Ferðafélag Íslands fagnar því að umhverfisráðuneytið íhugi að stofna þjóðgarð í Þórsmörk og nágrenni.
Eins og greint var frá í vikunni hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipað starfshóp til að undirbúa og meta kosti þess að friðlýsa Þórsmörk og nágrenni sem þjóðgarð á grundvelli laga um náttúruvernd.
Bregst hann þar við beiðni sveitarstjórnar í Rangárþingi eystra sem lögðu til í maí að ráðuneytið hæfi skoðun á fýsileika þess að friðlýsa Þórsmörk og nágrenni sem þjóðgarð.
„Við fögnum þessum áformum enda er Þórsmörk ein af perlum íslenskrar náttúru,“ segir Ólöf Kristín Sívertsen, forseti Ferðafélags Íslands (FÍ), í samtali við mbl.is. Félagið fagni jafnframt frumkvæði Rangárþings eystra.
FÍ er með rekstur í Langadal en Ólöf sér ekki fyrir sér að þjóðgarður myndi raska starfsemi félagsins á svæðinu.
„Við sjáum ekki að þetta eigi eftir að hafa einhver neikvæð áhrif á það sem við erum að gera. Ferðafélagið hefur alltaf náttúruverndarsjónarmið að leiðarljósi í sínum störfum og þetta samræmist okkar sjónarmiðum og því sem við viljum gera í íslenskri náttúru.“