Ferðafélag Íslands stofnar FÍ skólann.
Ferðafélag Íslands hefur sett á laggirnar FÍ skólann. Hlutverk FÍ skólans er að halda utan um allt fræðslustarf félagsins, þar með talið allt námskeiðahald, kennslu, fræðslu og þjálfun, bæði sem snýr að fararstjórum, skálavörðum, starfsfólki og sjálfboðaliðum og eins fyrir félagsmenn og almenning allan.
,,Við höfum á undanförnum árum verið með fjölmörg námskeið sem snúa að gönguferðum og fjallamennsku”, segir Heiða Meldal ferðafulltrúi FÍ. ,, Þar má meðal annars nefna námskeið eins og ferðamennsku og rötun, gps námskeið, skyndihjálp, snjóflóðanámskeið og fyrstu hjálp í óbyggðum ( WFR). Við höfum átt gott samstarf við aðila eins og Landsbjörgu um einstaka námskeið og munum halda því áfram. Heiða segir að þessi námskeið verði grunnur í starfi FÍ skólans. Auk þess að FÍ skólinn standi fyrir fararstjóraþjálfun þá mun hann einnig koma að þjálfun skálavarða. FÍ skólinn mun standa fyrir þjálfun fararstjóra sem eru að stíga sín fyrstu skref í fararstjórn en einnig þjálfun fyrir fararstjóra sem hafa öðlast mikla reynslu. ,,Við munum bjóða upp á kennslu, þjálfun og námskeið sem kannski fyrst og fremst varða öryggismál og búnað en einnig mörg önnur atriði eins og náttúruvernd, samskipti, sameiginlegan mat, sögu félagsins og margt fleira.”
Heiða segir að FÍ skólinn munu njóta starfskrafta eldri og reyndari fararstjóra félagsins og um leið eiga samstarf við aðila eins og Landsbjörgu og fleiri um einstaka námskeið og þjálfun. ,, Við munum birta námsskrá FÍ skólans á næstu vikum, samhliða því sem ferðaáætlun næsta árs lítur dagsins ljós.”, segir Heiða.