Fréttir

Þjóðsögur, draugasögur, hjátrú og vikivaki

Kristín Einarsdóttir, aðjunkt í þjóðfræði við Félags- og mannvísindadeild, leiðir hjólaferð, með aðstoð Þjóðbrókar, félags þjóðfræðinema, þar sem þjóðsögur, draugasögur, hjátrú sjómanna, vikivaki og óvæntar uppákomur verða á vegi okkar. Lagt verður af stað frá Sólfarinu við Sæbraut og hjólað meðfram sjónum að Gróttu, þaðan með Ægisíðunni að Nauthólsvík, um Fossvogsdalinn, síðan Laugardalinn og endað við Sólfarið. Þátttakendur mæti á hjóli og er gert ráð fyrir að ferðin taki um tvær klukkustundir. Lagt verður af stað frá Sólfarinu kl. 11.

Með drullumall á tánum

Líklegast var drullumallið efst á vinsældalistanum hjá krökkunum sem tóku þátt í Ævintýraferð Ferðafélags barnanna upp á Kjöl um síðustu helgi. Enda notuðu þau hvert gefið tækifæri til að henda af sér skóm og sokkum og vaða og drullumallat sem mest þau máttu.

Fjall mánaðarins í ágúst er Hlöðufell 1186m

Áttunda ganga verkefnisins Eitt fjall á mánuði 2012 á vegum Ferðafélags Íslands verður farin laugardaginn 25 ágúst. Akstur að fjallinu krefst 4x4 ökutækis. Þeir sem ekki hafa slikan farkost geta nýtt sér rútu sem fer frá FÍ Mörkinni 6 kl: 07.30. Nauðsynlegt er að panta farið á skrifstofu FÍ í síðasta lagi fimmtudaginn 23. ágúst. Verðið er 3.500.-

Þórisgil í Brynjudal - Glymur í Botnsdal

FÍ stendur fyrir gönguferð í Þórisgil í Brynjudal um næstu helgi. Gangan hefst rétt innan Hrísakots í Brynjudal. Gengið með Þórisgili upp úr dalnum og yfir í Botnsdal. Ef veður og aðstæður leyfa verður gengið upp með Glymsgili og komið á þann stað þar sem Glymur sést allur. Gangan endar síðan við hliðið hjá Stóra-Botni í Botnsdal. Nánari upplýsingar um svæðið í ritinu Gönguleiðir upp úr Botni Hvalfjarðar eftir Leif Þorsteinsson.

Hressandi var hún Fimmvörðuhálsgangan

Fjallganga í vondu veðri hreinsar sannarlega hugann, því það kemst ekkert annað að en að komast áfram og lifa þetta af,« segir Áslaug Rut Kristinsdóttir og hlær hin kátasta, en hún ásamt tveimur vinkonum sínum er nýkomin úr göngu yfir Fimmvörðuháls, þar sem allan tímann var kolvitlaust veður, hávaðarok og úrhellisrigning

Síldarmannagötur 19. ágúst

Ferðafélag Íslands stendur fyrir gönguferð um Síldarmannagötur, fornri þjóðleið upp úr Hvalfjarðarbotni yfir Botnsheiði og að Fitjum í Skorradal sunnudaginn 19. ágúst.

