Haustfegurð í Landmannalaugum

Það má svo sannarlega enn njóta tíma í Friðlandinu en um liðna helgi naut hópur á vegum Ferðafélags Íslands þess að upplifa svæðið í göngu- og jógaferð. Gengið var um Laugahraun, upp á Brennisteinsöldu, um Suðurnám og á topp Háöldu auk þess sem Rauðufossar og upptök þeirra voru skoðuð. Þess á milli voru gerðar jógateygjur, slakað á í jóga nidra við gong undirleik að ógleymdum böðum í heita læknum. Það er þó ekki alltaf hægt að plana allt, eins og það að hitta óvænt magnaða fjallafyrirmynd sem leiddi fyrsta kvenleiðangurinn á Annapurna í Nepal sem er hættulegasta fjall jarðar. Arlene Blum er um þessar mundir stödd á Íslandi á ferðalagi með Vilborgu Örnu Gissurardóttur. Arlene er mögnuð fjallakona og jafnframt doktor í efnafræði sem hefur nýtt starfsævina til að bæta heiminn, til dæmis með því að sýna fram á krabbameinsvaldandi efni í náttfötum barna. Fyrir helgi birtist svo grein eftir hana í New York Times þar sem hún fjallar um plastmengun, jarðeldsneyti og hnattræna hlýnun. Sjá hér: https://www.nytimes.com/2021/08/27/opinion/plastics-fossil-fuels.html

Fyrir fróðleiksfús þá má lesa meira um Arlene Blum hér: https://www.arleneblum.com

Edith Gunnarsdóttir, Eyrún Viktorsdóttir og Kolbrún Björnsdóttir voru fararstjórar í ferðinni.

Skálar FÍ á Laugaveginum verða opnir fram í miðjan september og enn tækifæri til að upplifa dýrðina að Fjallabaki.