Forseti Íslands sæmdur gullmerki FÍ

Forseti Íslands sæmdur gullmerki FÍ á tindi Glissu í Árneshreppi
Forseti Íslands sæmdur gullmerki FÍ á tindi Glissu í Árneshreppi
Heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, í Árneshrepp á Ströndum í máli og myndum:
 
Forsetinn fór á kostum í þessari síðustu opinberu heimsókn sinni og fór ótroðnar slóðir sem hófst með hátíðarkvöldverði í boði Árneshrepps að kveldi föstudags.
 
Hann kleif fjallið Glissu að morgni laugardags  í fararstjórn Reynis Traustasonar og Guðrúnar Gunnsteinsdóttur og fékk gullmerki félagsins á efsta tindi að viðstöddum góðum hópi ferðafélagsfólks. Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, afhenti Guðna forseta gullmerki félagsins fyrir framlag hans til lýðheilsumála og útivistar og stuðning og velvilja við starf félagsins.
 
 
Eftir fjallgönguna var haldið í Ingólfsfjörð þar sem forseti og göngufólk fengu leiðsögn Guðjóns Ingólfssonar um gömlu síldarverksmiðjuna. Forsetinn gerði sér lítið fyrir og skreið inn um mannop í lýsistank verksmiðjunnar. Í framhaldinu mætti forseti Íslands í sjósund í Norðurfirði ásamt fjölda fólks á svæðinu.
 
 
Um kvöldið var Helgi Björns með tónleika í Fjárhúsinu á Valgeirsstöðum, skála FÍ. Forsetinn steig þar á svið með Helga og hljómsveitinni og söng, Vertu þú sjálfur fyrir fullu húsi og uppskar gríðarleg fagnaðarlæti.
 
Heimsókn forsetans lauk með heimsóknum í byggðasafnið Kört, kirkjurnar tvær, Kistuvog og Baskasetrið á Djúpuvík.