Fréttir

Esjudagur FÍ og VISA

Laugardaginn 12, júní n.k frá kl 13 - 16  verður hinn árlegi Esjudagur Ferðafélags Íslands og VISA haldinn.  Boðið upp á gönguferðir á Esjuna í fylgd fararstjóra frá FÍ.  Fjallamenn mæta, ratleikur, skógarganga o.fl. Sjáumst á laugardag. Við bendum ykkur á að það gengur strætó frá Háholti Mosfellsbæ leið 57 yfir daginn. Nánari upplýsingar á www.straeto.is Þátttaka er ókeypis, allir velkomnir. Nánar auglýst síðar. 

Skýrsla úr Þórsmörk

Um helgina efndi Ferðafélag Íslands til hópferðar í Þórsmörk. Stór hópur fólks sem er þátttakendur í verkefninu Eitt fjall á viku hélt á vit óvissunnar inn í Mörkina til að safna fjallatoppum og skyldi ná fimm tindum yfir helgina. Þegar komið var inn undir Gígjökul og hvergi sá á dökkan díl heldur kolgrátt öskumistur blasti við á allar hendur má segja að menn hafi upplifað visst áfall.

Á ystu nöf-námskeið við yfirdrifinni lofthræðslu

 Líður þér mjög illa þegar þú ert hátt uppi eins og á svölum eða brúm, í lyftum eða stigum eða forðastu háar hæðir eins og þú frekast getur? Hefur lofthræðsla hamlandi áhrif á daglegt líf þitt? Hefur þig dreymt um að fara í fjallgöngur en ekki haft þig í það vegna lofthræðslu? Kvíðameðferðarstöðin stendur nú fyrir tveggja vikna námskeiði við yfirdrifinni lofthræðslu í samstarfi við Ferðafélag Íslands.  Markmið námskeiðsins er að draga úr lofthræðslu svo að fólk eigi hægar um vik að fara ferða sinna, hvort sem er í daglegu amstri eða þegar farið er á vit ævintýra. Um er að ræða úrræði sem er byggt á aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar og skiptist námskeiðið í fræðslu, æfingar, vettvangsferðir og heimaverkefni auk þess sem farið verður í fjallgöngu  undir lok námskeiðs.  Stjórnendur námskeiðsins eru Sigurbjörg J. Ludvigsdóttir sálfræðingur, Helena Jónsdóttir cand.psych. og Páll Ásgeir Ásgeirsson, leiðsögumaður. Námskeiðið hefst þriðjudaginn 15. júní 2010 og stendur yfir í 2 vikur en hópurinn mun hittast 2 sinnum  í viku í 2 klukkustundir í senn (þriðjudaga og föstudaga kl. 8-10).  Skráning fer fram hjá Kvíðameðferðarstöðinni í síma 534-0110/822-0043 eða með tölvupósti á kms@kms.is en skráningu lýkur 12. júní n.k.

Spennandi örganga miðvikudaginn 2. júní

Fimmta örgangan  um nágrenni Grafarholts - og sú síðasta á þessu sumri  -  verður miðvikudag  2. júní.  Lagt verður af stað frá vatnsgeymunum kl. 19:00.   Leið:  Gengið um stíg sem liggur vestur að Grafarvogi  og norðan hans.  Áð verður hjá Grásteini og litið á bústað álfa.   Á leiðinni verður í stuttu máli rifjuð upp saga þeirra jarða, sem leið liggur um - Grafar, Keldna, Gufuness,  Árbæjar.    Gengið til baka um síldarmannabrekku sunnanmegin vogarins.  Austanmegin lítum við til rústa sumarbústaðar, sem eitt sinn var þar og þiggjum smáhressingu í boði Ferðafélagsins.   Þetta er ekki hraðganga.  Ætlaðar eru  2 klukkustundir til ferðarinnar.  Örgöngur eru aldrei felldar niður vegna veðurs. Fararstjórar: Guðlaug Sveinbjarnardóttir Höskuldur Jónsson

