Fréttir

Esjan að hausti - alveg fram að jólum

,,Esjan að hausti - alveg fram að jólum,"  er verkefni sem hefst um miðjan september hjá FÍ ef næg þátttaka fæst. Þá verður boðið upp á tvær fjallgöngur í viku á Esjuna, eina í miðri viku og eina um helgar.  Segja má að Esjan verði gengin þvers og kruss og leiðaval verður fjölbreytt.  Fararstjóri í öllum Ejsugöngunum er hinn síungi og fjallhressi Þórður Ingi Marelsson fyrrverandi markaskorari hjá knattspyrnufélaginu Vikingi.  Verkefnið er ekki síst hugsað sem frábær líkamsrækt og góður félagsskapur í glaðværum og jákvæðum hópi fjallamanna.  Sérstakur undirbúningsfundur verður haldinn þriðjudaginn 7. september kl. 19 í sal FÍ Mörkinni 6.  Þátttökugjald í verkefnið er kr. 15.000/18.000

Félagsmenn munið að greiða árgjaldið

Árgjald FÍ 2010 er kr. 5.800.  Innifalið í árgjaldinu er m.a. árbók félagsins sem send er heim til félagsmanna eftir að þeir hafa greitt árgjaldið.  Auk þess fylgir ársskírteini félagsins sem veitir betri kjör í skálum og ferðum félagsins sem og afstlátt í fjölda útivistarverslana og þjónustufyrirtækja í Reykjavík og víðar.  Greiðsluseðill fyrir árgjaldinu var sendur út til félagsmanna í lok júní og þegar hafa á fimmta þúsund félagsmenn greitt árgjaldið og fengið árbókina senda heim.  Félagsmenn sem verið hafa í sumarleyfi og á ferð og flugi eru minntir á að greiða árgjaldið og fá þá bókina senda heim.

GPS námskeið

GPS Staðsetningartæki og rötun Mæting á námskeiðið sem hefst mánudaginn 13. september er kl. 19:30 í st. 206 á 2. hæð Tækniskólans við Háteigsveg (áður Sjómannaskólinn). Almennt námskeið fyrir byrjendur og þá sem vilja upprifjun í notkun á staðsetningartækjum. Farið er yfir notkun á staðsetningartækjum og þátttakendur æfa sig í að finna punkta og setja inn í tækin og merkja út á korti. Þátttakendur hafa með sér eigin GPS tæki, áttavita og skriffæri. Námskeiðið er tvö kvöld inni og svo ein útiæfing. Kennari: Sigurður Jónsson björgunarsveitarmaður og leiðbeinandi í rötun og ferðamennsku. Tími:   13. og 15. september 2010 frá 19:30 - 22:30 og 18. september er útiæfing sem tekur um 2 tíma. Verð: 14.000 kr. Félagar í Ferðafélagi Íslands fá 10% afslátt af námskeiðsgjaldinu.

Brynjudalur 12. september

Brynjudalur er afar fallegur og gróðursæll, umgyrtur háum fjöllum á báða vegu. Norðan dals heitir Múlafjall en sunnan Bolafell og Suðurfjall og Þrándarstaðafjall vestast. Brynjudalur státar af  ótal giljum, flúðum og fossum sem vert er að gefa gaum. Eftir dalnum miðjum rennur Brynjudalsá sem á upptök sín í Sandvatni austan Djúpadalsborga. Innst í dalbotninum heita Þrengsli. Fyrrum var búið á fjórum bæjum í Brynjudal, Skorhaga, Þrándarstöðum, Ingunnarstöðum og  Hrísakoti. Allir eru þeir nú í eyði.

Doktorsrannsókn í landafræði

Föstudaginn 3. september mun Deanne Katherine Bird  flytja fyrirlestur um doktorsrannsókn sína í landfræði: Social dimensions of volcanic hazards, risk  and emergency response procedures in southern Iceland (Eldfjallavá og viðbragðsáætlanir á Suðurlandi: Samfélagslegar hliðar).

Algjör óvissa með óvissuferð

Örfá sæti eru laus í óvissuferð FÍ sem farin verður 4. - 5. september.  Engin veit hvert verður haldið eða hvort hægt sé að komast þangað.  Fararstjóri er Sigurður Kristjánsson og hann var óviss hvenær ferðinni lyki.

Fullbókað í draugaferð FÍ í Hvítárnes

Samkvæmt könnun árið 2000 trúðu 78% Íslendinga á líf eftir dauðann og kemur niðurstaðan sjálfsagt engum á óvart. Allir hafa fengið gæsahúð yfir góðri draugasögu við réttar kringumstæður. Ferðafélag Íslands byggði sitt fyrsta sæluhús í Hvítárnesi við Hvítárvatn árið 1929 og allt frá fyrstu tíð hafa gengið magnaðar sögur af reimleikum á staðnum.

Síldarmannagötur - Dagsferð á sunnudaginn 22. ágúst

Á Sunnudaginn 22. ágúst verður gengið Síldarmannagötur.  Brottför frá Mörkinni 6 kl. 10. Göngutími 4-5 klst. Skráning og greiðsla á skrifstofu  Ferðafélagsins föstudaginn 20. ágúst Verð: 5000 / 7000. Innifalið: Rúta og fararstjórn.

Heiðmerkurdagurinn

Síðastliðinn laugardag fór fram Heiðmerkurdagur Ferðafélags barnanna og Arion banka. Dagurinn fór vel fram og skemmtilegt var að sjá bæði unga sem aldna leika sér í fótbolta, snúsnú, fara í ratleik og margt fleira.

Fossaganga á Gnúpverjaafrétti

Stórfossar Þjórsár og fossar í þverám hennar skoðaðir. 1. dagur: Lagt af stað frá Mörkinni 6 kl. 8 á laugardegi og ekið um Þjórsárdal inn á Gnúpverjaafrétt að Geldingaá Gengið niður með henni á Geldingatanga og að Gljúfurleitarfossi og síðan upp með Þjórsá að Dynk með viðkomu á Ófærutanga. Rúta bíður göngufólks við Kóngsás og ekur því í glæsilegan skála í Hólaskógi þar sem er sameiginlegur heitur matur.Vaða þarf litlar bergvatnsár og gott að hafa með sér vaðskó.