Félagsmenn - munið að greiða árgjaldið

Árbók FÍ - 2012 Skagafjörður vestan Vatna eftir Pál Sigurðsson lagaprófessor kom út í byrjun júní og hefur verið afar vel tekið.  Þegar hafa um 5000 félagsmenn greitt árgjald FÍ og fengið árbókina senda heim.  Félagsmenn sem hafa verið á ferð og flugi í sumar eru minntir á að greiða árgjaldið og fá þá árbókina senda heim.     Árbók Ferðafélags Íslands 2012 er nú komin út. Bókin er um Skagafjörð vestan Hérðasvatna og fjallar um svæðið allt frá Skagatá inn að Hofsjökli. Höfundur er Páll Sigurðsson, prófessor og fyrrum forseti Ferðafélags Íslands. Páll fæddist í Reykjavík en ólst upp á Sauðárkróki frá frumbernsku og þekkir vel til í Skagafirði þar sem hann hefur hefur varið mörgum stundum og gengið byggðir jafnt sem óbyggðir. Auk þess sem bókin er góð lýsing lands og sögu eru í henni upplýsingar um áhugaverðar gönguleiðir. Bókin er prýdd fjölda ljósmynda sem flestar voru teknar sérstaklega fyrir bókina. Daníel Bergmann annaðist umbrot á bókinni auk vinnslu ljósmynda. Bókin hefur einnig að geyma vönduð kort sem teiknuð voru af Guðmundi Ó. Ingvarssyni. Handritalestur var í höndum Árna Björnssonar, Eiríks Þormóðssonar, og Guðrúnar Kvaran. Prófarkalestur var í höndum Helga Magnússonar. Jón Viðar Sigurðsson ritstýrði verkinu.   Árbækur Ferðafélags Íslands hafa komið út árlega í óslitinni röð frá árinu 1928 og er einstæður bókaflokkur um land og náttúru. Hver bók fjallar venjulega um tiltekið afmarkað svæði á landinu og nær nú efni þeirra um landið allt, víða í annað eða jafnvel þriðja sinn. Árbækur Ferðafélagsins, 85 að tölu, eru því í raun altæk Íslandslýsing á fimmtán þúsund blaðsíðum. Ferðafélagið hefur alla tíð kostað kapps um að gera árbækur sínar sem best úr garði og jafnan fengið heimamenn á hverjum stað og aðra sérfræðinga til liðs. Þannig hefur verið reynt að gera alla texta- og heimildarvinnu sem traustasta. Mikinn fróðleik um náttúrufar er að finna í bókunum, gróður, fugla og aðra landsins prýði, en ekki síst um jarðfræði og myndunarsögu landsins. Saga og menning skipa háan sess í umfjöllun um byggðirnar.  Ljósmyndir hafa verið í bókunum frá upphafi og hefur félagið notið liðs ágætra landslags- og náttúrulífsljósmyndara. Framfarir í ljósmyndatækni og prentun hafa skilað sér í fallegri bókum. Sést vel í ritröðinni hvernig bækur hafa skipt um útlit og hönnun eftir kröfum tímans. Með bréfi þessu fylgir greiðsluseðill vegna árgjalds félagsins. Þegar seðilinn hefur verið greiddur  í næsta banka þá er árbókin sent til viðkomand ásamt nýju félagsskírteini. Að þessu sinni eru það félagsmenn sem dreifa bókinni fyrir félagið.  Aðild að félaginu veitir að venju ýmis fríðindi fyrir félagsmenn; t.d. afslátt í ferðir og skála sem og betri kjör í ýmsum verslunum. Ferðafélag Íslands  

Ratleikur í Heiðmörk

Ferðafélag Íslands hefur sett upp varanlegan ratleik í Heiðmörk fyrir börn, unglinga og fullorðna. Hægt er að hefja ratleikinn hvenær sem er og þátttakendur geta verið einn eða fleiri. Þátttökublað >>

Trölladyr og buslulækur

Rötun er ekkert mál fyrir krakkana í Ferðafélagi barnanna eins og í ljós kom síðasta laugardag þegar þeir vísuðu veginn frá Dyradal á Hengilssvæðinu og alla leið niður á Nesjavelli með kort og þrælerfiðar gátu-leiðbeiningar að vopni.

Hangið á klettaveggjum

Hraustir krakkar frá Ferðafélagi barnanna könnuðu Búrfellsgjá á alla kanta í liðinni viku, bæði ofan- og neðanjarðar, sem og hangandi í línu. Allir sneru þó heilir heim!