Unglingar á ferð og flugi

Í þessari ferð verður sameiginlegur matur bæði morgunmatur og heitur kvöldmatur, sem verður sérstaklega á vegum hópsins, en ekki innifalið í fargjaldi ferðarinnar. Það hefur komist hefð á þennann hátt í Hornstrandaferðum FÍ í yfir áratug og skapað mikla ánægju meðal Hornstrandafara FÍ. Þessi sameiginlegi matur stendur saman af morgunmat, sem inniheldur hafragraut og súrmjólk, brauð, álegg og ávexti og af þessu morgunverðarborði útbúa síðan ferðalangar göngunesti dagsins. Kaffi, te og heitur súkkilaðidrykkur er bæði kvölds og morgna. Í lok hvers göngudags er síðan á boðstólum heitur kvöldverður. Snarl af ýmsu tagi s.s. kex, súkkulaði, rúsínur, harðfiskur, súkkulaðidrykkir, Nes-kaffi, orkudrykkir eða ýmiskonar safar, sér hver um fyrir sig eftir þörfum og smekk. Ferðalangar hjálpast að við undirbúning og frágang máltíða  

Sæludagar í Hlöðuvík 7. - 12. júlí - 4 laus pláss

Þessi ferð í Hlöðuvík byggist á því að dvalið er í sömu bækistöð alla ferðina og gengið út frá henni. Gist er í húsum og tjöldum fyrir þá sem það vilja.  í húsunum er svefnpláss fyrir 30 manns. Svefnloft er uppi og tvö rúmstæði eru niðri. Eins má flytja dýnur niður, en nægar dýnur eru í húsunum. Í húsunum er vatnssalerni og handlaug. Eldunartæki í húsunum eru tvennskonar. Annarsvegar eru það eldavélar, sem kynntar eru með rekavið. Hinsvegar eru það  gastæki, þ.e. 5 og 4 hellu borð sem notuð eru til eldamennsku.

Hálendisbókin - þriðja útgáfa

Hálendishandbókin - ökuleiðir, gönguleiðir og áfangastaðir á hálendi Íslands er komin út í þriðja sinn. Bókin er orðin sígild sem traustur ferðafélagi á hálendinu og í þessari nýju útgáfu eru uppfærðar upplýsingar, nýjar ljósmyndir og nýjar leiðarlýsingar til nokkurra staða. Höfundur bókarinnar er Páll Ásgeir Ásgeirsson sem situr í stjórn FÍ og fæst við fararstjórn á vegum félagsins.

Myndir úr FÍ ferð á Þverártindsegg

  Sjá myndir úr ferð FÍ á Þverártindsegg í maí. Fararstjóri var Einar Ísfeld, myndir tók Erin Jorgensen

Ferð í Fjörður með Valgarði Egilssyni

Ferð í Fjörður með Valgarði Egilssyni:  Samvinnuverk Ferðafélags Íslands og Fjörðunga Grenivík Látraströnd -  Fjörður - Flateyjardalur. Ferðin er 4 göngudagar. Gist er í 3 nætur í eyðibyggðum á Látrum, í Keflavík og á Þönglabakka.  Innifalið 2 kvöldmáltíðir, trúss fyrir tjald og svefnpoka. Fararstjóri Valgarður Egilsson.  Verð kr. 44.000/49.000. Skráning á skrifstofu FÍ.

FÍ og Landvernd á Reykjanes

Ekið á Reykjanes um Hafnir. Litast um við Reykjanesvirkjun. Gengið frá bílastæði við Reykjanesvita vestur að gossprungunni frá 1226 og skoðuð ummerki eftir gosið, en gossprungan var bæði á landi og í sjó. Gengið á Valahnúk og horft yfir brimurðina og Reykjanestá. Gengið að hverasvæðinu og litið á Gunnuhver og Reykjanes-Geysi. Skoðaðar skjálftasprungur. Ekið til baka um Grindavík. Nokkur ganga en ekki erfið.