Fréttir

Fjallakröfugöngu á morgun 1.maí AFLÝST

Fjallakröfuganga á degiverkalýðsins- Ferðir FÍ  Númer: D-2 Dagsetning: 1.5.2010 Brottfararstaður: Bláfjöll Viðburður: Fjallakröfuganga á degi verkalýðsins Erfiðleikastig: Lýsing: Vegna aurbleytu á Lönguhlíðum og Fagradalsmúla hefur þessari gönguferð verið aflýst 1.maí

Húsfyllir á myndakvöldi

Húsfyllir var á myndakvöldi Ferðafélags Íslands í gærkvöldi þegar Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ sýndi myndir úr væntanlegri árbók um Friðland að Fjallabaki. Myndir Daníels Bergmann fengu gestir til að grípa andann á lofti og margir sáu þarna nýjar hliðar á landsvæði sem þeir töldu sig þekkja allvel. Ekki síður vöktu kátínu gamlar myndir úr uppbyggingarstarfi Ferðafélagsins í Landmannalaugum sem vörpuðu ljósi á að hefði ekki Ferðafélag Íslands hafist handa við uppbyggingu á svæðinu um 1950 rynni Jökulgilskvíslin án efa yfir heita lækinn í dag. Þetta var síðasta myndakvöld vetrarins en þráðurinn verður tekinn upp aftur á hausti komanda.

Morgungöngur FÍ alla næstu viku

„Hann Tumi fer á fætur, við fyrsta hanagal,” segir í kvæði sem öll börn á Íslandi kunnu áður en sjónvarpið náði almennri útbreiðslu og er sungið við lag eftir Wolfgang Amadeus Mozart. Ferðafélag Íslands hefur í nokkur ár vaknað við fyrsta hanagal í eina viku á hverju vori og staðið fyrir svokölluðum morgungöngum sem standa yfir alla næstu viku 3. - 7. maí. Ákveðið hefur verið að þema morgungangnanna í ár verði ljóðalestur og verður lesið úr Skólaljóðunum eða öðrum ljóðbókmenntum á hverjum fjallstindi. Það eru hjónin Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir sem sjá um morgungöngurnar eins og undanfarin ár.

Myndir úr nýrri árbók

Á næsta myndakvöldi Ferðafélags Íslands 28. apríl n.k. mun Ólafur Örn Haraldsson forseti félagsins sýna ljósmyndir úr væntanlegri árbók FÍ 2010. Bókin fjallar um Torfajökulssvæðið og Fjallabak og er óhætt að segja að þetta heillandi svæði verði sýnt í nýju ljósi í þessari árbók sem Ólafur Örn hefur skrifað og er væntanleg í hendur félagsmanna í maímánuði n.k. Árbækur Ferðafélags Íslands eru ótvírætt ein merkasta ritröð um Ísland og náttúru þess sem til er en árbækurnar hafa komið út árlega frá 1929. Vandaðar ljósmyndir eru aðalsmerki þessarar bókar eins og ávallt og flestar þeirra hefur Daníel Bergmann ljósmyndari tekið en hann hefur lagt gjörva hönd að verki við árbækur síðustu ára. Í ljósmyndasýningunni á miðvikudaginn mun einnig bregða fyrir fjölmörgum eldri myndum sem sýna uppbyggingarstarf og ferðir á svæðinu umhverfis Landmannalaugar í áratugi. Hér gefst því tækifæri til að skyggnast í væntanlegan fróðleiksmola en ekki síður að líta til baka og minnast við gamla daga. Samkoman hefst stundvíslega kl. 20.00 í sal Ferðafélagsins í Mörkinni 6. Aðgangseyrir er kr. 600 og kaffiveitingar í hléi. Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Kvikmyndahátíð útivistarfólks og fjallafíkla

Hin árlega Banff fjallamyndahátíð verður haldin í sal Ferðafélags Íslands dagana 26. og 27. apríl næstkomandi. Sýndar verða stuttmyndir um afrek og ævintýri fólks sem stundar ýmis jaðarsport eins og fjallamennsku, klifur, snjóbretti, fjallaskíði, fjallahjól, BASE-jumping og ýmislegt fleira. Myndirnar eiga það sameiginlegt að fjalla um samspil fólks við náttúruna þar sem adrenalín og góð skemmtun er sjaldan fjarri. Það er óhætt að segja að Banff fjallamyndahátíðin sé orðin að ómissandi viðburði fyrir stóran hóp fólks sem bíðurhátíðarinnar með óþreyju hvert ár. Íslenski alpaklúbburinn hefur fært Íslendingum Banff fjallamyndahátíðina nokkur undanfarin ár en enginn annar viðburður á Íslandi sameinar jafnmarga afreks- og áhugamenn um jaðaríþróttir undir sama þaki. Í ár er hátíðin haldin í samstarfi við Íslenska Fjallaleiðsögumenn og 66° Norður. Almennt miðaverð r 1200 kr. Sýningar hefjast kl. 20.00 hvort kvöld. Nánari upplýsingar er að finna á vef Íslenska alpaklúbbsins

