Sú nýbreytni verður tekinn upp í vetur að skálavörður á vegum Ferðafélags Íslands verður staðsettur í Landmannalaugum meira eða minna alla vetrarmánuðina.
Umferð hefur verið að aukast í Landmannalaugum að vetri til. Ekki aðeins leggja stöðugt fleiri jeppa- og sleðaferðalangar leið sína í Laugar, heldur er mikil aukning þeirra sem kjósa að ferðast gangandi eða á gönguskíðum um Fjallabakssvæðið.
Fastur skálavörður í Landmannalaugum skilar ekki bara aukinni þjónustu sem birtist meðal annars í hreinum skálum og salernisaðstöðu. Skálavarslan eykur líka öryggi ferðalanga til mikilla muna enda eru veður válynd að vetri til á hálendi Íslands og mikilvægt að geta gengið að aðstoð og upplýsingum.
Það er þrautreyndur skálavörður Ferðafélags Íslands, Elíza Lífdís Óskarsdóttir, sem í vetur mun að mestu halda heimili í Laugum og taka á móti vetrarferðalöngum. Athugið þó að í desember verður viðvera skálavarðar reyndar aðeins eftir þörfum, þ.e. ef skálabókanir eru miklar.
Allir sem ætla í ferð í Landmannalaugar er bent á að byrja á því að hafa samband við skrifstofu FÍ í síma 568 2533 til að kanna með færð og laus pláss í skálanum. Sími skálavarðar í Landmannalaugum er 860 3335. Við viljum einnig benda á fésbókarsíðu Landmannalauga þar sem reglulega birtast fréttir af færð og aðstæðum.