði því til stjórnenda FÍ.

„Ég kynntist Ferðafélaginu fyrst almennilega sem verkefnisstjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ fyrir um áratug síðan. Ég hafði þá um árabil fylgst með því frábæra lýðheilsustarfi sem FÍ stóð fyrir og leitaði því til félagsins um samstarf. Það var auðsótt og tókst einstaklega vel. Ég hef verið viðloðandi starfsemi FÍ síðan og var t.d. fengin til að stýra lýðheilsugöngum um allt land á 90 ára afmæli félagsins. Mér þykir hins vegar afskaplega vænt um Ferðafélagið og gildin sem það stendur fyrir samræmast vel mínum eigin. Markmið og tilgangur félagsins ganga út á að gera fólki á öllum aldri kleift að efla líkamlega, andlega og félagslega heilsu sína og bæta þar með líðan og lífsgæði. Auk þessa eru öryggismál og verndun náttúrunnar ávallt í forgangi í starfsemi félagsins og sem lýðheilsufræðingur get ég ekki annað en tekið virkan þátt í þessu frábæra starfi.“

Ólöf Kristín segir vissulega fylgja því mikil ábyrgð að gegna starfi forseta. Auk þess mikla starfs sem fram fari í afar öflugum deildum á landsbyggðinni þá reki FÍ um fjörutíu fjallaskála vítt og breitt um landið í samvinnu við deildirnar, standi fyrir fjöldanum öllum af ferðum, hafi lagt óteljandi stíga með stikum og skiltum, auk þess sem brýnir innviðir séu til staðar til að tryggja öryggi ferðafólks og greiða fyrir ferðum þess.

„Þessir innviðir eru jafnframt nauðsynlegir til að beina fólki á ákveðnar slóðir til að vernda náttúruna. Í allri þessari starfsemi felst mikill auður fyrir samfélagið á Íslandi.“

 

Þakklát öllum sem hafa byggt upp Ferðafélagið

Ólöf segist þakklát öllu því góða fólki sem hefur byggt upp þetta fornfræga félag í næstum heila öld og segist munu leggja sitt af mörkum til að halda þeirri farsælu vegferð áfram. ,,Við leggjum okkur fram við að vera með starfsemi sem hentar öllum aldurshópum enda eru þeir allir mikilvægir í starfi félagsins. Ég er kennari í grunninn og sem slíkur hef ég þó sérstakan augastað á því að styðja vel við börnin okkar og ungmennin því hjá þessum hópum eru hefðir og venjur að mótast og ef við hjá Ferðafélaginu getum hjálpað þeim til að gera hreyfingu og útivist að lífstíl til framtíðar þá myndi slíkt gleðja mig mikið.“

FÍ leggur áherslu á umhverfisvænar og sjálfbærar lausnir

Ferðafélag Íslands leggur kapp á að stuðla að góðri umgengni við landið og vernd þess sem okkur sem nú lifum er ætlað að varðveita og bæta, ekki bara handa komandi kynslóðum, heldur í þágu framtíðar alls lífríkisins. Íslensk stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að ná sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna innan fárra ára og mörg þeirra markmiða snerta starfsemi FÍ á einn eða annan hátt. Ólöf Kristín segir að fulltrúar frá FÍ hafi t.d. tekið virkan þátt í vinnu sem tengist markmiðunum á vegum forsætisráðuneytisins sl. vetur.

„Ferðafélagið leggur ávallt áherslu á eins umhverfisvænar og sjálfbærar lausnir og kostur er t.d. við kaup á aðföngum, orkuskipti, hreinlætisaðstöðu, loftslagsmál, verndun gróðurs o.s.frv. Þetta eru allt áskoranir sem taka þarf alvarlega í starfsemi eins og FÍ stendur fyrir. Sem eitt stærsta lýðheilsufélag landsins tengjum við jafnframt mjög sterkt við markmiðið um heilsu og vellíðan“.

Ólöf Kristín segir að það besta sem við getum gert varðandi umgengni við náttúruna sé ekki bara að efla samstarf allra hagaðila, heldur að hugsa dæmið alltaf til enda eða a.m.k. til nokkuð langrar framtíðar áður en við tökum jafnvel óafturkræfar ákvarðanir.

„Þar eigum við tæki og tól eins og umhverfismat sem okkur ber skylda til að nýta lögum samkvæmt. Annað tæki sem líka væri áhugavert að nýta í meira mæli í þessu samhengi er lýðheilsumat sem kallast health impact assessment á ensku. Á einföldu máli snýst það um leggja mat á bein og óbein áhrif stjórnsýsluákvarðana og lagasetninga á heilsu og líðan okkar mannfólksins.“

 

Erum börnunum fyrirmynd

Þegar lýðheilsufræðingur er spurður um helsta ávinning hreyfingar undir berum himni stendur ekki á svari. Hún segir að maður fái súrefni í lungun, öðlist frið og ró og jafnvel dásamlegan félagsskap líka.