Bakpokanemendur útskrifaðir

Um síðustu helgi voru þátttakendur á námskeiðinu: Með allt á bakinu útskrifaðir. Útskrift fólst í stuttri útilegu á Þríhyrningshálsum yfir ofan Fljótshlíð þar sem gengið var kringum Þríhyrning. Nemendur slógu tjöldum undir Hæringsfelli en þaðan var gott útsýni yfir gosið í Eyjafjallajökli. Útsýnið um kvöldið og nóttina var ógleymanleg lífreynsla en þar gekk á með miklum eldingarleiftrum í gosmekkinum. Þarna reyndu margir á eigin skinni hve góður búnaður er nauðsynlegur þegar sofið er í tjaldi meðan enn er vetur á almanakinu. Í lok ferðar fóru svo fram skólaslit og afhending prófskírteina. Námskeiðið var í umsjá Páls Ásgeirs Ásgeirssonar og Rósu Sigrúnar Jónsdóttur. Sjá myndir.

Esjudagur barnanna

Esjudagur barnanna.  Á morgun laugardag verður mikið fjör í hlíðum Esju.  Þá verður Esjudagur barnanna haldinn í samstarfi við Ferðafélag Barnanna, Esjustofu og Barnamenningarhátíð. Ókeypis sætaferðir verða kl 13.15 frá Ferðafélagi Íslands að Mörkinni 6.  Kl 14.15 verður leikþáttur frá Færeyjum - Trölla-Pétur og amma hans sem er verulega óþæg og skemmtileg. Síðan verður notið þess sem Esjan og skógur hefur upp á að bjóða -  farið í leiki og ratleikurinn verður á sínum stað. Ókeypis veitingar í boði Esjustofu og Ferðafélagsbarnanna. Komið og njótið Esjunnar -  Fjall í borg.  

Esjudagur barnanna

  kemur Esjudagur barnanna er á morgun laugardag  kl 14 - 16. Ókeypis rútuferðir verða frá Mörkinni 6 kl 13.15  og til baka kl 16. Trölla-Pétur og amma hans sem er hið mesta ólíkindatól skemmta kl 14.15 .  Komið öll og upplifið skemmtilega stunda saman í Esjuhlíðum. Við förum í leiki og gönguferðir inn í skóginn og upp í hlíðar Esju. Upplifið hreina náttúrutöfra saman og fyllist forvitni um hvað er á bak við næsta hól. Þessi viðburður er hluti af Barnamenningarhátíð Reykjavík -  Esjan er fjallið okkar ! Ókeypis veitingar í boði Esjustofu og Ferðafélags Barnanna. Mætið öll !        

Staksteinar landsins

Fyrirlestur verður haldinn laugardaginn 24. apríl 2010, kl. 13.15,  í stofu N 130 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Þá flytur Hólmsteinn Snædal á Akureyri fyrirlestur sem hann nefnir Staksteinar landsins, myndir af þeim, nöfn þeirra, saga þeirra og sérkenni. Á sýningunni mun hann sýna myndir af nafnkenndum steinum og segja og lesa upp sagnir sem þeim eru tengdar. Einnig hvernig „íbúar“ sumra þessara steina hafa haft samskipti við sýnilega íbúa landsins. Og síðast en ekki síst hversu mikilvæg kennileiti þessir staksteinar voru í landinu. 

Skaftárganga - Draumaleið göngumannsins

Skaftárganga - draumaleið göngumannsins - 14. - 16. maí . Skemmtileg, þægileg gönguferð með miklum fróðleik um einstaklega fallegt svæði. Leiðsögumaður: Jón Helgason Fararstjóri: Broddi Hilmarsson Frá Skál að Eldmessutanga.15. maí 2010                                                                              Söguganga ca 15 km (6 - 7 klt.) Laugardaginn 15. maí kl. 9.00 er horft á myndina Eldmessu í félagsheimilinu Kirkjuhvoli, Kirkjubæjarklaustri til að skynja betur umhverfi og andrúmsloft í Skaftáreldum og Móðuharðindum.