Verðlaunaverkefni FÍ og HÍ magnað í miðlun þekkingar
„Að flétta saman sjálfbærnifræðslu og göngum er ein besta leiðin til að svala áhuga á umhverfisvernd og skilja mikilvægi þess að ganga vel um landið og ferðast fótgangandi. Það er mjög ánægjulegt að Ferðafélagið skuli vinna með HÍ og sinna börnum sérstaklega og að þau læri að njóta landsins í kyrrð og ró.“
Þetta segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna, um verkefnið Með fróðleik í fararnesti sem vann á dögunum Vísindamiðlunarverðlaun Rannís, eftirsóttustu verðlaun Íslands á sviði miðlunar um rannsóknir, nýsköpun og mikilvægi vísinda. Eins og flestir vita tók Salvör nýlega sæti í stjórn Ferðafélags Íslands.
Með fróðleik í fararnesti er samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands sem hófst á aldarafmæli HÍ árið 2011. Fræðagöngurnar hafa frá upphafi verið fyrir okkur öll, ekki síst fyrir börn og ungmenni, enda hafa mörg þúsund manns notið þess að rölta með FÍ og HÍ undanfarin 12 ár og þegið fróðleik í fararnesti frá vísindamönnum, fræðafólki og sérfræðingum Háskólans við nánast hvert fótmál. Hin síðustu ár hefur Ferðafélag barnanna alfarið leitt þetta gjöfula og skemmtilega samstarf.
„Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hvernig ferðir í þessu samstarfsverkefni hafa náð vel til barna og fjölskyldufólks þar sem leiðsögumenn úr fræðasamfélagi Háskólans hafi miðlað ólíku viðfangsefni hverrar ferðar, af yfirburðarþekkingu. Slík leiðsögn og miðlun upplýsinga um rannsóknir og vísindi hafa verið öllum þeim sem hafa tekið þátt hvatning til að mæta í fleiri ferðir þar sem fróðleikur, þekking og lærdómur eru leiðarljósið,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands um verðlaunaverkefnið en núna eru á teikniborðinu ferðir næsta árs í þessari bráðskemmtilegu verðlaunaröð.
Metþátttaka í öllum ferðum á þessu ári
Á þessu ári var metþátttaka í öllum fróðleiksferðum en aldrei í 12 ára sögu verkefnisins hafa fleiri mætt í fræðagöngurnar. Í ár voru göngurnar fjórar en stefnt er á að fjölga ferðum á næsta ári.
Í verkefninu Með fróðleik í fararnesti er áhersla á markvissa og skemmtilega fræðslu vísinda- og fræðafólks HÍ til almennings um afar fjölbreytta þætti sem snerta það sem er í fókus í hverri gönguferð. Vísinda- og fræðafólk er sjálft til svara um rannsóknir sínar og miðlar til almennings milliliðalaust. Í göngunum, sem eru í borarglandinu eða í næsta nágrenni þess, er ekki síst vikið að lífríki og umhverfi. Fókus er á sjálfbærni og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna þar sem umhverfismál og loftslagssviptingar eru m.a. í háskerpu. Svo er auðvitað áhersla á mikilvægi þess að bera virðingum fyrir náttúrunni allri auk þess sem þátttakendur njóta hollrar hreyfingar, útivistar og samveru með fjölskyldunni.
„Með fróðleik í fararnesti er eitt best heppnaða vísindamiðlunarverkefni Háskóla Íslands frá upphafi. Besta sönnun þess eru vinsældirnar, en það hefur alltaf verið gríðarleg þátttaka í verkefninu sem hefur bara vaxið ár frá ári,“ segir Jón Örn Guðbjartsson, sviðsstjóri markaðs- og samskiptasviðs HÍ en hann starfara einnig sem vísindamiðlari við skólann. Jón Örn er verkefnisstjóri fróðleiksganganna fyrir hönd HÍ en hann tekið þátt í þessu verkefni allt frá upphafi. Jón Örn hefur reyndar oft tekið að sér fararstjórn í fróðleiksgöngunum en það hagar einmitt þannig til að hann er samhliða starfi sínu hjá HÍ fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands og hefur sérhæft sig í fróðleiksgöngum um Hornstrandir.
