Skálaverðir í alla skála FÍ á Laugaveginum

Skálaverðir eru nú komnir í alla skála FÍ á Laugaveginum. Aðstæður á gönguleiðinnni eru almennt góðar þrátt fyrir mikil snjóalög á fyrsta og öðrum legg leiðarinnar til og frá Hrafntinnuskeri.  Fjallabaksvegur upp Fljótshlið er enn lokaður vegna snjóa en fylgjast má á vef vegagerðarinnar hvernær vegurinn opnar.

 

 

Aftur á forsíðu vefs

Laugavegurinn

1. Landmannalaugar-Þórsmörk (Laugavegurinn)

Inngangur

Laugavegurinn er einhver fjölfarnasta og vinsælasta gönguleið um íslensk öræfi. Hróður hennar hefur borist víða, því það eru ekki síður erlendir en íslenskir ferðamenn sem ganga Laugaveginn ár hvert. Þetta er ekki að ástæðulausu því óvíða er jafn mikil fjölbreytni í landslaginu, fjöll í næstum öllum regnbogans litum, háir jöklar, öskrandi hverir, stórfljót, stöðuvötn og margt fleira.  Algengast er að hefja göngu eftir Laugaveginum í Landmannalaugum (600 m.y.s.)
Einnig er hægt að ganga frá Þórsmörk í Landmannalaugar.

Gönguferð um Laugaveginn er krefjandi en ánægjuleg ganga um mjög fjölbreytilegt landslag.

Flestir ganga leiðina á fjórum dögum en það er hægt á bæði skemmri eða lengri tíma. Leiðina ganga þúsundir á hverju ári. Mikilvægt er að göngufólk haldi áætlun til að nýting skálarýmis verði sem best. Þeir sem pantað hafa gistingu í skálum fyrir ferðina, hafa forgang að gistirými.

Laugavegurinn opnar um 20. júní á hverju sumri og af öryggisástæðum og af tilliti við náttúna eru ferðamenn beðnir um að leggja ekki af stað í Laugavegsgöngu fyrr en skálar FÍ á leiðinni opna.

Atriði sem vert er að hafa í huga áður en lagt er af stað

1. Eruð þið með fatnað og skó sem henta fyrir gönguna? 
Góðir gönguskór og hlífðarfatnaður ásamt nesti, svefnpoka og hefðbundnum útivistarbúnaði er nauðsynlegur fyrir Laugavegsgöngu.

2. Er nægur matur til ferðarinnar? Enginn matur eða veitingar eru seldar á leiðinni.

3. Eruð þið með kort, áttavita eða GPS tæki? Setjið inn GPS staðsetningar fyrir skálana sem og aðrar staðsetningar sem nefndar eru í leiðalýsingunni.

4. Eigið þið pantaða gistingu í skálum?. Mikilvægt er að panta gistingu fyrirfram til að komast hjá óþægindum.
Tilkynnið skálavörðum um brottför og komur í skála.

5. Haldið ykkur sem mest á stikuðu leiðinni til að hlífa landinu við óþarfa átroðningi. Þetta er einnig miklvægt öryggisins vegna þar sem skyggni er ekki alttaf upp á það besta á vissum hlutum leiðarinnar.

6. Tjaldið við skála eða á merktum tjaldstæðum. Í Friðlandi að Fjallabaki er bannað að tjalda utan merktra tjaldstæða.

7. Farið varlega yfir óbrúaðar ár. Skoðið vaðið vel og vaðið helst í skóm.

8. Allir sem ganga Laugaveginn gera það á eigin ábyrgð.

9. Kynnið ykkur veðurspá áður en þið leggjið í Laugavegsgöngu. Skjótt skipast veður í lofti á hálendi Íslands.

Sjá myndir teknar frá Laugaveginum

Sjá myndir af skálum FÍ á Laugaveginum

Skilti - Laugavegurinn - gönguleiðir

Verðskrá í skála FÍ

Laugavegur 1
Ferðafélag Íslands setti upp 10 ný skilti á Laugaveginum í sumarið 2007.  Menningarsjóður Visa styrkti verkefnið með myndarlegum hætti.  Sjá nánari upplýsingar

Laugavegurinn-kápa 
Á skrifstofu FÍ fæst gönguleiðabæklingur um Laugaveginn með góðri lýsingu gönguleiðum milli skála og öðrum helstu gönguleiðum á leiðinni. Auk þess kort af svæðinu og myndir. Bæklingurinn er einnig fáanlegur á ensku.  Leifur Þorsteinsson og Guðjón Magnússon eru höfundar texta.

Hér fylgir  stutt lýsing á hverjum göngulegg á Laugaveginum.  Nánari lýsingu er að finna á undirsíðum á þessum tengli.

