Fjallaverkefni haustsins hafa fengið góðar viðtökur

 Ferðafélag Íslands stendur fyrir fjölmörgum fjallaverkefnum. Um þessar mundir eru um 15 fullbókuð fjallaverkefni í gangi en haustverkefni félagsins sem kynnt voru í ágúst hafa fengið mjög góðar viðtökur. Verkefnin eru fjölbreytt og ættu því flest að finna eitthvað við sitt hæfi.  

FÍ Alla leið hefst í lok ágúst og lýkur í byrjun desember. Gengið er annað hvert mánudagskvöld og annan hvern laugardag. Verkefnið hentar þeim sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum. 

FÍ Göngur og gaman er 9 mánaða fjallaverkefni sem stendur yfir veturinn 2022 – 2023. Gengið er annað hvert miðvikudagskvöld og annan hvern laugardag. Verkefnið hentar þeim sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum.

 

FÍ Hjól og fjall hefst í lok ágúst og lýkur í lok október. Ferðirnar eru á laugardögum nema fyrsta ferðin sem er á sunnudegi. Verkefnið snýst um að hjóla saman og stíga svo af hjólinu og fara í fjallgöngu og hentar þeim sem eiga viðeigandi hjól og hafa einhverja reynslu. 

 

FÍ Kvennakraftur I er kvennaverkefni sem hefst um miðjan september og lýkur í lok nóvember. Gengið er annað hvert miðvikudagskvöld og annan hvern sunnudag. Verkefnið hentar byrjendum og þeim sem vilja fara hægt yfir.

 

FÍ Kvennakraftur II er kvennaverkefni sem hefst um miðjan september og lýkur í lok nóvember. Gengið er annað hvert þriðjudagskvöld og annan hvern laugardag. Verkefnið hentar þeim sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum.

 

FÍ Næsta skrefið hefst í september og lýkur í byrjun desember. Gengið er allar helgar en mismunandi hvort það er á laugardögum eða sunnudögum. Verkefnið hentar byrjendum og þeim sem vilja fara hægt yfir. 

 

FÍ Með allt á bakinu hefst seinni part ágústs og lýkur í byrjun október. Gengið er alla miðvikudaga og annan hvern laugardag. Verkefnið snýst um að læra að stunda vetrarútilegur og hentar þeim sem eiga eða hafa aðgang að viðeigandi búnaði og hafa einhverja reynslu af fjallgöngum.

 

FÍ Rannsóknarfjelagið hefst í lok ágúst og lýkur í byrjun desember. Allar göngur nema ein eru um helgar, flestar á sunnudögum. Verkefnið snýst um að kanna eitthvert náttúrufyrirbæri, sögu staða eða sérkenni og hentar þeim sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum. 

 

FÍ Vaxandi er nýtt 10 mánaða verkefni sem stendur yfir veturinn 2022-2023. Gengið er annað hvert þriðjudagskvöld og annan hvern sunnudag. Verkefnið snýst um að koma þátttakendum í gott fjallgönguform fyrir næsta sumar og hentar byrjendum og þeim sem vilja fara hægt yfir. 

Auk þess eru FÍ Léttfeti, FÍ Fótfrár, FÍ Þrautseig og FÍ Eldri og heldri í gangi um þessar mundir.