Skýrsla stjórnar FI 2023

Ólöf Kristín Sívertsen forseti FÍ flutti skýrslu stjórnar á aðalfundi í gær
Ólöf Kristín Sívertsen forseti FÍ flutti skýrslu stjórnar á aðalfundi í gær

Ólöf Kristín Sívertsen forseti FÍ flutti skýrlsu sjórnar á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær í sal félagsins Mörkinni 6: 

 

Kæra félagsfólk,

Það gleður mig mjög að sjá ykkur öll hér á þessum aðalfundi Ferðafélags Íslands, félagsins okkar. Það er óhætt að segja að þetta fyrsta ár mitt sem forseti félagsins hafi verið viðburðaríkt, ánægjulegt og lærdómsríkt í alla staði. Ellefu stjórnarfundir voru haldnir á árinu en í stjórninni, ásamt mér, sitja þau Sigrún Valbergsdóttir (varaforseti), Gestur Pétursson (gjaldkeri), Gísli Már Gíslason (ritari) ásamt þeim Elínu Björk Jónasdóttur, Pétri Magnússyni, Salvöru Nordal, Sigurði Ragnarssyni og Tómasi Guðbjartssyni. Stjórnin hefur síðan átt í traustu og ánægjulegu samstarfi við Pál Guðmundsson, framkvæmdastjóra félagsins.

 

Fjölmargt fólk kemur að starfi félagsins í gegnum nefndir og sjóði:

Ferðanefnd: Tómas Guðbjartsson formaður, Salóme Hallfreðsdóttir, Hrönn Vilhjálmsdóttir og Páll Ásgeir Ásgeirsson

Byggingarnefnd: Sigurður Ragnarsson, Stefán Jökull Jakobsson og Páll Guðmundsson

Útgáfunefnd fræðslurita: Birgir Sigurðsson, Birgir Guðmundsson og Ólöf Kristín Sívertsen

Í samvinnunefnd um Friðland að Fjallabaki: Ólafur Örn Haraldsson

Mörkin 6, húsfélag: Páll Guðmundsson

Í stjórn minningarsjóðs Ársæls Jónssonar og

Minningarsjóður Páls Jónssonar: Ólöf Krístín Sívertsen

Uppstillingarnefnd: Valtýr Sigurðsson formaður, Ólöf Sigurðardóttir, Steinunn Leifsdóttir

Umsjón árbókar: Daníel Bergmann

Ritnefnd árbókar: Gísli Már Gíslason líffræðingur formaður, Eiríkur Þormóðsson, Guðrún Kvaran, Pétur Eggertz

Umsjón með samfélagsmiðlum og fréttapósti: Skrifstofa FÍ

 

Kjörsvið félagsins er sem fyrr ferðir, skálarekstur, uppbygging gönguleiða og aðstöðu fyrir ferðafólk, útgáfustarf, fræðsla og náttúruvernd. Allt miðar þetta að því að gera fólki kleift að bæta heilsu sína og lífsgæði.

Árið 2023

Útgáfa Ferðaáætlunar markar ávallt upphafið að nýju starfsári félagsins. Ferðaáætlun 2023 kom út í byrjun desember 2022 og birtist með stafrænum hætti á heimasíðu og samfélagsmiðlum félagsins. Lögð er aukin áhersla á stafræna útgáfu og var ferðaáætlunin því eingöngu gefin út í netútgáfu. Slíkt hefur margvíslega kosti, bæði m.t.t. umhverfisverndar og rekstrar. Að auki gefur stafræn útgáfa möguleika á meiri sveigjanleika, t.d. með nýjum ferðum með styttri fyrirvara. Viðtökur hafa verið afar góðar við þessum áherslubreytingum. Langflest félagsfólk nýtir sér tæknina og skoðar áætlunina á netinu. Ferðaáætlunin var þó einnig aðgengileg til niðurhals í prentvænni útgáfu á heimsíðunni fyrir þá sem vildu prenta hana og eiga heima.

