Ferðafélag Íslands býður upp á spennandi námskeið fyrir útivistarfólk sem vill auka þekkingu sína og færni í útivist. Hvort sem fólk er að taka sín fyrstu skref í útivist eða vill dýpka þekkingu sína á sérhæfðum þáttum ferða- og fjallamennsku, þá eru námskeiðin hönnuð til að mæta mismunandi þörfum. Öll námskeið eru leidd af reyndum leiðbeinendum sem miðla af þekkingu sinni og reynslu.
Dagskráin inniheldur fjölbreytt námskeið sem kenna hagnýta færni fyrir ferðalög og útivist. GPS-námskeiðið hefur verið eitt vinsælasta námskeið FÍ síðustu ár og hentar þeim sem vilja læra að rata með GPS-tækjum í náttúrunni. Þar er farið yfir helstu aðferðir við skráningu ferla, punkta og leiða, auk þess sem þátttakendur fá hagnýta leiðsögn í notkun tækjanna.
Fyrir þá sem vilja auka skilning sinn á veðurfari og áhrifum þess á útivist, er í boði veðurfræðinámskeið, þar sem þátttakendur læra að lesa veðurkort, meta veðurbreytingar og afla sér réttra gagna miðað við þarfir hvers og eins. Þetta námskeið nýtist öllum sem hafa áhuga á veðri og veðurfræði, jafnt áhugafólki um útivist sem áhugaveðurfræðingum.
Þeir sem vilja bæta færni sína í rötun og skipulagningu útivistar geta skráð sig á námskeið í ferðamennsku og rötun. Þar læra þátttakendur að nota áttavita og kort til leiðsagnar, auk grunnatriða í GPS-notkun. Fjallað er um öryggisatriði í ferðum, þar á meðal veðurmat, ofkælingarhættu, val á fatnaði og búnaði, mataræði í lengri ferðum og hvernig má búa til neyðarskýli í náttúrunni.
Þeir sem ferðast í snjóþungum svæðum eða vilja læra að meta snjóflóðahættu geta skráð sig á snjóflóðanámskeið Ferðafélags Íslands. Á námskeiðinu er farið yfir grunnatriði snjóflóðafræði, áhrif veðurs og landslags á snjóflóðamyndun, og notkun öryggisbúnaðar eins og snjóflóðaýla, stanga og skóflu. Þátttakendur læra að framkvæma snjóflóðamat, velja öruggar leiðir og æfa félagabjörgun í raunverulegum aðstæðum. Námskeiðið fer fram bæði innandyra og úti og er kennt af leiðbeinanda frá Landsbjörgu.
Einnig er boðið upp á sprungubjörgunarnámskeið, þar sem þátttakendur læra örugga og ábyrga ferðamennsku um snæviþakta jökla, auk réttra viðbragða ef ferðafélagi fellur í sprungu. Á námskeiðinu er farið yfir staðlaðar aðferðir við sprungubjörgun með lágmarksbúnaði, bæði í bóklegum og verklegum hluta. Þátttakendur æfa björgunartækni í raunverulegum aðstæðum á jökli undir leiðsögn reyndra leiðbeinenda frá Landsbjörgu.
Fyrir þá sem vilja búa sig undir óvæntar aðstæður í náttúrunni er í boði námskeið í skyndihjálp og viðbrögðum við óhöppum í óbyggðum. Þar fá þátttakendur þjálfun í að bregðast við slysum og veikindum fjarri byggð, læra grunnatriði skyndihjálpar og æfa viðbrögð við algengum áverkum og sjúkdómum í raunhæfum verkefnum.
Námskeiðin eru ekki aðeins frábært tækifæri til að öðlast nýja þekkingu, heldur einnig kjörin leið til að æfa nýja færni í skemmtilegum félagsskap og njóta vetrarnáttúrunnar. Lögð er rík áhersla á hagnýta kennslu, þar sem þátttakendur fá bæði fræðilega kennslu og verklega þjálfun í raunverulegum aðstæðum.
Ferðafélag Íslands hvetur alla sem vilja efla færni sína í vetrarferðum til að kynna sér námskeiðin á heimasíðu félagsins.
Frekari upplýsingar og skráningu má finna á h´ér: Skoða Námskeið FÍ