„Háskóli Íslands stendur á þremur stólpum, rannsóknum, kennslu og miðlun til almennings. Þetta verkefnis hvílir á öllum þessum stólpum,“ segir Jón Örn. „Það er líka algerlega frábært við þetta fróðleiksverkefni að vísinda- og fræðafólki er gefin rödd til að miðla mikilvægri þekkingu sinni til almennings í umhverfi sem tengist gjarnan rannsóknum og vinnu þessa sama fólks á mjög fjölbreyttum sviðum.“
Jón Örn segir brýnt að Háskólinn sýni hversu mikilvægar rannsóknir eru fyrir einstaklinga, samfélög, umhverfi og lífríki. „Þetta verkefni hefur nákvæmlega það í háskerpu. Það kveikir ekki bara áhuga krakka á vísindum heldur hvetur þau til langskólanáms sem leggur auðvitað grunninn að bættum lífskjörum okkar allra. Þekkingin er nefnilega gjaldmiðill framtíðarinnar. Svo er þetta bara frábær samvera og þátttaka er líka ókeypis í þessu verkefni, alltaf.“
Hrönn Vilhjálmsdóttir, verkefnisstjóri Með fróðleik í fararnesti fyrir hönd Ferðafélags barnanna, tekur í svipaðan streng en hún hefur leitt þessar göngur undanfarin ár ásamt eiginmanni sínum Herði Ingþóri Harðarsyni og börnun sínum tveimur, þeim Signýju og Sölva.
„Með fræðslu eins og í þessum ferðum, og í almennt upplýstri umræðu, getum við gert enn betur í að vernda náttúruna. Það er brýnt að við getum öll tekið upplýstar ákvarðanir með það að markmiði að vernda íslenska náttúru. Hún er einstök á heimsvísu og okkur ber að vernda hana.“
Hér er hægt að kynna sér starf hins gríðarlega vinsæla Ferðafélags barnanna.
Ekki hægt að hætta sökum vinsælda
Innan Ferðafélagsins hafa áratugum saman starfað einstaklingar í ábyrgðarstöðum sem tengst hafa Háskóla Íslands með beinum og óbeinum hætti. Á aldarafmæli skólans vaknaði sú hugmynd hvorki ekki væri snjallt að þessir tveir aðilar, sem lengi hafa starfað í íslensku samfélagi, leggðu saman krafta sína með einhverjum hætti.
Ásthildur Sturludóttir, núverandi bæjarstjóri á Akureyri, leiddi vinnu við undirbúning aldarafmælis HÍ í fyrstu og kom hún þá að hugmyndavinnu um sameiginlegt verkefni FÍ og HÍ ásamt þeim Páli Guðmundssyni framkvæmdastjóra FÍ og Ólafi Erni Haraldssyni fyrrverandi forseta FÍ. Jón Örn Guðbjartsson vann einnig að hugmyndavinnunni ásamt Sæunni Stefánsdóttur, sérfræðingi af rektorsskrifstofu HÍ sem leiddi svo verkefnið allt fyrsta starfsárið. Hún tók að sér að vera framkvæmdastjóri aldarafmælis HÍ samhliða öðrum brýnum verkefnum fyrir HÍ.
Ætlunin í upphafi var að brydda upp á fróðleiksferðunum sem nýjum vísindamiðlunarvalkosti fyrir fjölskyldur á aldarafmæli Háskóla Íslands, og láta þar við sitja, en vinsældirnar urðu það miklar að ekki var nokkur leið að hætta.
Mikill fjöldi vísinda- og fræðafólks leiðbeint í göngunum
Gríðarlegur fjöldi vísindamanna og fræðafólks hefur stýrt þessum göngum en líklega er enginn þekktari en Guðni Th. Jóhannesson, prófessor í sagnfræði við HÍ og núverandi forseti Íslands. Hann leiddi göngu á samt Helga Gunnlaugssyni, prófessor í afbrotafræði við HÍ, en þeir fjölluðu um mótmæli í miðborginni og glæpi og refsingu í sögulegu samhengi. Aðbúnaður fanga og afbrot á fyrri öldum og mótmæli í miðborginni voru í brennidepli í þeirra göngu.
Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor í jöklafræði við HÍ og einn af aðalhöfundum loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna, sagði í sinni ferð frá tilurð jökla, myndun og bráðnun og hopun og hvers megi vænta á næstu árum og áratugum út frá yfirstandandi loftslagsbreytingum. Hún sagði frá hvaða máli jöklar skipta jarðsögulega og fyrir umhverfi okkar, lífríki og eldvirkni.
