Áætlun FÍ fyrir 2021 inniheldur bæði ferðir á vegum Ferðafélags Íslands og þar birtast einnig ferðir á vegum 13 deilda félagsins um land allt. Undirdeildirnar FÍ-Ung sem er ferðafélag ungs fólks og Ferðafélag barnanna birta og sína dagskrá.
Ferðafélag Íslands hefur á nærri 100 ára ferli sínum alltaf borið gæfu til þess að endurspegla vilja og áhuga útivistarfólks og þessi áætlun er engin undantekning. Hér eru gönguferðir, fjallgöngur, söguferðir, jógaferðir, dagsferðir, sumarleyfisferðir og hjólaferðir.
Þannig rækir Ferðafélagið sitt upphaflega markmið að kynna Ísland fyrir Íslendingum og auðvelda þeim að ferðast um sitt eigið land. Þannig varðveitir félagið ákveðið trúnaðarsamband milli lands og þjóðar.
Áætlunin endurspeglar það sérstæða ástand sem ríkt hefur í samfélaginu undanfarið ár sem meðal annars hefur leitt til stóraukinna ferða Íslendinga innanlands. Á óvissutímum leitar þjóðin til þess sem aldrei bregst og alltaf stendur, skríður upp í hálsakot móður náttúru og leitar þar skjóls.
Bókanir í allar ferðir fara fram á netinu gegnum heimasíðu félagsins en sem fyrr eru starfsmenn félagsins ávallt reiðubúnir að leggja þeim lið sem vilja nánari upplýsingar eða einhverja aðstoð við að finna draumaferð sumarsins.
Hér undir hlekknum má skoða áætlunina í heild í flettiforriti. Myndin hér að neðan er tekin á Látrabjargi en Árbók FÍ 2020 fjallaði um Rauðasandshrepp hinn forna.