FÍ og Hvammsvík taka höndum saman

Við FÍ vörðuna í Mörkinni 6. Birgir Már Daníelsson og Skúli Mogensen frá Hvammsvík og Ólöf Kristín Sívertssen forseti FÍ og Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ.
Við FÍ vörðuna í Mörkinni 6. Birgir Már Daníelsson og Skúli Mogensen frá Hvammsvík og Ólöf Kristín Sívertssen forseti FÍ og Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ.

Ferðafélag Íslands og Hvammsvík hafa tekið saman höndum og munu vinna saman að því að efla og styrkja útivistarsvæði í nærumhverfi Hvammsvíkur. Um leið njóta félagar í FÍ bestu kjara í sjóböðunum í Hvammsvík.

 

Ólöf Kristín Sívertsen forseti ferðafélagsins er mjög ánægð með samstarfssamninginn.

„Við hlökkum mikið til að vinna með Hvammsvík að því að styrkja útivist í Hvalfirði og Kjós og um leið að geta gert sjóböðin í Hvammsvík að áfangastað í ferðum okkar á svæðinu," segir Ólöf.

Félagar í FÍ fá bestu kjör í sjóböðin og hluti af innkomu vegna FÍ félaga mun renna til félagsins til uppbyggingar á aðstöðu fyrir útivistarfólk.

Kóðinn fyrir félaga FÍ er FI2425 og gefur félagsmönnum 15% afslátt.

Hægt er að bóka á heimasíðu Hvammsvík: https://hvammsvik.com/is/

 

Skúli Mogensen er ánægður með samninginn sem nú hefur verið gerður.

„Við viljum gjarnan ná til landsmanna og fá Íslendinga til okkar sem mest um leið og við erum að sinna erlendum ferðamönnum í okkar starfi. Þannig skiptir samstarf við Ferðafélag Íslands okkur miklu máli og ánægjulegt að leiðir okkar liggja saman í uppbyggingu á bæði aðstöðu og ferðum fyrir útivistarfólk."

FÍ og Hvammsvík munu meðal annars vinna að því að setja upp skilti og merkingar og styrkja möguleika til útivistar og gönguferða í samvinnu við alla aðila sem málið varðar. Hvalfjörður og Kjós eru útivistarperlur þar sem náttúrufegurð og kyrrðin eru áberandi.

 

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir samninginn ánægjulegan og um leið og verkefnin sem félögin munu vinna að séu vel skilgreind þá leynist að auki margvísleg tækifæri í samstarfinu.

„Við höfum verið að horfa á þetta í stærra samhengi, fyrst með árbókinni um Mosfellsheiði, síðan gönguleiðaritinu um Mosfellsheiði og svo uppbyggingu sæluhússins á Mosfellsheiði sem félagið vinnur nú að og er á lokametrunum.

Þá síðan með árbók félagsins um Kjós og Kjalarnes sem kemur út 2026, þar erum við að tengja saman svæði árbóka og nú með þessum samstarfssamningi við Hvammsvík munum við styrkja uppbyggingu gönguleiða, merkinga ofl. auk þess sem að fjölga ferðum á svæðinu.

Það fellur vel að því að hvetja enn frekar til ferða í nærumhverfinu."

Páll segir að félagið muni kynna samstarfið enn betur á næstunni með upplýsingum til félagsmanna á samfélagsmiðlum félagsins og eins inn í alla gönguhópa félagsins.