Ferðaáætluninni var vel tekið og vinsælustu ferðirnar voru orðnar fullbókaðar fyrir hádegi daginn sem áætlunin leit dagsins ljós. Að venju gætti mikillar fjölbreytni í framboði ferða enda markmið félagsins að öll geti þar fundið eitthvað við sitt hæfi. Eitt af hlutverkum félagsins er að greiða götu ferðafólks og kynna það fyrir náttúru landsins. Er það m.a. gert með aðgengilegum ferðum, einföldum og ódýrum. Fjölmargir gönguhópar og fjallaverkefni sem hafa notið mikilla vinsælda frá því að þau verkefni urðu hluti af ferðaframboði félagsins í kringum 2010.

Fararstjórar Ferðafélagsins Íslands eru félagsfólk með ástríðu fyrir ferðalögum og fjallamennsku og búa að mikilli reynslu og þekkingu sem þeir miðla til þátttakenda í ferðum. Félagið er stolt af þessum breiða hópi fararstjóra sem kemur úr ólíkum áttum með mismunandi bakgrunn en markmiðið er að hver fararstjóri geti blómstrað út frá eigin styrkleikum. Í ferðum þar sem eru margir fararstjórar vinna þeir saman og deila hlutverkum. Hópurinn samanstendur af um 50 fararstjórum þar sem kynjahlutfallið er nálægt því að vera jafnt, helmingur konur og helmingur karlar.

Öryggi þátttakenda er lykilatriði í öllum ferðum félagsins. Gleði og jákvæð upplifun fylgja þar strax í kjölfarið því öll eiga að upplifa sig örugg í ferðum með Ferðafélaginu og það á að sjálfsögðu að vera gaman. Í gönguferðum, sérstaklega í þeim lengri eða í fjallaverkefnum, myndast margvísleg félagsleg stemming þar sem hver og einn þátttakandi fær tækifæri til að njóta og miðla af sínum viskubrunni.

Of langt mál er að telja upp allar ferðir og verkefni félagins, fararstjóra þeirra og umsjónarfólk, en öllum fararstjórum er hér með þakkað fyrir einstakt starf í þágu félagsins. Heiðrún Meldal ferðafulltrúi og skrifstofa FÍ hefur staðið þétt við bakið á ferðanefnd og fararstjórum og annast alla daglega umsýslu við ferðir og verkefni.

 

Ferðafélagið fór í gegnum þriðju úttekt Vakans á árinu og hefur, frá því að Vakinn var innleiddur í starfsemina árið 2015, skorað hátt í öllum úttektum og náð vel yfir 90% úttektarviðmiða. Félagið hefur einnig áður innleitt málstefnu, umhverfisstefnu, starfsmannastefnu og stefnu í áreitis- og ofbeldismálum (EKKO).

Starfsemi félagsins er áfram háð breytingum og óvissu í því umhverfi sem það starfar í. Verðbólga, vextir, deilur á vinnumarkaði, stríð, eldgos, veðurfar og fleira eru allt saman atriði sem hafa áhrif á rekstur félagsins. Í verðbólgu og háu vaxtaumhverfi er það gríðarlega mikilvægt og sterkt að félagið er skuldlaust og varfærin stefna stjórnar og stjórnenda þegar kemur að öllum rekstri félagsins sannar gildi sitt við slíkar aðstæður. Langvarandi neikvæðar fréttir af kjaradeilum, stríðsátökum, eldgosum og jafnvel leiðindatíð hefur áhrif á fólk og um leið á bókanir. Þannig var t.d. leiðindatíð á landinu í maí og júní, með miklum kulda og vætu, og fjölmargir landsmenn flykktust í ferðir erlendis. En en í byrjun júlí brast hins vegar á með sól og bongóblíðu og veðrið lék við landsmenn langt fram á haust. Það hafði samstundis áhrif á bókanir seinni hluta sumars þar sem fjölmargar ferðir voru fullbókaðar. Í heildina var því ferðarekstur félagsins góður og fín þátttaka í ferðum. Áfram eru þó óvissuþættir sem einkenna starfsumhverfi félagsins en svarið við því er að vera stöðugt á tánum og vinna með stefnumiðaða breytingastjórnun.

