Miðvikudagskvöldið 31. mars heldur Ferðafélag Íslands fræðslukvöld um eldgosið á Fimmvörðuhálsi. Þar koma Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og Steinunn Jakobsdóttir jarðeðlisfræðingur og skýra í máli og myndum frá eldgosinu, þróun þess og líklegri framvindu.
Haraldur Sigurðsson er heimsþekktur eldfjallafræðingur sem hefur á langri starfsævi unnið að rannsóknum á eldfjöllum víða um heiminn og sett fram kenningar og niðurstöður sem vakið hafa athygli um víða veröld. Haraldur hefur sett á fót Eldfjallasafnið í Stykkishólmi og veitir því forstöðu auk þess að sinna rannsóknum og fyrirlestrahaldi.
Haraldur heldur úti síðu á netinu um eldfjöll og virkni þeirra.
Steinunn Jakobsdóttir jarðeðlisfræðingur er verkefnastjóri jarðváreftirlits á Veðurstofu Íslands en sú stofnun vakir yfir öllum eldfjöllum Íslands.
Fræðslukvöldið hefst kl. 20.00 og aðgangur er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir. Ekki eru kaffiveitingar eins á á myndakvöldum félagsins.