Náttúran er guðshús okkar allra

„Þegar lundin þín er hrelld,
þessum hlýddu orðum:
Gakk þú við sjó og sittu við eld“,
svo kvað völvan forðum.

Höfundur vísunnar er ókunnur og aldur hennar óljós en ráðgjöfin jafngild nú sem þá. Móðir náttúra býr yfir miklum lækningamætti og er í senn uppspretta heilsu, krafts og huggunar. Þessi heilsubrunnur og guðshús íslenskrar náttúru stendur öllum opið. Þangað getum við alltaf sótt þann styrk og huggun sem okkur þyrstir í. Þá er gott að ganga úti og finna kaldan vind og vetrarsól á vanga.

En skáldin eru samviska þjóðarinnar og gott að leita að svörum í verkum þeirra. Eitt er það skáld sem var sérlega handgengið náttúru Íslands og það var Jóhannes úr Kötlum. Skáldið er nátengt Ferðafélagi Íslands því Jóhannes var skálavörður í Langadal á Þórsmörk árum saman. Náttúra Þórsmerkur hefur áreiðanlega orðið honum innblástur eins og sjá má í eftirfarandi ljóði.

 

Jarðerni

Af þér er ég kominn undursamlega jörð:

eins og ljós skína augu mín á blóm þín
eins og snjór lykja hendur mínar um grjót þitt
eins og blær leikur andardráttur minn um gras þitt
eins og fiskur syndi ég í vatni þínu
eins og fugl syng ég í skógi þínum
eins og lamb sef ég í þínum mó.

Að þér mun ég verða undursamlega jörð:

eins og sveipur mun ég hverfast í stormi þínum
eins og dropi mun ég falla í regni þínu
eins og næfur mun ég loga í eldi þínum
eins og duft mun ég sáldrast í þína mold.


Og við munum upp rísa undursamlega jörð.

 

Ferðafélag Íslands óskar Íslendingum öllum gleðilegra jóla og farsæls komandi ferðaárs.