Um þessar mundir eru síðustu ferðamenn sumarsins á gangi um hinn undurfagra Laugaveg en haustið er sérlega fallegur tími á þessum slóðum. Skálum í Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Hvanngili og Emstrum verður lokað um miðjan september. Skálinn í Landmannalaugum verður opinn fram í nóvember og skálinn í Langadal á Þórsmörk fram til miðs október.
Þessi áform eru þó sveigjanleg í þeim skilningi að sé eftirspurn eftir gistiplássi á haustmánuðum þá verður opið eftir hentugleikum. Full ástæða er til þess að hvetja fólk til útivistar á þessum árstíma. Haustlitir í Þórsmörk gleymast engum sem séð hefur og á köldum haustdögum verður loftið tært og stillt og útsýni eykst til muna. Auk þess fylgir haustinu sérstök tegund af trega og eftirsjá þegar fuglar himinsins þagna og fljúga til suðurs meðan gróður sölnar og leggst í vetrardvala til þess að vakna á ný að vori.