Hvítasunnuhelgin hefur áratugum saman verið einskonar háfjallahátíð fyrir Ferðafélag Íslands og félaga þess. Sú hefð að félagið gangi á Hvannadalshnúk um hvítasunnu er um hálfrar aldar gömul. Auk Hvannadalshnúks liggur leið manna á aðra tinda í Öræfajökli og eru þessar göngur afrakstur undirbúningsverkefna eins og FÍ Alla leið sem notið hefur gríðarlegra vinsælda undanfarin ár. Þar búa menn og konur sig undir átök vorsins allan veturinn undir handarjaðri þrautreynda fjallagarpa. Vorið er því nokkurs konar uppskerutími fyrir hundruði þátttakenda. Þessa dagana er því veðurspá lesin af mikilli athygli og talsverður glímuskjálfti farinn að gera vart við sig.
Göngur á hæstu tinda Öræfajökuls hafa ekki gengið alveg þrautalaust fyrir sig það sem af er þessu vori. Gönguhópar hafa þurft að takast á við kulda, hvassa vinda og nýsnævi á jöklinum sem gerir leit að sprungum erfiðari en venjulega. Mörgum ferðum hefur því verið aflýst það sem af er vori og fjölmargir leiðangrar hafa snúið frá við öskjubrún jökulsins enda góður siður fjallamanna að stefna fólki aldrei í tvísýnu og láta kappsemi ekki ráða för um of.