Dr. Ólafur S. Ástþórsson, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnuninni, heldur erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags. Erindið verður flutt mánudaginn 29. mars kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.
Í erindinu verður vikið að straumakerfi og langtímasveiflum í umhverfisskilyrðum í hafinu við Ísland og á hvern hátt veðurfar getur haft áhrif á lífverur sjávar. Þá verður greint frá því sem vitað er um breytingar á lífríki sjávar frá hlýjum árum milli 1925-1945 og frá köldum árum milli 1965-1971.
Loks verður fjallað um þær breytingar á lífríkinu í sjónum við Ísland sem tengja má hlýnuninni síðan 1996. Frá seinasta tímabilinu er vitneskjan ítarlegust og á því hafa m.a. orðið verulegar tilfærslur í útbreiðslu og stofnstærðum margra hryggleysingja, nytjafiska og sjaldséðra fisktegunda, sjófugla og spendýra. Þá hafa á undanförunum árum fundist við landið margar nýjar tegundir bæði fiska og hryggleysingja sem greint verður frá."