Á Kóvid-tímum fjölgaði félagsfólki og urðu mest tæplega 11.000. Mikið af nýju fólki, sem kom inn á þessum tíma, hélt áfram að taka þátt í starfi félagsins 2022 en með auknum ferðum erlendis 2023, og jafnvel langtímadvöl utanlands, þá fækkaði nýjum félögum á árinu.

Það er einstaklega ánægjulegt að þrátt fyrir krefjandi aðstæður í rekstrar- og starfsumhverfi félagsins gekk reksturinn vel á árinu og rekstrarniðurstaða ársreiknings var jákvæð um 12 m.kr. Segja má að stjórn og starfsfólk sé vakið og sofið yfir rekstri félagsins þar sem mikið aðhald og útsjónarsemi eru forsendur fyrir góðri afkomu. Nýsköpun og frumkvæði einkenna einnig allt starfið og þannig hefur Ferðafélag Íslands verið frumkvöðull í ferðamennsku á Íslandi í 96 ár. Megi svo verða áfram.

Skálar

Skálarekstur er áfram umfangsmesti þátturinn í starfinu. Skálateymi félagsins er vel skipað reynslumiklu starfsfólki, auk þess sem fóstrar skála og sjálfboðaliðar í vinnuferðum leggja starfinu ómetanlegt lið. Um 50 skálaverðir eru að störfum fyrir félagið yfir sumartímann. Þá hafa fjölmargir aðrir lagt hendur á plóg við rekstur og þjónustu skála. Sigurlaug Jónsdóttir (Sóla) var ráðin yfirskálavörður félagsins í byrjun árs 2023 og hefur með ráðningar skálavarða, vaktatöflu og starfsmannamál sem snúa að skálavörðum að gera. Sóla hefur mikla reynslu eftir yfir 20 ára starf fyrir félagið og hefur auk þess unnið sem landvörður á Þingvöllum í gegnum árin þegar hún var ekki á fjöllum fyrir Ferðafélagið. Ráðningum skálavarða og ráðningum í sumarleyfisstörf á skrifstofu fyrir háannatíma var að mestu lokið í mars og apríl. Það átti eftir að koma í ljós þegar leið á sumarið að vinnumarkaðurinn var erfiður, t.d. þegar kom að því að manna afleysingastörf eða forföll skálavarða.

Skálar félagsins opnuðu um miðjan júní að Fjallabaki. Skagfjörðsskáli í Langadal opnaði í byrjun maí en aðrir skálar, t.d. á Kili eða á Sprengisandsleið, opnuðu eftir því sem aðstæður leyfðu. Opnunarferðir á Kjöl voru farnar þegar leið á júnímánuð. Vinnuferð var farin í Hornbjargsvita um miðjan júní og skálaverðir voru mættir að Valgeirsstöðum í Norðurfirði í byrjun júní.

Almennt má segja að rekstur, þjónusta og viðhaldsvinna við skála félagsins hafi gengið vel á árinu. Sú vinna er háð veðri og vindum, snjóalögum og færð og yfirleitt um miklar vegalengdir og jafnvel vegleysur að fara. Vinnuferðir eru því oft krefjandi og stundum þarf að fara nokkrar ferðir til að ljúka við verkefni.

