Góð samskipti eru lykillinn að farsæld fólks og samfélaga. Þetta veit Ingunn Sigurðardóttir aðstoðarframkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands en hún er ekki bara sérlega flink í samskiptum, hún heldur líka utan um ótal þræði sem spinnast í það mikla net sem starf félagsins er. Ingunn er alls ekki nýbyrjuð á skrifstofu FÍ. Hún hóf störf fyrir félagið árið 1992 og því eru þetta orðin meira en þrjátíu ár í þágu ferðafélagsfólks um land allt. Hún náði því meira að segja að starfa á gömlu skrifstofunni á Öldugötunni í fáeina mánuði áður en hún tók þátt í flutningi á nýja staðinn í Mörkinni.
„Við fluttum inn í óinnréttað skrifstofurými seint í maí árið 1992. Dótinu var pakkað í kassa af röskum sjálfboðaliðum sem aðstoðuðu við flutningana. Við vorum svo allt sumarið að leita að og grafa upp hlutina úr kassastæðunni í kjallaranum,“ segir Ingunn hlæjandi þegar hún rifjar upp þessa gömlu tíma.
Skipti, ha... Skapti?
Ingunn hefur frá upphafi komið að ýmsu í starfinu á skrifstofunni og kynnst mörgu og eftirminnilegu fólki. Til margra ára sá hún t.d. um dagleg samskipti við skálaverði og um innkaup fyrir skálana. Frá árinu 2009 hefur Ingunn gegnt starfi aðstoðarframkvæmdastjóra FÍ og setið í samráðsteymi félagsins með framkvæmdastjóra og fjármálastjóra sem hafa leitt starfið á skrifstofunni.
„Það er oft annasamt en mjög gefandi starf,“ segir hún.
Þótt samskiptatækninni hafi fleygt fram, og flest okkar séum með hátæknitölvu í vasanum sem kallast farsími - sem er með háþróuðum samskipta- og jafnvel rötunarbúnaði og stafrænum áttavita - þá var það nú sko ekki þannig þegar Ingunn hóf störf hjá FÍ. Þá þurfti hreinlega aðstoð Gufunesradíós eins og hjá sjófarendum til að ná sambandi við Landmannalaugar.
„Það gat orðið smá sviti,“ segir Ingunn og brosir.
Síðar voru teknar í notkun talstöðvar til að hafa samband við skálaverði á þeim svæðum sem ekki voru í símasambandi. Það var frábært framfaraskref en stundum dálítið flókin samtöl þar sem algengasta orðið var SKIPTI, þegar samtalið var fært á milli einstaklinganna og svo komu kannski langar nafnarunur með löngum þögnum og hljóðbútum á milli með háværum skruðningum.
„Skálavörðurinn var jafnvel úti undir beru lofti því þar náðist samband og ég á skrifstofunni að þylja upp hverjir voru að koma í gistingu þann daginn og taka niður pantanir á rekstrarvörum sem skálavörðurinn þuldi í smáskömmtum.“
Í þessum samtölum gátu þannig blandast saman á furðulegan hátt orða- og nafnarunur og heiti á rekstrarvörum sem gerðu innkaupalistana oft ansi flókna í smíðum og líka listana yfir þau sem voru væntanleg í skálana. Orðið SKIPTI gat jafnvel orðið að nafninu Skapti.
...SKIPTI!!!!
Ha?
Skiiii...haaa...pti?!!!
Ha? Skapti... ...hvers son? SKIPTI?
Þessi Skapti var mjög víðförull í ferðum FÍ á þessum tíma en lét þó aldrei sjá sig.
FÍ er aflvaki ferðagleðinnar
Í dag er Ingunn ómissandi partur af reynslumiklu stjórnunarteymi í Mörkinni en starfsemin hefur vaxið ört hjá félaginu á liðnum árum. Stöðugt meiri fjölbreytni er í þjónustu og gæði og öryggismál alltaf í háskerpu. Ingunn svarar ótal símtölum og tölvupóstum á hverjum degi sem snúa að þessu fjölbreytta starfi auk þess að leiða hluti innan húss.
