Nýsköpunarganga í þágu þróunar í fiskvinnslu og útgerðar

Sigurjón Arason, prófessor í matvælaverkfræði við Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur hjá Matís
Sigurjón Arason, prófessor í matvælaverkfræði við Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur hjá Matís

Þúsund þorskar á færibandinu þokast nær, söng Bubbi Morthens í laginu Ísbjarnarblús sem kom út þann 17. júní árið 1980. Í laginu, sem talið er marka upphaf gúanó-rokksins, vísar Bubbi á nýstárlegan hátt til vinnu verkafólks í frystihúsinu Ísbirninum á þeim tíma þegar lagið sló í gegn.

Gríðarlega margt hefur breyst í vinnslu afurða úr þorski og öðrum bolfiski frá því að þetta lag ómaði fyrst í hlustum landsmanna. Nýsköpun hefur átt einna stærstan þátt í því.

Fyrirhuguð er ganga sem helguð er nýsköpun í fiskvinnslu og útgerð um gömlu höfnina í Reykjavík og þar kemur einmitt Ísbjörninn við sögu.  
Hún hefst við Kaffivagninn á Granda kl. 11 þann 29. maí. 

Hluti af samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands: Með fróðleik í fararnesti. 
Fólk er hvatt til að búa sig vel og huga vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum.

Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir. Ekkert að panta, bara mæta! 

 

„Ég mun fara yfir þá þróun sem hefur átt sér stað hér. Hérna voru um sjö frystihús fyrir 40 árum: BÚR, Hraðfrystihús Reykjavíkur og Sjófang og á öðrum stöðum í Reykjavík voru Júpíter og Mars og Kirkjusandur sem var í byggingum þar sem Íslandsbanki var síðast. Einnig var frystihús í Vogahverfinu og Ísbjörninn úti á Seltjarnanesi. Við Reykjavíkurhöfn stóð einnig Sænska frystihúsið þar sem Seðlabankinn er í dag. Ísbjörninn fluttist svo út á Granda og reisti það húsnæði sem Brim er í nú.“

Þetta segir Sigurjón Arason, prófessor í matvælaverkfræði við Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur hjá Matís en hann mun leiða nýsköpunargönguna. Varla er hægt að finna fróðari mann í þetta hlutverk. Brennandi áhugi hans á sjávarútvegi hefur verið aflvakinn í margháttaðri nýsköpun í einni mikilvægustu atvinnugrein Íslendinga. Sigurjón er býsna kvikur maður og síbrosandi og það verður án vafa gaman að kafa í hafsjó hans af fróðleik um þetta efni.

Gengið um Granda í þágu framþróunar í útvegi

Ætlunin er að ganga um bryggjurnar þar sem fiskvinnslan hefur gjarnan verið mest í Reykjavík og útgerðin hvað mest áberandi. Grandinn verður því undir iljum fólks þar sem allt iðaði af lífi og reyndar gerir enn. Þarna liggja bátar við bryggju og stór veiðiskip og vinnsla er í miklum húsum. Sjávarklasinn er líka í þessu umhverfi þar sem fjölbreytt sprota- og þjónustufyrirtæki eiga heimili. Þar er frjótt umhverfi þar sem starfsmenn ólíkra fyrirtækja stinga saman nefjum til hagsbóta fyrir heila atvinnugrein.

Leiðsögumaðurinn Sigurjón er afkastamikill vísindamaður og hefur sjálfur verið ótrúlega kröftugur þegar kemur að nýsköpun í sjávarútvegi. Verkefnin sem hann hefur unnið eru nánast óteljandi en þau hafa nær öll skilað bættum búnaði eða betri lausnum í sjávarútvegi og aukið þannig hag greinarinnar.

„Nýsköpun og rannsóknir skipta öllu fyrir þróun í sjávarútvegi en greinin hefur þróast úr því að vera afurðadrifin yfir í neytendadrifna og þá er krafist örrar nýþróunar á öllum sviðum. T.d. er mikil krafa um aukið geymsluþol ferskra afurða og nýrra pakkninga. Nýsköpunin hefur líka stuðlað að því að nýting hefur aukist og afköst á hverja unna klukkustund hafa aukist. Fyrir nokkrum árum voru afköstin um 20 til 30 kíló á manntímann en eru nú komin yfir 100 kíló. Aukin tækniþróun hefur einnig haft mikil áhrif á gæði hráefnis ásamt nýtingu og getur hvert prósent í aukinni nýtingu skilað miklum verðmætum,“ segir Sigurjón.