Mikill tími og vinna byggingarnefndar hefur farið í undirbúning fyrir nýjan Skagfjörðsskála, m.a. samskipti við arkitekta og hönnunarteymi sem teiknuðu og hönnuðu skálann. Lagt var upp með að halda útliti gamla skálans en uppfæra skipulag og aðstöðu að innan. Teikningum af nýjum Skagfjörðsskála var skilað til byggingarfulltrúa í október 2022 og hefur þegar verið brugðist við athugasemdum og ábendingum. Nú er beðið eftir því að sveitarfélagið klári þjóðlendumál og geri lóðarleigusamninga við félagið, sem er forsenda þess að veita endanlegt byggingarleyfi fyrir nýjum skála. Á vordögum 2023 var farið í lokað útboð með fjórum völdum verktökum. Útboðsgögn voru opnuð með formlegum og viðurkenndum hætti að viðstöddum útboðsaðilum. Tilboðin reyndust ekki aðgengileg fyrir félagið þar sem þó voru margfalt yfir kostnaðaráætlunum. Niðurstaðan var því sú að fara í það verkefni að fullklára hönnun og magntöku og hefur hönnunarteymi fundað vikulega frá haustdögum og fram í febrúar sl., þegar þeirri vinnu lauk, og verður nú verktökum boðið að bjóða í verkefnið að nýju. Um leið er þrýst á að þjóðlendumálum, lóðarleigusamningum og leyfismálum verði lokið að hálfu sveitarfélagsins. Markmiðið er að nýr Skagfjörðsskáli verður vígður sumarið 2025 en ljóst er að þá þurfa allir þættir að smella saman nú á vordögum 2024. Á síðustu árum hafa verið heilmiklar framkvæmdir í Langadal, meðal annars með endurbættu og stækkuðu skálavarðahúsi, og er nú orðin mjög góð aðstaða fyrir 4–5 skálaverði á svæðinu. Einnig hefur verið endanlega lokið við orkuskipti í Langadal og verður nýr Skagfjörðsskáli rafvæddur að fullu. Þá hefur verið reynt að betrumbæta og laga dagsdvalarhúsið sem annars er orðið lúið og þarfnast endurnýjunar.

 

Í framkvæmdum á skálasvæðum félagsins sumarið 2023 bar hæst nýtt salernishús í Hvanngili. Er þar nú glæsilegt salernishús með 6 salernum og tveimur sturtum og geymsluaðstöðu sem stendur út fá austurhlið skálans. Gamla salernishúsinu verður breytt í lager og geymslu og eru þær framkvæmdir þegar hafnar.

 

Í Baldvinsskála var byggt nýtt anddyri og breytir það öllu varðandi betra aðgengi og inngang í skálann.

 

Í Hvítárnesi var sett nýtt salernishús í stað þess gamla, sem var fjarlægt. Nýja salernishúsið er með tveimur salernum, sturtu og geymsluaðstöðu.

 

Í Hrafntinnuskeri voru stórframkvæmdir við viðgerð og betrumbætur á hitaveitu og lögnum sem höfðu skemmst í aurflóðum. Meðal annars skemmdist spírall í hitaveitubrunni. Fóstrar félagsins í Hrafntinnuskeri unnu þrekvirki í þessari vinnu og er nú kominn hiti að nýju í skálann og lagnakerfið komið í lag. Í Hrafntinnuskeri var einnig unnið að lokafrágangi á skjólhúsi á tjaldsvæðinu sem reist var 2022 og stórbætir aðstöðu fyrir tjaldgesti í Skerinu. Á síðustu árum hefur verið reist þar nýtt skálavarðahús, ný geymsla og nú nýtt skjólhús. Aðstaðan í Hrafntinnuskeri hefur því jafnt og þétt verið bætt.

 

Á Valgeirsstöðum í Norðurfirði var gólf í fjárhúsi styrkt. Tónleikahald í fjárhúsinu hefur stundum dregið yfir 100 manns í húsið og þótti vissara að styrkja gólfið enda stemmingin oft mikil og góð þegar fremsta tónlistarfólk landsins treður upp í fjárhúsinu.

