FÍ er leiðandi afl í útvist, heilsueflingu og jákvæðum tengslum við náttúru

„Maður finnur fyrir svo miklu stolti yfir því að fá að vera partur af sögu þessa félags,“

segir Ólöf Kristín Sívertsen forseti Ferðafélags Íslands þegar hún horfir til baka yfir fjölskrúðugt ferðaár sem er að kveðja. Þótt nú sé svartasta skammdegi þá er líka mjög bjart framundan í starfi FÍ og ný ferðaáætlun er komin út sem er afar fjölbreytt svo ekki sé meira sagt.

 

„Tónninn í starfinu framundan byggir á gömlum grunni í bland við fullt af nýjungum,“ segir forsetinn og flettir á heimasíðunni í mögnuðu framlagi FÍ til ferðagleðinnar á árinu 2025.

 

„Það er ótrúlega mikil þróun í framboðinu og reyndar hefur FÍ verið leiðandi í þróun á ferðum fyrir fólk um landið, hvort sem litið er til gönguferða, fjalla- og jöklaferða eða hjólaferða. Það eru margir nýir áfangastaðir í bland við svæði sem við þekkjum flest vel á borð við Hornstrandir og hálendið. Grunnurinn að ferðunum okkar er auðvitað fólginn í landinu okkar, sem á sér enga hliðstæðu, en líka í ótrúlega frambærilegum fararstjórum og traustum innviðum. Við setjum alltaf öryggið fremst. Farastjórarnir okkar eru ekki bara traustir og reyndir heldur líka frumlegir og skapandi og í mörgum tilvikum hugmyndasmiðir sinna eigin ferða. Það er ótrúlega mikilvægt.“

 

Bjart framundan í starfinu og almanakinu

Þótt myrkrið sé aldrei meira en núna um jól og áramót þá boða sólstöðurnar sem nú fara í hönd bjartari tíð. Vorið kemur, heimur hlýnar, orti skáldið Jóhannes úr Kötlum.

 

Reyndar notum við mennirnir myrkrið á þessum árstíma til að bera út ljósin því þá eru þau líka skærust og litríkust. Það eru ekki allir sem átta sig á því að þótt myrkrið sé núna ráðandi partur af sólarhringnum þá er jörðin samt nær sólinni núna en að sumri til þegar hér er bjartast á norðurhveli. Ha, það getur ekki verið gæti einhver sagt! En, jú, það er nú bara þannig. Skýringin er sú að þegar sólin skín á veturnar hallar norðurhvelið frá henni, sem veldur skammdegi og kulda. Þessu er öfugt farið að sumri til þegar norðurhvelið hallar sér í áttina að sólinni að degi til. Þegar jörðin er í þannig stuði, og hallar sér í átt að sólinni, þá eru einmitt flestar ferðir í boði í starfi Ferðafélagsins.

 

„Já, sumarið er auðvitað aðaltíminn og margar sumarleyfisferðir í boði. En það eru samt ferðir í boði allt árið hjá okkur og sum verkefni eru reyndar bara tengd vetrinum,“ segir Ólöf Kristín.

 

„En þrátt fyrir allt þetta ríkulega framboð af ferðum þá erum við fyrst og fremst félagasamtök en ekki ferðaskrifstofa, tilgangur okkar er að gera fólki fært að ferðast um landið sitt og efla heilsuna í góðum félagsskap. Við erum lýðheilsufélag.“

 

 

Löng og traust saga – sterkar hefðir

Ferðafélagið hefur starfað lengi og verður eftir rétt tvö ár aldargamalt. Ólöf Kristín segir öllu máli skipta fyrir félag eins og þetta að eiga sér langa og farsæla sögu þar sem samfélagsleg ábyrgð hafi að auki alltaf verið eitt af skærustu leiðarljósunum.

 

„Það er gott að vera trúr upprunanum. Við berum ómælda virðing fyrir fólkinu sem hefur byggt upp þetta félag og lagt á sig alveg ótrúlega vinnu, oft án þess að þiggja neitt fyrir nema ánægjuna. Innviðirnir sem við búum núna við, skálar sem voru jafnvel reistir um miðja síðustu öld, stikaðar gönguleiðir, merktir slóðar, brýr og vegir, þetta varð allt meira og minna til í ótrúlegu hugsjónastarfi, bara hreinlega í sjálfboðaliðastarfi. Þannig hefur þetta félag alltaf starfað og

þannig verður það áfram. Þetta fólk sem ruddi brautina stuðlaði að virðingu fyrir landinu og náttúrunni okkar og samferðafólkinu, þannig viljum við vinna áfram.“

 

Fjör í FÍ – mikil gleði í starfinu

Ólöf Kristín er lýðheilsufræðingur að mennt og tók nýlega við afar krefjandi starfi sem sviðsstjóri fræðslu- og frístundasviðsí heimabæ sínum, Mosfellsbæ. Sviðið tengist öllu starfi grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla í bænum auk þess að sinna öllu frístundastarfi og félagsmiðstöð bæjarins. Það er ærinn starfi að leiða allt þetta og því forvitnilegt að heyra hvernig forsetanum takist að samræma einkalífið, starfið og forsetaembættið.