Breyttur skipastóll

Sigurjón víkur talinu að skipastólnum sem hann segir hafa tekið miklum stakkaskiptum frá því Íslendingar hættu að mestu veiðum á vertíðabátum og síðutogurum og fóru yfir í skuttogara og mjög öflug uppsjávarskip.

„Þessi bylting hafði í för með sér að aflameðferð varð mun hnitmiðari og nýjar afurðir hafa sprottið upp. Fyrir 25 árum fóru ísfisktogarnir í 25 til 30 sjóferðir á ári en á nokkrum árum fjölgaði sjóferðunum í um 50 til 60 á ári. Meiri kröfur ráða þessu um ferskleika hráefnis og nýjar ferskar afurðir. Ísfisktogurum hefur samt fækkað mikið og nýting þeirra hefur aukist, þeir eru lengur á sjó og koma með meiri afla að landi. Frystitogurunum fækkuðu mikið fyrir 20 árum og þeim hefur fækkað áfram síðustu árin. Þessi þróun hefur haldið áfram,“ segir Sigurjón.

Sigurjón hefur lagt kapp á að starfa mjög náið með fyrirtækjum í veiðum og framleiðslu og aðilum sem þróa tæki og hátæknibúnað til vinnslu sjávarafurða. Þá hefur hann lagt kapp á að nemendur taki þátt í rannsóknum en hann hefur leiðbeint fjölda meistara- og doktorsnema í gegnum tíðina. Sigurjón er á því að grunnrannsóknir eigi að vera undanfari tæknilegrar þróunar í atvinnulífinu til að draga úr mistökum og flýta framförum, ekki bara í sjávarútvegi heldur í öllum atvinnugreinum.

Færri fiskvinnslur og sérhæfing mikil

„Fiskvinnslan hefur sérhæft sig og fiskvinnslunum hefur fækkað og samtímis hafa þær stækkað, segir Sigurjón og heldur áfram. „Í dag eru tvö fiskvinnslufyrirtæki, þ.e. Brim og Fiskkaup hér í borginni. Brim hefur sérhæft sig í ferskum og lausfrystum afurðum. Fiskkaup hafa sérhæft sig í að framleiða aðallega léttsaltaðar og saltaðar afurðir. Fiskkaup hefur mest línufisk á meðan Brim er eingöngu að vinna togaraveiddan fisk. Brim hefur einnig öfluga uppsjávarvinnslu á austurlandi – á Vopnafirði.“

Sigurjón segir að fyrirtækin hafi stuðlað að þróun vinnsluferla og nýju skipin sem Brim sé með fyrir ferskan fisk séu með alveg nýja tækni þar sem fiskurinn er blóðgaður, slægður og síðan ofurkældur á dekkinu. Aftast á dekkinu sé fiskinum síðan raðað í fiskker og hann fluttur niður í sjálfvirka lest.

„Aflinn er ekki ísaður heldur er geymsluhitastigið í lestinni haft -1 til 1,5° stig. Doktors- og meistaranemendur hafa komið mikið að þessari þróun í samstarfi með atvinnulífinu, þ.e. Brimi, Marel og Skaganum-3X. Það hefur tekist mikið og gott samstarf með fiskvinnslufyrirtækjunum og tækjaframleiðendum og nemendum í framhaldsnámi og sumir hverjir síðan orðið framtíðarstarfsmenn fyrirtækjanna,“ segir Sigurjón.

