Ferðafélagið Norðurslóð býður upp á nýjung sem er fimm daga bækistöðvarferð dagana 19. – 23. júní og er erfiðleikastig ferðarinnar einn skór.
Raufarhöfn er þorp við heimskautsbaug með mikla sögu og birtan er töfrandi á Melrakkasléttu um sólstöðurnar þegar sólin sest ekki. Fuglalífið er fjörugt og fjölskrúðugt. Meðal annars verður gengið á tvo nyrstu tanga landsins og meðfram fengsælum veiðiám, komið á söguslóðir Fóstbræðrasögu, sungið í vitum, sagðar síldasögur, sögur af fólki, fuglum, hvölum og fleiru
Þessi ferð er einn skór eins og áður sagði, dagleiðir eru 7 – 14 km, ekki þarf að vaða, gengið er á sléttlendi og að mestu leyti á góðu göngulandi.
Gisti er í gistihúsi með uppbúnum rúmum og góðri aðstöðu til að útbúa morgunmat og nesti. Einnig til að njóta samveru á kvöldin við fróðleik og skemmtun eftir göngu og heimsókn í sundlaugina. Kvöldmatur er innifalinn.
Nauðsynlegt er að skrá sig í ferðina í síðasta lagi 10. júní.
Allar nánari upplýsingar og skráning hjá ffnordurslod@simnet.is.
Verð: 54.000/ 59.000. Innifalið: Gisting, 3 x kvöldmatur, göngukort, fararstjórn.