1. áfangi: Landmannalaugar - Hrafntinnusker (Höskuldsskáli)
Vegalengd 12 km
Áætlaður göngutími 4-5 klst
Lóðrétt hækkun 470 m
Upp frá skála í Landmannalaugum (75 gistirými, GPS 63°59.600 - 19°03.660) liggur leiðin yfir úfið Laugahraunið, síðan upp eftir hlíðum Brennisteinsöldu og inn á hásléttuna. Litadýrðin á þessum slóðum er ólýsanleg. Landið er einnig mjög sundurskorið. Eftir 3 - 4 tíma göngu er komið að Stórahver. Leiðin frá Stórahver og upp í Höskuldsskála (36 gistirými, GPS 63°55.840 - 19°09.700) er í flestum árum undir snjó. Þegar komið er upp í skarðið á milli Hrafntinnuskers og Söðuls blasir skálinn við. Við höfum einnig útsýni til Kaldaklofsfjalla með Háskerðing hæstan fjalla. Svæðið er mjög þokugjarnt og því rétt að fara varlega þótt leiðin sé stikuð. Enginn, sem gistir Hrafntinnusker ætti að láta hjá líða að ganga vestur að Íshellunum, sem eru u.þ.b. 1,5 km frá skálanum

2. áfangi: Hrafntinnusker - Álftavatn
Vegalengd 12 km
Áætlaður göngutími 4-5 klst
Lóðrétt lækkun 490 m
Í Hrafntinnuskeri blasa við okkur gróðurvana fjöll og jöklar, ekki sérlega hlýlegt en ægifagurt. Fyrst liggur leið okkar meðfram hlíðum Reykjafjalla. Um er að ræða dalbotn með nokkrum giljum, sem ber að fara yfir með gát því oft eru þau hálffull af snjó. Við erum nú stödd við rætur Kaldaklofsfjalla. Ef veður er gott er sjálfsagt að ganga á Háskerðing, en hann er hæsta fjall á þessum slóðum, 1281 m.y.s. Óvíða á Íslandi er útsýni jafnfagurt og fjölbreytilegt og af tindi þessa fjalls. Framundan eru nokkur gil, uns komið er á brún Jökultungna. Að baki eru gróðurvana, litrík líparítfjöll en framundan eru dökk móbergsfjöll og jöklar. Einnig eykst gróður til muna. Leiðin niður Jökultungurnar er talsvert brött. Neðst í þeim, á bökkum Grashagakvíslar, er ákaflega vinaleg gróðurvin, þar sem sjálfsagt er að stansa. Þaðan suður að Álftavatni er gengið í sléttlendi. Skálarnir tveir standa norðan vatnsins. (58 gistirými, GPS 63°51.470 - 19°13.640)

3. áfangi: Álftavatn-Emstrur (Botnar)
Vegalengd 15 km
Áætlaður göngutími 6-7 klst
Lóðrétt lækkun 40 m
Fyrst er gengið yfir Brattháls og austur í Hvanngil. Vaða þarf Bratthálskvísl. Af hálsinum ofan Hvanngils er ákaflega fagurt yfir að líta. Þar eru tvö hús; gangnamannaskáli, reistur 1963 og aðstaða fyrir ferðafólk sem Rangvellingar reistu 1995 en nú er aðstaðan í eigu FÍ. Frá áningarstað í Hvanngili er fljótlega komið að Kaldaklofskvísl. Á henni er göngubrú. Austan kvíslar skiptast leiðir, annars vegar austur Mælifellssand (F 210) og hins vegar suður Emstrur (F 261), þangað sem leið okkar liggur. Innan við kílómetra frá Kaldaklofskvísl þarf að vaða aðra á, Bláfjallakvísl. Eftir u.þ.b. 4 km göngu er komið að Nyrðri-Emstruá. Brú var byggð yfir hana 1975. Framundan eru Útigönguhöfðar tveir. Á milli þeirra liggur leið okkar. Nú líður ekki á löngu þar til við stöndum á brúninni ofan skálans í Botnum. (40 gistirými, GPS 63°45.980 - 19°22.480) Upplögð kvöldganga er vestur í Markarfljótsgljúfur.

4. áfangi: Emstrur (Botnar) - Þórsmörk
Vegalengd 15 km
Áætlaður göngutími 6-7 klst
Lóðrétt lækkun 300 m
Þar sem Syðri-Emstruárgljúfrið nær langleiðina inn að Entujökli verðum við að byrja á því að taka á okkur talsverðan krók áður en hin eiginlega ganga suður Almenninga hefst. Brattur krákustígur er niður að göngubrúnni á Syðri-Emstruánni. Farið varlega. Við ármótin á Markarfljóti og Syðri-Emstruá er sjálfsagt að ganga fram á gljúfurbarminn. Nú hefst hin eiginlega ganga suður Almenninga. Land breytist þegar komið er fram í Úthólma suður við Ljósá. Þar rennur áin í fallegu gljúfri sem víða er vaxið birki og blómum. Sunnan Kápu er Þröngá næst okkur. Hana verðum að vaða. Sjálfsagt er að ganga hönd í hönd og hleypa undan straumi. Þröngá skilur á milli Þórsmerkur og Almenninga. Þaðan er rúmlega 30 mín. gangur suður í Skagfjörðsskála í Langadal á Þórsmörk. (75 gistirými, GPS 63°40.960 - 19°30.890) Síðasti spölurinn er skemmtilegur, enda hlýleg tilbreyting að ganga í skóglendi eftir gróðursnautt hálendið, sem nú er að baki.



Aðalstyrktaraðili FÍ

Stuðningsaðilar FÍ

Forsíða »

Gönguleiðir » Laugavegurinn

Stjórnborð

Forsíða vefsins Stækka letur Minnka letur Senda þessa síðu Prenta þessa síðu Veftré Hamur fyrir sjónskerta

Information in other languages


Mynd


Veldu ferðafélag


Samskipti


Vefurinn keyrir á vefumsjónarkerfinu Outcome Vefstjóra

-->