 

Í Landmannalaugum var ráðist í að skipta um klæðningu á austurgafli skálans og verða allar hliðar hans endurnýjaðar á þessu ár og því næsta. Ferðafélagið hefur lengi lagt til ítölu í Landmannalaugum og álagsstýringu og helstu innviðir séu um leið styrktir, t.d. bílastæði og gæsla. Á haustdögum voru samráðsfundir um málefni Landmannalauga með Rangárþingi ytra og Umhverfisstofnun og nú hefur Umhverfisstofnun tilkynnt um álagsstýringu inn á svæðið, meðal annars með og í gegnum bókanakerfi á bílastæðum.

 

Viðhaldsverkefnin í skálum eru endalaus og því um eilífðarverkefni að ræða. Má þar nefna verkefni eins og að lagfæra gólf og veggi og smíða nýjar kojur. Þá eru dýnur í skálum endurnýjaðar reglulega og unnið við að grunna og mála skálana að innan og utan. Viðhaldsvinna á tjaldstæðum er einnig mikil. Þar þarf að endurnýja vaskaborð og útivaska, mála geymslur og lagfæra. Pallar við skála eru einnig lagfærðir ásamt því að skipt er um loftnet vegna VHF-talstöðva og rafgeymar endurnýjaðir.

 

Í mörgum skálum félagsins, t.d. Í Nýjadal og Hrafntinnuskeri, er öflugur hópur fóstra sem vinnur einstakt starf og sama má segja um fóstra í Þverbrekknamúla, Þjófadölum, Valgeirsstöðum, Hornbjargsvita og Hagavatni. Í öllum þessum skálum eru fóstrar sem fara í vinnuferðir, bæði sérstaklega til að opna þá í upphafi tímabils og til að loka skálum fyrir veturinn. Um leið vinna þeir oft hefðbundin viðhaldsverkefni, laga og betrumbæta, flytja gas í skálana og/eða taka með sér tóma kúta.

Útgáfustarfsemi

Ferðafélag Íslands gaf út sína fyrstu árbók árið 1928. Árbókin hefur síðan komið út árlega í óslitinni röð og er einstæður bókaflokkur um land og náttúru. Hver bók fjallar venjulega um tiltekið afmarkað svæði á landinu og nær efni þeirra nú um landið allt, víða í annað eða jafnvel þriðja sinn. Árbækurnar eru því í raun altæk Íslandslýsing og gefa í senn ferðafólki góðar ferðaupplýsingar ásamt því að veita innsýn í sögu og þjóðlegan fróðleik.

Ferðafélagið hefur alla tíð kappkostað að gera árbækur sínar sem best úr garði og jafnan fengið heimamenn á hverjum stað og aðra sérfræðinga til liðs við sig. Mikinn fróðleik um náttúrufar er að finna í bókunum, gróður, fugla og aðra landsins prýði, en ekki síst um jarðfræði og myndunarsögu landsins. Saga og menning skipa síðan háan sess í umfjöllun um byggðirnar.

Árbók Ferðafélags Íslands 2023 var sú nítugasta og sjötta í röðinni. Eins og titill bókarinnar, Flóinn – Milli Ölfusár og Þjórsár, gefur til kynna er fjallað um undirlendi Árnessýslu sem markast nokkurn veginn af Ölfusá í vestri, Hvítá í norðri, Þjórsá í austri og strandlengjunni milli árósanna í suðri. Lesendur kynnast svæðinu með því að þræða hina sjö fornu hreppa Flóans undir leiðsögn höfundanna sem lýsa því sem fyrir augu ber og rifja upp söguna.