Sævar Helgi Bragason, landsþekktur vísindamiðlari hjá HÍ, hefur margsinnis fjallað í fróðleiksgöngum um himinhvolfið – stjörnurnar og norðurljósin. Í þessum göngum svarar Störnu-Sævar öllu eða því sem næst um undur alheimsins.
Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor í lyfjafræði við HÍ, fór yfir hvernig hægt er að nýta plöntur í náttúrunni til lyfjasmíði. Hún svaraði því hvort hægt sé að finna ný lyf í náttúrunni sem lækna sjúkdóma sem ógna heilsu og mannslífum?
Gísli Már Gíslason, prófessor í líffræði við HÍ, er einn seigasti vísindamiðlarinn í fræðslugöngunum en hann er líka stjórnarmaður í FÍ. Hann hefur margsinnis haft augun á pöddum, vatnalíffræði, loftslagsbreytingum, áhrif hlýnunar á lífríkið, lífríki kræklingsins, sveppum í náttúru Íslands og hvernig nýta megi afurðir náttúrunnar eins og sveppi og krækling til manneldis.
Helga Kristín Torfadóttir, doktorsnemi í jarðfræði við HÍ sagði fróðleiksfúsu göngufólki frá því sem veldur sífelldum gosum á Reykjanesi og annars staðar á landinu og upplýsti um ýmis jarðfræðileg fyrirbrigði svo sem hraun, hraunrennsli, gíga, ösku og eldsumbrot og útlistaði með einföldum hætti um tilurð þess sem bar fyrir augu í náttúrunni.
Lilja Jóhannesdóttir, líffræðingur og doktor frá HÍ, Gunnar Þór Hallgrímsson, prófessor í dýrafræði við HÍ, Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Suðurlandi og Sölvi Rúnar Vignisson, doktorsnemi í líffræði við HÍ, hafa ítrekað sagt frá því hvers vegna fuglar fljúga milli landa og heimsálfa og hvað fær þá til að rata aftur á varpstöðvarnar. Fuglaskoðun með skýringum og fólki kennt að þekkja helstu fugla og almenningur upplýstur um áhrif loftslagsbreytinga á lífríkið og heim fuglanna.
Helga Gottfreðsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild HÍ. Fallegasta orðið, eitt allra mikilvægasta starfið. Við öll sem lifum komum í heiminn með aðstoð ljósmæðra í flestum tilvikum. Helga leiddi gönguferð um slóðir ljósmæðra og fór yfir sögu þeirra.
Orri Vésteinsson, prófessor í fornleifafræði við HÍ, færði okkur upplýsingar um uppruna okkar og fyrstu landnemanna. Hann svaraði því hvort landnámsmennirnir okkar hafi verið víkingar, hvort Ingólfur Arnarson hafi raunverulega verið til og varpaði ljósi á hvernig lífið var hjá fyrstu Íslendingunum?
Gunnar Karlsson, prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ. Hann setti sögu Reykjavíkur í fókus með Laugarnesið í háskerpu – sem biskupssetur á fyrri hluta 19. aldar og vettvang holdsveikraspítali á fyrri hluta 20. aldar. Njála kom við sögu og Hallgerður Langbrók Höskuldsdóttir, ein stóru persónanna úr Njálu, sem bjó á Lauganesi. Hver var þessi Hallgerður, þessi glæsilega kona, var hún eins og af er látið og er virkilega hægt að búa til bogastreng úr mannshári?
Laufey Steingrímsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ, leiddi gönguferð þar sem matur, saga og menning voru meginefnið og farið var yfir sögu matar frá landnámi til okkar daga.
Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, leiddi hjólaferð um miðborgina og nágrenni. Staldrað var við á nokkrum stöðum og fjallað um ýmis atriði borgarumhverfisins með augum landfræðinga. Hvaða öfl hafa öðru fremur mótað þróun Reykjavíkurborgar? Hvernig speglast hugmyndir almennra íbúa, skipulagshöfunda og arkitekta í ásýnd borgarinnar og hvaða breytingum hafa þær tekið í tímans rás? Hvaða afleiðingar hafa breytingar á íbúasamsetningu og atvinnulífi fyrir svipmót hverfa og gatna? Hvernig hefur svo á hinn bóginn hið byggða umhverfi, sem og óbyggð svæði, áhrif á mannlífið í borginni? Síðast en ekki síst, hvernig tengjast umferðarmálin þessu öllu?
Þetta eru bara nokkur dæmi um göngur en hér má fá frekari upplýsingar um verkefnið á heimasíðu HÍ en eins og áður kom fram eru ferðir næsta árs á teikniborðinu.