Ferðafélag Íslands býður upp á dagsferðir í Þórsmörk alla páskana, rútuferðir með fararstjórum. Lagt er af stað frá Mörkinni 6 kl. 9 alla daga, skírdag, föstudaginn langa, laugardag, páskadag og annan í páskum.
Þegar er fullbókað í ferð á skírdag og hratt bókast í ferðir aðra daga. Fyrstir koma, fyrstir fá.
Ekið er í Skagfjörðsskála í Langadal í Þórsmörk. Boðið er upp á gönguferðir með leiðsögn bæði á Valahnúk og upp á Morinsheiði að gosstöðvunum.
Gönguferð á Valahnúk tekur innan við klukkustund. Þaðan er gott útsýni yfir Þórsmörk og bein sjónlína að gosstöðvunumum 6 km. Gönguferð um Morinsheiði, upp Bröttufönn að gosstöðvunum tekur um 6 klst. og er um allbratt land á köflum að fara. Vegalengdin er 10 km. fram og til baka og hækkun nemur 800-900 metrum.
Nauðsynlegt er að vera vel búinn í ferðinni, með góðan hlífðarfatnað, góða gönguskó og nesti. Frost getur náð 15-18 stigum efst á fjallinu.
Brottför úr Þórsmörk er kl. 10 um kvöldið svo fólk geti séð eldgosið í myrkri og því nauðsynlegt að hafa nægt nesti til heils dags.
Verð í ferðina er kr. 10.000 / 12.000. Frítt fyrir börn og unglinga yngri en 16 ára. Skráning og greiðsla á skrifstofu FÍ.