Meginhluta bókarinnar skrifa Inga Lára Baldvinsdóttir sagnfræðingur og Magnús Karel Hannesson, kennari og fyrrverandi oddviti, bæði búsett á Eyrarbakka. Jóhann Óli Hilmarsson, fuglafræðingur á Stokkseyri, skrifaði um náttúrufar svæðisins og er höfundur flestra ljósmynda. Þó að Flóinn sé ekki rismikill leynir hann á sér með fallegri og forvitnilegri náttúru. Héraðið hefur frá upphafi verið fjölbýlt og ríkt af sögu. Frá öllu þessu greina höfundar skilmerkilega í máli og myndum og Guðmundur Ó. Ingvarsson fyllir upp í með uppdráttum og skýringarmyndum.

Árbókin er 304 blaðsíður með 321 mynd og 22 kortum og línuritum. Bókin er litprentuð með heimildaskrá ásamt örnefna- og mannanafnaskrám. Í bókarlok er greint frá starfi FÍ og deilda þess á landsbyggðinni á árinu 2022. Bókinni ritstýrði Gísli Már Gíslason verkfræðingur. Var þetta um leið síðasta bók Gísla Más sem ritstjóra árbókar FÍ en eftir langt og farsælt starf hefur hann nú látið af störfum. Gísli Már Gíslason líffræðingur er formaður ritnefndar árbókar og ásamt honum sitja í nefndinni þau Guðrún Kvaran, Eiríkur Þormóðsson og Pétur Eggerz.

Útgáfunefnd, sem annast útgáfu gönguleiðarita, skipa Birgir Sigurðsson, Birgir Guðmundsson og Ólöf Kristín Sívertsen. Hornafjarðarfjöll, gönguleiðarit sem Rannveig Einarsdóttir tók saman, kom út á vordögum 2023. Auk þess eru fleiri gönguleiðarit á teikniborði útgáfunefndar. Á vordögum kom út uppfærð handbók fyrir skálaverði og hefur hún einnig verið þýdd á ensku.

 

Félagslíf FÍ samanstendur af þátttöku í félags- og skemmtiferðum, vinnuferðum í skála, sem og námskeiðum af ýmsu tagi ásamt myndakvöldum og starfi nefnda.

Samstarf

Ferðafélag Íslands á samstarf við fjölmarga aðila. FÍ og Háskóli Íslands hafa átt í farsælu samstarf varðandi verkefnið ,,Með fróðleik í fararnesti“ en því var hleypt af stokkunum á aldarafmæli HÍ árið 2011. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu vel ferðir þessa samstarfsverkefnis hafa náð til barna og fjölskyldufólks. Einstaklingar úr fræðasamfélagi Háskólans hafa miðlað ólíkum viðfangsefnum af yfirburðarþekkingu í hverri ferð. Slík leiðsögn og miðlun upplýsinga um rannsóknir og vísindi hafa verið öllum þátttakendum hvatning til að mæta í fleiri ferðir þar sem fróðleikur, þekking og lærdómur eru leiðarljósið. Síðustu ár hefur Ferðafélag barnanna haldið utan um þetta gjöfula og skemmtilega samstarfsverkefni sem hlaut viðurkenningu á Vísindavöku Rannís 2023 fyrir vísindamiðlun.

Á árinu átti FÍ í góðu sambandi við Slysavarnarfélagið Landsbjörgu og hefur nú nýr samstarfssamningur verið undirritaður þar sem áhersla er lögð á sameiginleg verkefni FÍ og Landsbjargar, forvarnarstarf og öryggismál á fjöllum. FÍ og Landsbjörg eiga langa sögu um farsælt samstarf og var því sérstaklega ánægjulegt að útvíkka og styrkja samstarfið með nýjum samstarfssamningi.

Ferðafélag Íslands og Krabbameinsfélagið tóku höndum saman í bleikri styrktargöngu haustið 2023 og í kjölfar þess spratt upp nýtt sameiginlegt göngunámskeið þar sem boðið er upp á vikulegar gönguferðir og fræðslu fyrir þá sem hafa fengið krabbamein og aðstandendur þeirra. Heilnæm útivist í formi gönguferða, auk áhugaverðrar fræðslu, geta stuðlað að betri andlegri og líkamlegri heilsu fólks sem tekst á við afleiðingar krabbameins og meðferðar vegna þess. Einnig er félagsskapur við aðra sem eiga svipaða reynslu að baki mjög jákvæður en áhrif jafningjastuðnings eru vel þekkt. Verkefnið hefur mælst einstaklega vel fyrir og er þátttaka mjög góð.