„Þótt annirnar séu almennt miklar þá finnst mér mikilvægt að staldra við af og til í daglega starfinu og minna mig á gildi félagsins. Óbilandi eljusemi þeirra sem hafa unnið að framgangi félagsins á hverjum tíma kemur þá oft í hugann. Þau eru aldeilis ófá handtök forvera okkar og stærstur hluti þeirra voru unninn í sjálfboðavinu. Í dag er vissulega áskorun að halda úti sjálfboðaliðastarfi, það virðist vera sammerkt með öllum þeim félögum sem ég þekki til.“
Eftir tvö ár rösk fagnar Ferðafélagið hundrað ára afmæli og þrátt fyrir aldurinn er það ekkert sérlega grásprengt og fornt í háttum en það heldur vel í hefðirnar og ber virðingu fyrir sögunni.
Ingunn segir að þau á skrifstofunni segi stundum að félagið sé pínu íhaldssamt og kannski ekki alltaf með allt í botni, en það hafi sannarlega færst áfram í takt við tímann og verið frumkvöðull á sínu sviði. „FÍ heldur sínu striki á sínum eigin forsendum,“ segir Ingunn.
Ferðafélagið hefur án vafa verið allan sinn tíma mikill aflvaki og ekki síst upp á síðkastið í þeim mikla áhuga almennings á útivist og ferðalögum innanlands sem orðið hafa. Að auki hefur félagið farið nýjar leiðir í að efla allskyns hópa til útivistar og í því sambandi má nefna Ferðafélag barnanna sem stendur í miklum blóma. Til viðbótar því hefur félagið lagt kapp á að koma fólki á hreyfingu í áföngum sem hafa kannski setið lengi í sófanum og jafnvel legið þar. Þá eru sérstakar ferðir í boði sem henta vel fyrir þau sem eru komin af léttasta skeiði. „Það má því kannski segja að félagið hafi í boði ferðir við allra hæfi, alla ævina,“ segir Ingunn.
Jökullinn í Þórsmörk og lognið og norðangarrinn á Ströndum
Ingunn og Helga Garðarsdóttir sem starfaði um langt skeið á skrifstofu FÍ en lét nýlega af störfum vegna aldurs.
Fólkið sem vinnur á skrifstofu Ferðafélags Íslands er sjálft duglegt að ganga og reyna þá fjölbreyttu þjónustu sem félagið býður. Það þarf ekki að eggja þetta fólk til að ferðast, gangan er hreinlega partur af starfinu og lífsstílnum.
„Þótt það sé mjög gaman á skrifstofunni í samhentum hópi starfsfólks þá líður mér best í gallanum á gangi í fjörunni. Mér finnst algerlega nauðsynlegt að vita alltaf hver sé stysta leiðin til sjávar. Uppáhaldsstaðirnir mínir eru Þórsmörk og Strandir. Það er ekkert sem jafnast á við að vakna að morgni og rölta niður stéttina í Þórsmörkinni og virða fyrir sér jökulinn og anda að sér fegurðinni með árniðinn í eyrunum. Fjaran á Ströndum er líka dásamleg með úandi æðarfugli á góðviðrismorgni eða þegar beljandi norðangarrinn kemur í fangið ... já og bara allt þar á milli. Þarna næri ég ræturnar og kemst í samband við mitt innra sjálf,“ segir Ingunn sem fyrir margt löngu var leikskólakennari en segist hafa verið ótrúlega heppin að hafa fengið vinnu hjá FÍ fyrir röskum þrjátíu árum, félagi sem skipti gríðarlega miklu máli fyrir Íslendinga. „ Það er í sjálfu sér mjög merkilegt að félagið hefur frá upphafi haft sömu markmiðin, að stuðla að ferðalögum á Íslandi og greiða fyrir þeim," segir Ingunn að lokum