10-12 september s.l var efnt til kvennaferðar á vegum Ferðafélags Íslands í Þórsmörk. Hópurinn var undir leiðsögn Eyrúnar Viktorsdóttur og Völu Húnboga sem eru rísandi stjörnur í hópi fararstjóra félagsins. Kvennaferðir njóta mikilla vinsælda um þessar mundir og var verulega glatt á hjalla í Skagfjörðsskála í Langadal þar sem Ferðafélagsfólk hefur skemmt sér frá 1954.
Í þessum skála hefur oft verið ort og sungið á gleðistundum. Frægasta Þórsmerkurljóð allra tíma er áreiðanlega María, María sem Sigurður Þórarinsson orti seint á sjötta áratugnum og öll þjóðin kann að syngja.
En nýjir tímar geta af sér ný kvæði og eftir kvennaferðina í Þórsmörk á dögunum orti Guðrún Pálsdóttir eftirfarandi kvæði sem auðvelt er að syngja undir laginu: Komdu og skoðaðu í kistuna mína -eða Tryggðapantarnir. Hér birtist kvæðið í heild og getur hver og einn sungið hástöfum.
Þórsmerkurferð kvenna
Þórsmörk er gimsteinn og gleðina finnum
við gangandi konur þar frelsinu í.
Hreyfingarþörfinni hressar við sinnum
og hræðumst svo langt í frá þoku og ský.
Og vonirnar rætast þótt roðni vel kinn
er rekjum við stíga um fjallasalinn.
Trarallallarallarallallarall ......
Þær stjórna‘ okkur faglega, stýrurnar ungu
og stefna á toppana hiklaust og bratt.
Við hoppuðum, hrösuðum - hæðirnar sungu -
og heim vorum komnar í skálann allhratt.
Þar borðuðum, drukkum og höfðum vel hátt,
í huganum syngjandi langt fram á nátt.
Trarallallarallarallallarall ......
Nú dreymir oss allar um dásemdarferðir,
um dýrlegar myndir í klettanna sal
og vitum að hreyfingin vel okkur herðir
- er viska mun betri en nöldur og hjal.
Og vitið þið, stýrur, svo vönduð var gerð
að við erum tilbúnar í nýja ferð!
Trarallallarallarallallarall ......
Texti: Guðrún Pálsdóttir