Á vordögum 2023 bauð FÍ Í samstarfi við SÁÁ upp á gönguferðir fyrir skjólstæðinga SÁÁ og tókust þær gönguferðir ágætlega þó svo að þátttaka hefði mátt vera meiri.

Ferðafélagið mun á þessu ári taka þátt í 80 ára afmælishátíð lýðveldisins Íslands í samstarfi við forsætisráðuneytið. Boðið verður upp á gönguferðir í þjóðlendum og verða þær kynntar betur þegar nær dregur en dagskrána má þó finna nú þegar á sérstakri vefsíðu forsætisráðuneytisins.

Félagið átti einnig samstarf við fjölmarga aðra aðila, bæði félög, fyrirtæki, ríki, sveitarfélög, stofnanir og einstaklinga og er öllum þeim aðilum færðar bestu þakkir fyrir ánægjulegt samstarf.

 

Deildir

Mikið og gott starf var hjá þeim fjölmörgu deildum sem starfa í anda Ferðafélagsins og eftir sömu markmiðum. Deildafundir FÍ eru haldnir á 1-2 ára fresti og var slíkur fundur var haldinn í Mörkinni 6 í lok mars. Þar mættu fulltrúar frá fjölmörgum deildum og fóru yfir starfsemina og sameiginleg hagsmunamál.

Fundir

Fulltrúar félagsins, einkum framkvæmdastjóri og forseti, áttu ótalmarga fundi á árinu með samstarfsaðilum, hagsmunaaðilum, stjórnsýslu og stofnunum um samstarf og sameiginleg verkefni, stuðning og framgang félagsins. Þannig var á árinu meðal annars fundað með ráðherrum, sveitarstjórnum, stofnunum og einkaaðilum, t.d. um lýðheilsustarf félagsins, skálauppbygginu, útgáfustarf, náttúruvernd og öryggismál, svo eitthvað sé nefnt. Á hverju ári gerir Ferðafélagið samninga við hagsmunaaðila um verkefni sem félagið vinnur að. Auk þess koma á skrifstofuna fjölmargir aðilar daglega, bæði til skrafs og ráðagerða, eða til að vinna að úrlausnum mála sem varða starf félagsins.

Félagar

Greiðandi félagsmenn FÍ eru nú tæplega 10.000 talsins en á hverju ári eru fjölmargir nýir sem skrá sig í félagið. Þannig hafði félögum fjölgað jafnt og þétt síðastliðin ár og urðu flestir á Kóvid-tímanum þegar ferðir erlendis lögðust niður um tíma. Margir hætta einnig í félaginu á hverju ári af ýmsum ástæðum; eru hættir að ferðast, hætta vegna aldurs eða hafa látist á árinu. Félagar sem greiða ekki árgjaldið í tvö ár eru skráðir úr félaginu.

