Gönguhópur sem faðmar tré

Fátt er betra en heilnæm útivist
Fátt er betra en heilnæm útivist

Gönguhópur sem faðmar tré!

Ferðafélag Íslands er eitt  stærsta lýðheilsufélag landsins, segir Ólöf Sivertsen forseti þess. Þar á hún reyndar ekki endilega við að félagið hafi breyst í þessa veru til að vera í takt við tíðaranda, heldur hafi það unnið í þágu lýðheilsu allar götur frá stofnun þess árið 1927. Ólöf segir að félagið hafi alla tíð haft það að markmiði að efla heilbrigði og lífsgæði fólks með ferðalögum, hreyfingu og útivist í góðum félagsskap.

Þess vegna kemur alls ekki á óvart að Ferðafélagið hafi á þessu starfsári byrjað gefandi samstarf við Krabbameinsfélagið með það í huga að auka lífsgæði þeirra sem hafa greinst með krabbamein og hlotið meðferð við því. Ætlunin með verkefninu er ekki síst að styðja við bata fólks. Þetta hefur verið gert með fremur léttum göngum í náttúrunni, mest í nágrenni borgarinnar og hafa aðstandendur og ástvinir einnig tekið þátt í göngunum sem hafa vakið mikla lukku.

Þau sem leiða þetta verkefni eru afar reynd í fararstjórn, hjónin Rósa Sigrún Jónsdóttir og Páll Ásgeir Ásgeirsson. Bakpokaferðalag þeirra um Hornstrandir varð eiginlega kveikjan af ævistarfinu en þau hafa drjúgan part ævinnar gengið ein til að skrifa ferðabækur fyrir gönguþyrsta Íslendinga eða farið með hópa um öræfin, mest fyrir Ferðafélag Íslands.

Til að ræða þetta brýna og áhugaverða verkefni með Krabbameinsfélaginu sendi ég þeim hjónum tölvupóst og smáskilaboð. Þótt þau séu bæði afar tæknilega sinnuð vilja þau ekkert stafrænt rugl þegar kemur að því að spjalla, vilja bara setjast við hvíta eldhúsborðið á gömlu Bæjarleiðastöðinni við Langholtsveginn.

„Kíktu í kaffi,“ segir Páll Ásgeir hress í bragði og ég hlýði því auðvitað.

Ekki það að þau búi á leigubílastöðinni, það hagar bara þannig til að þau hafa umbreytt skrifstofuhúsnæði í dásamlegt heimili, eða safn öllu frekar með listverkum af öllum toga sem breiða úr sér yfir flesta veggi. Og svo eru það bækurnar sem liggja í stöflum og þekja ófáar hillur. Þetta er menningarheimili. Og inn af eldhúsinu er vinnustofa Rósu en hún er landsfræg og afar fjölhæf listakona og Palli er rithöfundur, eða kannski eru þau bæði með dágóðan skammt af hvoru tveggja í sálinni.

 

Útivera og hreyfing sem stuðningur við bataferli

„Krabbamein er alvarlegur sjúkdómur,“ segir Páll Ásgeir þegar við setjumst öll niður með rjúkandi kaffifanta. „Meira en einn af hverjum þremur greinist með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni. Þessi illvígi sjúkdómur hefur veruleg áhrif á einstaklinga og fjölskyldur. Það var því ótrúlega vel til fundið hjá Ferðafélaginu að ráðast í þetta samstarf til að treysta bata fólks sem hefur glímt við þennan sjúkdóm.“

Í alvöru þessa augnabliks þá birtist allt í einu heimilskötturinn til að trufla samtalið, loðinn eins og ljón, kampamikill og lítur eins og heimspekingur yfir sviðið sem hann telur sig greinilega eiga skuldlaust.

„Þetta er hann Jósúa, hann fagnaði fimmtán ára afmæli í gær blessaður,“ segir Palli þegar hann áttar sig á því að sá sem þetta skrifar hefur fest augun á kettinum.

„Hann fagnaði reyndar afmælinu með því að eltast við smáhund í lausagöngu hérna fyrir utan. Ég sá þetta reyndar ekki, en ég heyrði hljóðrásina og gat mér til um hvað hafði gerst þegar ég sá hundinn koma í tryllingi hérna fyrir húshornið á áþekkum hraða og flugeldur.“

Þau hjónin segja að það sé hinsvegar enginn slíkur hraði í göngum FÍ og Krabbameinsfélagsins, þvert á móti. Palli segir að þau hafi í raun ekki alveg gert sér alveg grein fyrir hvers eðlis þessar göngur gætu orðið í byrjun því reynslan sé þannig oft að göngufólk fari sér gjarnan hægt í upphafi en fljótlega verði þetta eins konar keppni um að fara sífellt lengra og jafnvel hærra.