„Þetta er alveg uppáhalds! Þarna er ég, og við öll þessi fullorðnu, gríðarlega mikilvægar fyrirmyndir fyrir börnin okkar. Bæði í því tilliti að sýna þeim að þetta sé okkur mikilvægt og eins að fara með þeim út að ganga og hreyfa okkur. Þetta er allavega það sem ég og maðurinn minn erum að reyna að rækta með unglingunum okkar en við eigum 16 ára gamla tvíburadrengi.“

Segja má að FÍ sýni gott fordæmi gagnvart unga fólkinu með massífu starfi angans af stóra trénu, Ferðafélagi barnanna. Sá félagsskapur eflir börn og ungmenni til hreyfingar og gönguferða, bæði í borgarlandinu og í óspilltri náttúru. Ferðafélag barnanna hefur líka átt í mjög virku samstarfi við Háskóla Íslands um árabil þar sem fræðslu er bætt við göngurnar en þá hefur vísindafólk HÍ gengið með fjölskyldufólkinu og útskýrt flest allt sem ber fyrir augu á göngunni. Þessar ferðir eru kallaðar Með fróðleik í fararnesti og hafa notið gríðarlegra vinsælda auk þess að hljóta verðlaun frá Rannís fyrir vísindamiðlum á síðasta ári.

„Við fjölskyldan elskum það að ferðast með Ferðafélagi barnanna,“ segir Ólöf Kristín, „en við fórum fyrst með því árið 2018 þegar við gengum Laugaveginn. Síðan þá höfum við farið á nær hverju ári í lengri ferðir og þær minningar sem við sköpum í þessum ferðum er ekki hægt að meta til fjár.“

 

Sækir orkuna beint í íslenska náttúru

Borgarhverfin heilla misjafnlega þau okkar sem höfum þéttbýlið fyrir augunum alla daga. Þau taka breytingum í tímans rás eins og náttúran gerir reyndar stundum líka, en hverfin eru samt áfram á sinni breiddar- og lengdargráðu eins og Valgeir Guðjónsson Stuðmaður söng og orti: „Gerist þetta og gerist hitt, og hver má vita hvað, en gamla hverfið, hverfið mitt, er enn á sínum stað!“

Vegna tengsla okkar við upprunann, og bara við umhverfið sjálft og söguna, geta borgarhlutar auðveldlega orðið okkar uppáhaldsstaðir. Þess vegna gengur FÍ líka um þéttbýli í í sérstökum borgargöngum og kryddar jafnvel með fræðslu um söguna og samfélagið, arkitektúr og annað sem fylgir ólíkum borgarhverfum. Svo er það líka með höfuðborgarsvæðið allt, að það er stutt í óspillta náttúru. Sjáið bara Elliðaárdalinn og Öskjuhlíð og fjöruna við Gróttuvita.

„Ég bý svo vel að stutt er í náttúruna úr heimbæ mínum, heilsubænum Mosfellsbæ,“ segir forseti FÍ aðspurð um uppáhaldsstaðina. „Þar erum við umkringd dásamlegri náttúru og gróðri á alla enda og kanta, öllum fellunum, strandlengjunni, Mosfellsdalnum, Álafosskvosinni og svo mætti lengi telja.“

Ólöf Kristín segir að öll svæði á landinu séu falleg, bara mismunandi falleg og nánast ómögulegt sé að gera upp á milli þeirra.

„Þess utan eru mörg svæði sem ég á enn eftir að heimsækja. Ef ég fikra mig út fyrir þéttbýlið þá elska ég Laugaveginn og þá miklu fjölbreytni í landslagi og náttúru sem hann býður upp á, litadýrðina kringum Landmannalaugar, hrafntinnuna, svörtu sandana og svo dásamlegan gróður. Lónsöræfin eru einnig ægifögur sem og Víknaslóðir, allt dásamlegt hvert með sínum hætti. Að lokum verð ég líka að minnast á sveitina mína, Landsveit. Þar eigum við fjölskyldan bústað og náttúran þar í kring á klárlega mikinn þátt í því hvað okkur líður vel þar. Mér finnst ég í mikilli forréttindastöðu að geta séð til Eyjanna minna, Eyjafjallajökuls, Þríhyrnings, Tindfjalla, Heklu, Búrfells og alla leið upp að Langjökli. Þaðan, eins og kannski úr náttúrunni almennt, sæki ég helst orkuna mína.“