Vegna breytinga á sóttvarnarreglum og hertra samkomutakmarkanna sem tóku gildi á miðnætti breytir Ferðafélag Íslands starfsemi sinni sem hér segir. Allir skálar félagsins eru lokaðir til 15. apríl. Öllum námskeiðum,t.d. í skyndihjálp og jöklabroddanámskeiði er frestað og öllum almennum ferðum er frestað eða aflýst nema hægt sé að tryggja 9 + 1. Fjalla- og hreyfiverkefnum verður fram haldið með níu þátttakendum og einum fararstjóra í hverri brottför, heimaverkefnum og hvatningu og áhersla lögð á að fylgja til hins ítrasta persónubundnum sóttvörnum. Umsjónarmenn verkefna útfæra ferðir og heimaæfingar og senda ítarlegri upplýsingar til þátttakenda.
Allir út að ganga heiman frá
Á vordögum 2020 stóð Ferðafélag Íslands fyrir almannavarnagöngum þar sem fólk var hvatt til að fara út og hreyfa sig. Nú sem fyrr þegar reglur eru hertar þá er mikilvægt að fólk haldi áfram að hreyfa sig, fari út að ganga, hjóla, hlaupa eða geri hvað annað sem felur í sér góða útivist og samkvæmt reglum um samkomubann.
Í Almannavarnargöngum er farið í stuttar einfaldar gönguferðir, helst heiman frá og nærumhverfið skoðað. Tilvalið er að hringja í vin og hvetja hann til að fara út og hreyfa sig. Þátttakendur í Almannavarnagöngunum taki líka myndir af sér í hverri göngu og sendi á facebook með myllumerkinu ferdafelagislands og FÍ Almannavarnagöngur.
Vegna hertra samkomutakmarkanna verður opnunartími skrifstofu Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6 skertur.
Frá 25.mars til 14. apríl verður opið hjá okkur frá kl. 12- 16. Sími á skrifstofu er 568 2533 og hægt að senda tölvupóst á fi@fi.is.
Ferðafélag Íslands hvetur alla til að huga vel að persónubundnum sóttvörnum og fara varlega í samskiptum og gæta vel að fjarlægðarmörkum.