Rennandi vatn í Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi

Nú er komið rennandi vatn í Baldvinsskála á Fimmvörðuhálsi. Ferðafélagið hefur í mörg ár unnið að því að koma vatni á í Baldvinsskála og eftir fjölmargar rannsóknar- og vettvangsferðir, mælingar og verkfræðilegar vangaveltur þá er rennandi vatn komið á í Baldvinsskála. Stefán Jökull Jakobsson umsjónarmaður skála FÍ og Daníel Guðmundsson, hans aðstoðarmaður kláruðu þetta verkefni í dag.
 
Fimmvörðuháls er næst vinsælasta gönguleið landsins, á eftir Laugaveginum. Þetta eru tímamót fyrir allt útivistarfólk sem gengur þessa vinsælu gönguleið og fer í sögubækurnar, 14 árum síðar eftir að FÍ undirritaði kaupin á Baldvinsskála, af Flugbjörgunarsveitinni í Skógum, Baldvini Sigurðssyni og félögum.
Tveimur árum síðar flutti FÍ nýjan skála upp á Fimmvörðuháls, í stað þess gamla sem var fargað. Að loknu margra ára þróunar- og rannsóknarstarfi tókst að finna vatnslind, virkja hana og koma vatni yfir 2 km langa leið í skálann, með hyggjuviti og handafli.
 
Baldvin hafði um langt árabil þjónustað skálann, m.a. með flutningi á vatni og fleiri mikilvægum verkum sem gerast svo sannarlega ekki af sjálfu sér.
Honum til heiðurs,félögum í flugbjörgunarsveitinni og bændum undir Eyjafjöllum er ánægjulegt að hafa klárað þetta verkefni..