Kristin Krohn Dewold framkvæmdastjóri DNT
Í vikunni voru forráðamenn Ferðafélags Noregs í heimsókn hjá Ferðafélagi Íslands. Norsku gestirnir fóru meðal annars í heimsókn í Langadal í Þórsmörk og lentu í miklu ævintýri í ferðinni þegar Eyjafjallajökull byrjaði að gjósa. Urðu norðmennirnir innlyksa í Langadal ásamt fulltrúum FÍ og ferðamönnum frá Belgíu sem dvöldu í skálanum. Með í för var einnig norski sendiherrann á Íslandi Margit Tveiten.
Hópurinn var síðan fluttur úr Þórsmörk yfir Markárfljót með leyfi almannavarnarnefndar. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir að heimsóknin sé liður í auknu samstarfi félaganna en Ferðafélag Íslands hafi að undanförnu kynnt sér vel starf DNT (norska Ferðafélagsins) og þar sé margt mjög áhugavert sem FÍ geti lært af og tekið upp í sínu starfi.
,,Ferðafélag Noregs er gríðarlega öflugt félag með um 230 þúsund félagsmenn. Starfsemi þeirra er í grunninn hin sama og starf FÍ og byggir á ferðum, skálauppbyggingu, stikun og merkingu gönguleiða, útgáfustarfi og fræðslu, " Páll segir að Ferðafélag Íslands hafi í upphafi verið stofnað eftir hugmyndum frá Noregi og norska Ferðafélaginu.
Sjá myndir