Ferðafélag Íslands gaf sl. vetur út nýtt endurbætt göngu- og örnefnakort af gossvæðinu í Geldingadölum. Kortið nýtist vel nú þegar gos er hafið að nýju, nú í Meradölum. Kortið var gefið á sex tungumálum; íslensku, ensku, þýsku, frönsku, pólsku og kínversku. Eftir því sem best er vitað er þetta í fyrsta skipti sem íslenskt göngukort er gefið út á kínversku og pólsku. Kortið er hannað í anda gömlu dönsku herforingjakortanna og þar má finna helstu gönguleiðir við gosstöðvarnar, en einnig örnefni og forminjar eins og sel.
Við útgáfuna naut Ferðafélagið stuðnings Ferðamálastofu og Loftmynda.
Tilgangurinn með útgáfu kortsins er sýna öruggar gönguleiðir að gosstöðvunum auk þess sem hvatt er til þessa að ganga vel um náttúruna, vera með góðan búnað og fylgja öllum fyrirmælum lögreglu og yfirvalda.
Í stuttum texta sem fylgir kortinu er helstu gönguleiðunum lýst og vísað í upplýsingar um útbúnað og veðurspá. Loks fylgir kortinu QR-kóði þar sem hægt er að hlaða niður nýjustu útgáfu kortsins rafrænt, t.d. í síma.
Prentútgáfu kortanna á íslensku og ensku má nálgast á skrifstofu Ferðafélags Íslands. Einnig er hægt að kaupa rafræna útgáfu kortsins í vefverslun okkar. Kortið kostar 1500 kr.
Ágóði af sölu kortanna rennur til skiltagerðar, merkinga og öryggismála á svæðinu.
FÍ áréttar skilaboð almannavarna um að göngufólk taki fullt tillit til leiðbeininga og fyrirmæla frá viðbragðsaðilum. Mikilvægt er að vera vel búin og með nesti. Þá er mikilvægt að varast gasmengun og kynna sér leiðbeiningar á heimasíðu almannavarna og hafa í huga að lögregla lokar svæðum gerist þess þörf. Akstur utan vega er sem fyrr bannaður.