Fréttir

AÐ RATA RÉTTA LEIÐ!

  Fagnaðu með okkur og undirbúðu ævintýri sumarsins! Í dag opnar Forlagið nýja og stórglæsilega kortadeild í verslun sinni að Fiskislóð 39.  Af því tilefni verður opnunarhátíð í dag kl. 16-20 þar sem kynnt verður frábært úrval landakorta og ferðabóka. Nýju Atlaskortin verða fáanleg á sérstöku kynningarverði. Grillaðar pylsur og Svali  verða í boði kl. 18-20 og heitt á könnunni fyrir gesti og gangandi. Fararstjórar og fulltrúar Ferðafélags Íslands munu mæta á staðinn og kynna nýútkomna árbók félagsins, Friðland að Fjallabaki, sem og ferðir sumarsins.  Allir Velkomnir!

Upplifun á Fimmvörðuhálsi

Helgina 10-11 júlí mun Ferðafélag Íslands bjóða upp á fyrstu gönguna yfir Fimmvörðuháls. Til undirbúnings fóru tveir fararstjórar FÍ í sérstakan könnunarleiðangur upp á hálsinn að gosstöðvunum og nýju gígunum Magna og Móða. Helstu niðurstöður þessa könnunarleiðangurs eru þessar: Færðin er allgóð, 10 cm þykkt lag af sandi og ösku liggur yfir Skógaheiði og Fimmvörðuhálsi. Efst á hálsinum liggur lagið á stórum svæðum ofan á snjó og þar helst það rakt og fyrir vikið gætir ekki foks. Ný leið yfir hraunið rétt við gígana er afar áhugaverð og litríkar útfellingar gleðja augað og það gerir heitt hraun undir fótum göngumanns einnig. Sjá myndir hér að neðan.

Dagsferðir og helgarferðir í Þórsmörk


Jónsmessuganga á Vífilsfell

Þann 19.júní bauð Ferðafélag barnanna börnum og foreldrum þeirra í göngu á Vífilsfell með fararstjórum sem heppnaðist aldeilis vel. Um 40 manns mættu og tóku þátt í göngunni sem hófst kl 19.00. Gengið var áleiðis upp Vífilsfellið í rúma klukkustund. Eftir gönguna snæddu foreldrar og börn nestið sitt og sungu með þeim Sólmundi Hólm gítarleikara og Hrafnhildi Heklu harmonikkuspilara nokkur skemmtileg lög.

Trölladyngja - Sogin - Hverinn 4. júlí

Nú er komið að þriðju ferð Landverndar og Ferðafélags Íslands um jarðhitasvæði í næsta nágrenni höfuðborgarinnar. Að þessu sinni verður gengið á Trölladyngju suður af Straumsvík, um Sog og að Hvernum eina. Leiðsögumaður í ferðinni er Sigmundur Einarsson jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun. Áður en lagt verður í ferðina flytur Sigmundur stutt erindi um svæðið sem gengið verður um í sal Ferðafélags Íslands að Mörkinni 6. Dagskráin hefst kl. 10 og verður lagt af stað í ferðina kl. 10.30 og komið tilbaka um kl. 16-17.00.

Árbók FÍ 2010 komin út - Friðland að Fjallabaki

  Árbók Ferðafélags Íslands 2010 er nú komin út og fjallar að þessu sinni um FriðlandFjallabaki en þar eru Landmannalaugar og nágrenni í öndvegi. Höfundur bókarinnar er Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ.    Friðland að Fjallabaki er eitt fegursta svæði Íslands og náttúrufar þar einstakt á heimsvísu. Bók, sem fjallar um slíkt svæði, nær aldrei að fanga viðfangsefnið til fulls en reynt hefur verið að birta lesandanum sem flest af áhugaverðum einkennum friðlandsins.

Fuglaskoðunarferð 3.júlí

Næstkomandi laugardag, þann 3.júlí býður Ferðafélag barnanna upp á fuglaskoðunarferð á Gróttu. Ferðin hefst kl 11:00. Hvetjum alla til að skella sér út að skoða fuglana, telja, teikna og semja ljóð um þá. Jakob Sigurðsson, fuglaskoðari og fuglaljósmyndari mætir og fræðir börnin og aðra sem mæta um fuglana í kring.

Laus pláss á "Óeiginlega Laugaveginum"

Þrjú pláss eru laus í ferðina Óeiginlegur Laugavegur. Þetta er sérstök og umtöluð ferð sem farin var í fyrsta sinn í fyrra. Gengið er um fáfarnar slóðir austan og vestan hins hefðbundna Laugavegar en gist í skálum og farangur fluttur. Fararstjórar eru: Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.

Barnavagnagöngur á mánudögum

Ferðafélag barnanna býður upp á barnavagnagöngur alla mánudaga í sumar kl 12.30. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir! Göngurnar taka um það bil 90 mínútur. Hressandi að byrja nýja viku á góðum göngutúr!

Árbók FÍ 2010 - Friðland að Fjallabaki

                               Árbók Ferðafélags Íslands fjallar að þessu sinni um Friðland að Fjallabaki en þar eru Landmannalaugar og nágrenni í öndvegi. Höfundur bókarinnar er Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ.