Gönguferð að gosstöðvum - mikilvæg atriði fyrir göngufólk

Ferðafélag Íslands hvetur öll sem hyggjast fara í skoðunarferð að gossvæðinu að fylgja leiðbeiningum almannavarna í hvívetna og huga vel að fatnaði, búnaði og nesti.

 

Ferðafélag Íslands hvetur fólk jafnframt til að skilja ekki eftir sig rusl á leiðinni, ganga vel um náttúruna og fara varlega.

 

,,Gönguferð að gossvæðinu og til baka er um 20 km löng leið. Gengið er um grýtt og gróft landslag sem er aðeins á fótinn. Öll sem leggja í slíka göngu þurfa að vera með réttan búnað og í ágætu líkamlegu formi, '' segir Ólöf Kristín Sívertsen forseti Ferðafélags Íslands.

 

Gott er að huga vel að eftirfarandi atriðum áður en lagt er af stað í gönguferð eftir leyfilegum leiðum i átt að gossvæðinu.:

 

Mælt er með því að taka með sér rykgrímu (N95, FFP2). Þar sem mikill reykur er frá gróðureldum. Töluvert svifryk hefur mælst á leiðinni skv. mælingum Veðurstofu. 

 

Göngufatnaður

 

  • Góðir gönguskór með góðum öklastuðningi og göngusokkar
  • Nærföt, ull eða flís, eftir veðri
  • Peysa úr ull eða flís
  • Göngubuxur / hlífðarfatnaður

 

Bakpoki með öllu sem þarf fyrir svona langa göngu:

 

  • Smurt nesti fyrir daginn
  • Göngunasl svo sem þurrkaðir ávextir, súkkulaði og hnetur
  • Vatn, 1 - 2 ltr.
  • Hitabrúsi með kakói, tei eða kaffi
  • Göngustafir
  • Myndavél og kíkir
  • Sólgleraugu
  • Sólarvörn og varasalvi
  • Hælsærisplástur, plástur, teygjubindi og verkjalyf
  • Salernispappír, blautþurrkur og litlir plastpokar fyrir notaðan pappír
  • Húfa, vettlingar og buff.
  • Vind- og vatnsþéttur hlífðarfatnaður

 

Ferðafélag Íslands hvetur fólk eindregið til að fylgja leiðbeiningum almannavarna því við viljum öll komast heil heim.

 

https://www.fi.is/is/frodleikur/bunadarlistar/dagsferdir