 

„Þetta fer nú allt ágætlega saman en það þarf að skipuleggja tímann vel. Þá er auðvitað frábært að vinna með framúrskarandi samstarfsfólki alls staðar. Hjá FÍ er afar öflugur framkvæmdastjóri, Páll Guðmundsson, og allt starfsfólkið á skrifstofu félagsins er einstakt,“ segir Ólöf Kristín.

 

Hún segir að starfið hjá FÍ sé auk þess ótrúlega skemmtilegt og gefandi sem færi sér mikið og mikil gleði sé í kringum allt daglegt amstur.

 

„Gleðin í starfinu endurspeglast í andanum í félaginu og öfugt. Þetta nærist hvort á öðru. Þetta er stórt félag með stórt hjarta. Þetta er bara allt svo jákvætt og maður finnur mikilvægið í þessu öllu. Ég er alltaf að gera mér betur og betur grein fyrir hvað þetta félag er mikivægt fyrir íslenskt samfélag og hvað það hefur marga snertipunkta við mannlíf og menningu.“

 

Brýnt að huga að innviðum

Frá því Ólöf Kristín tók við stjórnartaumum hefur verið mikill kraftur í félaginu.

„Við erum bara ótrúlega lánsöm með hversu vel hefur gengið enda einbeitum við okkur að því að byggja félagið áfram upp á traustum grunni. Það er reyndar margt að gerjast og gerast og margt sem þarf að vinna að á næstu árum. Það er t.d. mikið verkefni næstu ára að sinna viðhaldi á skálum og byggingu á nýjum. Þar þurfum við að fá fleiri til liðs við okkur, t.d. sveitarfélög sem hafa reyndar alltaf mætt okkur með miklum velvilja. Það er gríðarlega stórt verkefni að sinna þessum innviðamálum en án þeirra getum við ekki gert fólki kleift að ferðast um landið okkar. Gönguferðirnar standa og falla með því að það séu innviðir, eins og á hálendinu og víðar. Það er ofboðslega mikilvægt að félagið vinni allt í sátt við umhverfi, samstarfsaðila, landeigendur, sveitarfélög og alla aðra.“

 

 

Ferðafélag Íslands er þjóðareign

Þegar Ólöf Kristín er spurð aðþví hvað hafi komið henni einna mest á óvart í starfi félagsins frá því hún tók við sem forseti fyrir tveimur árum tæpum, þá svarar hún því til að styrkur félagsins standi þar upp úr.

 

„Það kom mér líka á óvart hversu rætur félagsins liggja djúpt í þjóðarsálinni. Svo hefur líka verið mjög ánægjulega að uppgötva hversu mikinn velvilja félagið hefur og hvað það hefur sterka skírskotun til samfélagsins. Það eru miklu, miklu fleiri að að fylgjast með starfinu en ég hugði og hreinlega að taka þátt í því. Í raun er Ferðafélag Íslands þjóðareign.“

 

Ólöf Kristín segir að næsta ár muni helgast af því að halda merki félagsins hátt á lofti og starfa áfram í þágu félagsfólks, þjóðarinnar, landsins og umhverfisins.

 

„Við erum leiðandi afl í útvist, heilsueflingu og í jákvæðum tengslum við náttúru landsins. Við ætlum okkur að nýta áfram til góðra verka þann dásamlega mannauð sem starfar í nafni félagsins. Við erum með fullt af verkefnum sem eru alfarið helguð samfélaginu. Við erum t.d. með fullt af göngum sem kosta ekki neitt og þannig verður það áfram. Þetta á t.d. við um afar

dýrmætt starf okkar með Krabbameinsfélaginu sem er ætlað að styðja við bata fólks. Einnig má benda á verðlaunasamstarf okkar með Háskóla Íslands sem er helgað fróðleik fyrir fjölskyldur. Það verkefni er í samvinnu HÍ og Ferðafélags barnanna sem er að vinna dásamlegt fræðslu- og lýðheilsustarf.“

 

Brýnt fyrir þau sem það geta að hreyfa sig um hátíðirnar

Ólöf Kristín segir að nú sé tækifæri fyrir landsmenn að skoða og skemmta sér á heimasíðu FÍ yfir ferðunum sem séu í boði á næsta ári. Flestar séu skreyttar fallegum sumarmyndum sem sé mjög gaman að skoða, ekki síst núna þegar veturinn ræður ríkjum.

 

„Annars vonum við hjá Ferðafélagi Íslands að fólk njóti hátíðanna sem allra best í faðmi síns besta fólks, og þau sem eigi þess kosti nái að hreyfa sig líka sem er svo brýnt, og ekki síst í góðum félagsskap,“ segir forsetinn.

 

„Það er svo dásamlegt að fara út núna og njóta dagsins á meðan hans nýtur við. Það er svo brýnt að hreyfa sig og njóta þess, bara að anda að sér fersku lofti og upplifa náttúruna þótt ekki sé nema í smástund. Undir beru lofti nær maður að losa sig við streitu og hlaða sig upp af jákvæðri orku. Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.“