„Já, einmitt,“ segir Rósa og brosir, „þetta er allt öðru vísi en í öllum göngum sem við höfum áður leitt. Þarna skiptir einhvers konar bæting í hækkun eða vegalengdum engu máli, hvað þá hraðinn. Við göngum bara ofast á jafnsléttu og segjum sögur sem tengjast svæðunum sem við förum um. Fólk kemur til að njóta, fylla lungun af lofti og finna, já bara finna hjarstláttinn í náttúrunni. Þetta fólk er með afar skýra núvitund og vill finna tengslin við umhverfið og njóta samvista við annað fólk. Það gefur því ótrúlega mikið, og það er mikið um faðmlög og bara hlegið og jafnvel tré eru föðmuð.“

Tré eru vissulega fögur og gera margvíslegt gagn með því framleiða súrefni sem er nauðsynlegt í lífríkinu og þau draga úr áhrifum loftslagsbreytinga. En mörgum gæti fundist langsótt við fyrstu sýn að það komi að miklu halda að faðma trén. Í þessum pælingum rifjum við upp eitt andartak þarna við borðið gamalt og frábært popplag með Todmobile þar sem stúlkan í laginu faðmaði gjarnan tré frekar en að faðma fólkið sitt.

„Já, þetta er rétt segir Palli, „meira að segja vísindalega sannað að það sé gott að faðma tré, ekki bara fyrir tréð sjálft heldur fyrir þann sem leggur handleggina utan um það.“

Lækningamáttur náttúrunnar

Og svo tala þau hjónin um mikinn áhrifamátt náttúrunnar í sjálfu bataferlinu. Á hverju ári greinast að meðaltali hartnær tvö þúsund ný krabbameinstilfelli hérlendis. Það er því afar brýnt að stunda rannsóknir á þessum sjúkdómi í leitinni að forvörnum, lausnum og lækningu og ekki síður leiðum til að bæta líf fólks í bataferlinu.

Þau Palli og Rósa segja að rannsóknir sýni fram á að útivera, samvist við annað fólk og náttúran sjálf styðji við bata og því séu þessar göngur ekki bara gagnlegar heldur jafnvel brýnar. Þetta rímar við aðrar rannsóknir sem sýna fram á að bættir lífshættir geti dregið verulega úr hættunni á að fá krabbamein. Undir þetta fellur m.a. breytt og bætt mataræði og líka regluleg hreyfing. Þannig getur útvist haft forvarnarlegt gildi gegn ýmsum krabbameinum en staðreyndin er sú að krabbamein er alls ekki einn sjúkdómur heldur samheiti yfir u.þ.b. 200 mismunandi sjúkdóma sem skiptast hver um sig í marga undirflokka.

Allir krabbameinssjúkdómar eiga það sameiginlegt að frumur einhvers staðar í líkamanum fara að fjölga sér stjórnlaust. Mikil áhersla hefur verið lögð á þróun lyfja til að berjast við þennan vágest og þar hafa orðið miklar framfarir síðustu ár. Lyfjagjafirnar geta engu að síður haft þau áhrif að fólk missi m.a. þrek og þau Palli og Rósa eru bæði á því að útiveran komi þar að góðu haldi við að styðja fólk í bataferlinu. Það segir líka á heimasíðu Krabbameinsfélagsins að fólk eigi að forðast langvarandi kyrrsetur. Líkamleg áreynsla og virkni hafi mikil jákvæð áhrif á almennt heilsufar og sé eitt það allra mikilvægasta sem við getum gert til að stuðla að heilbrigði okkar. Til viðbótar þessu segir á síðunni að rannsóknir á nokkrum gerðum krabbameina hafi sýnt fram á að líkamleg áreynsla á meðan krabbameinsmeðferð standi yfir og eftir að henni er lokið hafi jákvæð áhrif á líkamsstarfsemina og auki lífsgæði. Auk þess dragi hún úr þeirri þreytu sem oft geri vart við sig hjá þeim sem fá krabbamein. Hér eru upplýsingar á vef Krabbameinsfélagsins um mikilvægi hreyfingar.

Aðspurð um framhaldið  segja þau Rósa og Palli að verkefninu verði haldi áfram næsta haust. Þau segja að hópurinn hafi enda reynst miklu stærri en ráð var fyrir gert í upphafi en hann hafi samanstaðið af um fjörutíu manns.

„Þetta verkefni hefur ekki bara gagnast göngufólkinu sjálfu því það hefur líka hjálpað okkur sem leiðum það á ýmsan veg, til dæmis kennt manni að sýna meiri auðmýkt og meta heilsuna enn betur en áður,“ segir Palli.