Skálavörður mættur í Landmannalaugar

Skálavörður er mættur í Landmannalaugar

Við fórum upp eftir mánudaginn 17. febrúar og gekk ferðin vel. Harðfenni og gott bílafæri, en ekki góð færð fyrir vélsleða eða skíði. Þegar komið var að sléttunum við Eskihlíð og Hnausapoll var ansi mikill blámi og krapalegt útlit. Við tókum þá ákvörðun að fara krapaleiðina með hlíðunum, og gekk sú ferð vel. Auðvelt var að finna leið upp úr ánni þegar komið var inn í Laugar. Allt var í lukkunnar velstandi í Landmannalaugum; húsin heit og vel gekk að koma vatni á staðinn, bæði í vaska og salerni.

Morguninn eftir var allt á kafi í snjó, enda hafði snjóað duglega um nóttina og skafið fyrir allar hurðir. Mikið var mokað þann daginn, enda von á fótgangandi gestum sem dvelja hér í þrjár nætur, kanna umhverfið og njóta baðs í lauginni.

Síðasti sólarhringur hefur verið þungbúinn með mikilli rigningu, og var varla bílafært hingað upp eftir. Vonandi stendur það til bóta, því spáð er frosti og snjókomu um helgina, og væntanlegur er stór hópur gönguskíðafólks. Til stendur að halda hér gæslu óslitið fram yfir páska, svo lengi sem færð leyfir að fólk og farartæki komist hingað upp í vetrarparadísina.

Kveðja frá Laugaverðinum.