Samkeppni fyrir ungt fólk
Jöklar eru stórmerkilegir og hafa flest hér á landi séð í það minnsta einn. En hvað vitum við um jökla? Vísindafólk veit heilmikið um jökla en flest okkar vita lítið um virkni þeirra og mikilvægi þeirra í vatnshringrás jarðarinnar. Vissir þú til dæmis að jöklar myndast þar sem meiri snjór fellur yfir árið en bráðnar að jafnaði að sumrinu? Og að í dag er einn tíundi hluti Íslands hulinn jöklum? Samanlagt flatarmál jökla á Íslandi var árið 2023 um 10.200 km2 og hefur frá aldamótum 2000 minnkað um 900 km2. En það samsvarar því að allur Hofsjökull væri horfinn. Það er jafn stórt svæði eins og öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu!
Í tilefni af degi jökla er efnt er til samkeppni á meðal barna- og ungmenna á aldrinum 10-20 ára. Óskað er eftir verkum sem varpa ljósi á mikilvægi og eðli jökla, fegurð þeirra og hversu hverfulir þeir eru.
Tillögur á öllum tungumálum eru velkomnar. Hugmyndum má skila í mynd- og/eða ritmáli. Texti má vera vélritaður eða handskrifaður, lágmarks orðafjöldi er 200 orð. Verkið getur þannig t.d. verið skoðanagrein, pistill, örsaga, prósaljóð, myndaritgerð, myndskýrsla, myndasaga eða vídeóverk.
Sjá nánari upplýsingar á vef samkeppninnar – www.un.is/joklar
Litið verður sérstaklega til þess að verkefnin endurspegli persónulega sýn þátttakenda. Innsendingarform: PDF, JPEG, PNG eða MP4.
Öllum tillögum skal skila inn rafrænt á netfangið felag@un.is ásamt upplýsingum um nafn, skóla, aldur, netfang og símanúmer. Skilafrestur er til og með 2. mars 2025.
Hvað er Alþjóðaár jökla?
Sameinuðu þjóðirnar hafa helgað árinu 2025 jöklum á hverfanda hveli og ákveðið að 21. mars ár hvert verði sérstakur alþjóðadagur jökla. Alþjóðaárið verður nýtt til að vekja athygli á mikilvægi jökla, snævar og íss í vatnafræðilegu og veðurfarslegu samhengi og ekki síður efnahagslegu, samfélagslegu og umhverfislegu tilliti.
Frá aldamótum hafa um 70 litlir jöklar horfið en flatarmál þeirra flestra var á bilinu 0,1-3 km2 í upphafi þessarar aldar. Það er fyrirséð að fleiri jöklar muni hverfa á næstu áratugum og hefur Hofsjökull eystri verið tilnefndur á alþjóðlegan lista yfir jökla sem eru horfnir eða eiga stutt eftir (https://glaciercasualtylist.rice.edu/, https://www.facebook.com/share/p/1BbF3vWtdH/).
Að samkeppninni standa Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Jöklarannsóknafélag Íslands, Veðurstofa Íslands, Jarðvísindastofnun Háskólans, Náttúruverndarstofnun, Náttúrufræðistofnun, Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands og Náttúruminjasafn Íslands.
Dómnefndina skipa:
Meðal vinninga er ferð í jöklagöngu á Sólheimajökli með Tröllaferðum, ferð upp á Langjökul í íshellinn, ferð á Mýrdalsjökul með Jöklarannsóknafélagi Íslands, bækur Helga Björnssonar Jöklar á Íslandi og Af hverju eru jöklar og ís á jörðinni.
Vinningshafar verða tilkynntir á sérstökum viðburði í Veröld Vigdísar og í Loftskeytastöðinni á degi jökla föstudaginn 21. mars.
Ítarefni:
Jöklavefsjáin (www.islenskirjoklar.is, icelandicglaciers.is)
Jöklarannsóknafélag Íslands (www.jorfi.is)
Key messages | International Year of Glaciers’ Preservation
Hörfandi jöklar - Vatnajökulsþjóðgarður
175f4057-c0d1-4af2-b126-d519d8da55e2_horfandi-joklar_2017_pdf-af-baekling.pdf