Vegna samkomutakmarkana þurfa þátttakendur nauðsynlega að skrá sig á heimasíðu Ferðafélags Íslands.
Pödduskoðunin er einn allra vinsælasti viðburðurinn í fróðleiksröðinni þar sem fjölskyldufólk safnast saman við gömlu rafstöðina í Elliðaárdal og fær hjálp við að greina og skoða pöddur í smásjám. Að þessu sinni er því miður ekki hægt að nota smásjárnar vegna smithættu.
Vísindamenn Háskólans mæta engu að síður með tól og tæki en krakkar og fullorðnir er hvött til að koma með stækkunargler sem gerir þetta vísindaævintýri miklu skemmtilegra.
Skordýr eru „svo falleg!“
Þótt mörgum finnist skordýr afar ógeðfelld þá er Gísli Már Gíslason, leiðsögumaður hjá Ferðafélagi Íslands og prófessor í líffræði við Háskóla Íslands á allt öðru máli. Gísli Már mun leiða gönguna eins og undanfarin ár og hann veit líka að skordýr eru örlítið skyld manninum þótt við getum nú seint sagt að hrossaflugan sé systir okkar. „Menn og skordýr eiga sameiginlegan forföður í fyrndinni eða fyrir 550 milljónum ára svo skyldleikinn er nú frekar lítill,“ segir hann og hlær en bætir því við að það sé engu að síður margt sem geri skordýr afar heillandi.