Skrifstofan

Vegna aukinna umsvifa hefur starfsfólki fjölgað lítillega á skrifstofu félagsins. Skrifstofan státar af háum starfsaldri og mikilli reynslu starfsfólks. Á vordögum var Bjarnhildur Hrönn Níelsdóttir ráðin fjármálastjóri í stað Steingerðar Sigtryggsdóttir, sem ákvað að bæta við sig menntun og takast á við ný verkefni. Bjarnhildur er viðskiptafræðingur að mennt, kemur frá Deloitte endurskoðun og hefur unnið að ársreikningsgerð og endurskoðun reikninga FÍ í yfir 15 ár og hefur sú reynsla nýst henni afar vel á fyrsta ári í starfi. Eins var Baldur Baldursson ráðinn stafrænn leiðtogi á skrifstofu og hefur með innleiðingu stafrænnar þróunar að gera og heldur auk þess utan um samfélagsmiðla félagsins. Þá tók Sigurlaug Jónsdóttir (Sóla) við starfi yfirskálavarðar í upphafi árs. Á skrifstofunni starfa auk þeirra Ingunn aðstoðarframkvæmdaljóri, Heiða ferðafulltrúi, Lilja Rut verkefnastjóri, Rannveig þjónustufulltrúi, Helgi Már verkefnastjóri, Arnar þjónustufulltrúi, Stefán Jökull umsjónarmaður skála og fasteigna, Halldór, þjónustustjóri skála, Kerstin í bókunardeild og Páll framkvæmdastjóri. Á sumrin eru fleiri starfsmenn á skrifstofu, bæði vegna aukins álags og afleysinga.

 

Heiðursfélagi og gullmerkishafar

Á útgáfufagnaði árbókar í júní sl. var Ólafur Örn Haraldsson, fyrrverandi forseti FÍ til 17 ára, gerður að heiðursfélaga. Einnig voru Ingunn Sigurðardóttir, Steingerður Sigtryggsdóttir, Heiða Meldal og Helga Garðarsdóttir, allar starfsmenn á skrifstofu FÍ, sæmdar gullmerki félagsins fyrir frábært starf. Við sama tækifæri var Sigrún Valbergsdóttir varaforseti jafnframt sæmd gullmerki félagsins fyrir einstakt starf í langan tíma. Gísli Már Gíslason, ritstjóri árbókar, var einnig sæmdur gullmerki félagsins fyrir einstakt starf.

Stjórnin
Stjórn félagsins fundaði ellefu sinnum á árinu. Fjölmörg mál eru á dagskrá hvers stjórnarfundir þar sem stjórnin í senn fer yfir alla þætti í starfinu og leggur línur til næstu ára með áætlunum og stefnumótunarvinnu. Þannig hefur verið, undir forystu forseta, unnið að uppfærslu á stefnu félagsins til 2026 þar sem helstu línur eru lagðar til framtíðar. Góður andi og samstaða hefur ríkt í stjórn á starfsárinu. Nýjar stjórnarkonur, Salvör Nordal og Elín Björg Jónasdóttir, hafa komið sterkar inn í stjórnina og búa yfir mikilli þekkingu og reynslu sem nýtist vel í starfi hennar.

Þakkir

Öflugt sjálfboðaliðastarf hefur í gegnum tíðina einkennt starf Ferðafélags Íslands. Sjálfboðaliðastarf hefur þannig lagt grunninn að sterkri stöðu félagsins, bæði fjárhagslegri og félagslegri. Í dag eru um 200 sjálfboðaliðar sem leggja félaginu lið með einhverjum hætti. Þar má nefna setu í stjórn, nefndum, fararstjórn, þátttöku í vinnuferðum og skálastarfi, eða aðkomu að myndakvöldum og námskeiðum ásamt fleiri verkefnum. Starf sjálfboðaliða innan Ferðafélags Íslands hefur gert félaginu kleift að byggja upp aðstöðu víða á hálendinu, og annars staðar í óbyggðum, og um leið gert félagsfólki og almenningi mögulegt að ferðast um landið og nýta aðstöðu félagsins. Sjálfboðaliðastarfið er ómetanlegt og er öllu því góða fólki sem leggur félaginu lið í frístundum sínum færðar innilegar þakkir. Öllum sem hafa komið að starfi Ferðafélagsins á árinu, bæði stjórn og starfsfólki, sjálfboðaliðum, skálavörðum, fóstrum, fararstjórum, nefndarfólki og öllum öðrum, er þakkað fyrir frábært starf og ánægjulegt samstarf.