Nýjungasmiðurinn frá Neskaupsstað

Áhugi Sigurjóns á útvegi og fiskvinnslu kviknaði afar snemma. Hann ólst upp í sjávarþorpi og þar snerist allt um sjávarútveg. „Faðir minn var brautryðjandi Hornfirðinga í humarveiðum og ég var til sjós nokkrar vertíðir með honum frá Höfn. Ég var um tíu ára þegar ég hóf að vinna í fiski í Neskaupstað. Ég hef haft mikinn áhuga á að nýta allt sem veiddist og ganga vel um auðlindina okkar. Efna- og eðlisfræðin hefur alltaf staðið mér nærri og því eðlilegt að ég nýtti mér þennan áhuga í ævistarfið.“

Sigurjón hefur komið að ótrúlegum fjölda verkefna sem hafa skilað sér í hreinum tekjum fyrir íslensk fyrirtæki og þjóðarbú. Hann hefur ásamt fjölmörgum samstarfsaðilum úr atvinnulífinu og þekkingarsamfélaginu, komið að því að þróa byltingarkenndar aðferðir til kælingar á fiski, m.a. á makríl sem hefur stóraukið útflutningsverðmæti afurðanna, stuðlað að vinnslu og þurrkun á vannýttu aukahráefni og fisktegundum, endurhannað umbúðir og fiskkassa til að tryggja betur gæði hráefnis og afurða, þróað frystingu fisks og vinnslu saltfisks til að auka verðmæti, unnið að bættri meðhöndlun afla og bættu geymsluþoli fisks, bætt stýringu á veiðum og notkun veiðarfæra, fundið leiðir til að nýta betur aukaafurðir úr hráefnum sem jafnvel var hent en undir þetta falla fiskinnyfli, lifur, svil, hausar, hryggir, sundmagi og roð sem breytt var í verðmætar afurðir. Hér er fátt eitt talið.

Mikil tæknivæðing

Þegar Sigurjón er spurður út í hvaða breytingar hafi orðið mestar í sjávarútvegi frá því að útgerð hófst í Reykjavík nefnir hann strax mikla fækkun fyrirtækja og starfsmanna.

„Fyrirtækin eru stærri og mikil tæknivæðing í vinnslu og veiðum hefur átt sér stað. Miklu betri nýting á hráefni hefur þróast mikið síðustu 40 ár og vinnsla hliðarhráefna hefur aukist mikið. Sem dæmi þá er Zymetech ehf. er með aðalstöðvar sínar hér á Granda en fyrirtækið nýtir ensím úr þorskmögum í sínar afurðir. Lýsi hf. er einnig hér sem nýtir lifur í vinnslu á fjölmörgum lýsisafurðum. Lýsi er eitt þekktasta fyrirtæki á þessu sviði í heiminum.“

Betri nýting orku og aukin hagkvæmni

Sigurjón segir að Brim og Fiskkaup hafi bæði aðsetur í gömlu höfninni en flest frystiskipin sem landi í Reykjavík landi beint í frystiklefa skipafélaganna Eimskips og Samskips.

„Ísfiskskipin hjá Brimi landa beint inn í móttökuna og fiskiðjuverið getur afkastað rúmlega hundrað tonnum af hráefni á dag. Hér á Granda var ein fiskmjölsverksmiðja sem hét Faxamjöl og önnur sem kallaðist Klettur var í Lauganesi. Það voru um 45 til 50 fiskmjölsverksmiðjur í landinu á síldarárunum fyrir hálfri öld en núna eru þær um tíu. Uppsjávarskipin voru um 200, en í dag eru þau um 20 og koma með aflann ofurkældan í land.“

Sigurjón segir að auk þess að vera arðbærari þá séu fyrirtækin líka umhverfisvænni. Allur veiðiflotinn noti t.d. um 140 þúsund tonn af olíu í dag en fyrir 30 árum var notkunin um 250 þúsund tonn. Fiskmjölsverksmiðjurnar noti núna eingöngu rafmagn í sína framleiðslu en þær notuðu um 40 þúsund tonn af olíu fyrir 30 árum.

„Stór hluti af hráefni fiskmjölsverksmiðjanna fyrir 40 til 50 árum var hliðarhráefni frá bolfiskvinnslu en núna er þetta hráefni notað í dýrmætar afurðir. Stærsti hluti þess er þurrkaður með jarðhita og seldur sem gæðaafurð til manneldis í Afríku.“