Fréttir úr starfi félagsins

Fjölmennur félagsfundur í gærkvöldi

Fjölmennt var á félagsfundi FÍ í gærkvöldi sem haldinn var á Hilton Nordica í gærkvöldi en rúmlega 300 manns sóttu fundinn. Fundurinn hófst með framsögum þriggja stjórnarmanna og framkvæmdastjóra um stöðu félagsins. Að því loknu var mælendaskrá opin. Þar tóku ýmsir til máls og voru settar fram hugmyndir og vangaveltur um starf félagsins, áreitismál og rekstur. Að loknum málefnalegum erindum fjölmargra félaga voru lagðar voru fram fjórar tillögur á fundinum. Fyrst var borin undir atkvæði sú tillaga sem gekk lengst, þ.e. að stjórnin myndi segja af sér strax og boða til aðalfundar. Sú tillaga var felld með yfirgnæfandi meirihluta. Samkvæmt fundarsköpum voru næst greidd atkvæði um frávísun á vantrauststillögu sem lögð var fram. Frávísunartillagan var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða sem þýddi að vantrauststillagan var ekki borin undir atkvæði. Að síðustu var lögð fram traustsyfirlýsing við stjórn og framkvæmdastjóra félagsins og var hún samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Framundan er mikil vinna við að endurheimta trúverðugleika félagsins sem brotið hefur á í umfjöllun undanfarinna vikna. Við munum líta í eigin barm í samstarfi við félagsmenn, rýna til gagns og bæta ferla og vinnulag. Til þess erum við reiðubúin öll sem eitt því við vitum að það er ávallt hægt að gera betur. Með vinssemd fh. stjórnar Ferðafélags Ísland, Sigrún Valbergsdóttir Forseti Ferðafélags Íslands

Stjórn Ferðafélags Íslands boðar til félagsfundar fimmtudaginn 27. október n.k. kl 20:00.

Stjórn Ferðafélags Íslands boðar til félagsfundar fimmtudaginn 27. október n.k. kl 20:00 á HILTON REYKJAVÍK NORDICA, Suðurlandsbraut 2. Dagskrá fundarins: 1. Staða Ferðafélags Íslands 2. Önnur mál Rétt til fundarsetu hefur allt skráð félagsfólk sem greitt hefur árgjald FÍ á árinu. Fundargestir eru beðnir að framvísa gildu félagsskírteini við inngang. Stjórn FÍ

Með fróðleik í fararnesti

Með fróðleik í fararnesti er samstarfsverkefni Ferðafélags Íslands og Háskóla Íslands. Þá er gengið undir merkjum Ferðafélags barnanna og á forsendum barnanna þar sem lögð á er áhersla á að njóta, skoða, hafa gaman og eiga góða samverustund með fjölskyldunni. Þann 15. október nk. verður síðasta fróðleiksferð ársins þar sem jarðfræðingar og líffræðingar úr Háskóla Íslands leiða för um Búrfellsgjá í Heiðmörk. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

Örgöngur FÍ - Borgarganga úr Straumsvík

Ferðafélag Íslands hefur boðið upp á örgöngur undanfarin ár og hefur meðal annars verið gengið um Grafarholt, Breiðholt, Gróttu, Kópavog og Hafnarfjörð. Síðasta örganga ársins er nú framundan og ber nafnið Borgarganga úr Straumsvík og leiðir Jónatan Garðarsson för um Straumsvík, fer hjá tóftum Þýskubúðar, Jónsbúðar og Kolbeinskots að Óttarstöðum. Þátttaka í örgöngur FÍ er ókeypis og allir velkomnir.

Lokanir skála fyrir veturinn

Nú er farið að huga að lokunum skála fyrir veturinn. Búið er að taka vatn af skálum félagsins á Kili, Hvítárnesi og Þverbrekknamúla og vinna við lokanir skála að Fjallabaki hefst í þessari viku og halda þá skálaverðir til byggða. Skálum FÍ í Hrafntinnuskeri, Álftavatni, Hvanngili og Emstrum verður lokað um og eftir næstu helgi. Í Langadal verða skálaverðir til 10 október og í Landmannalaugum út október.

Nýtt kort FÍ af gossvæðinu

Ferðafélag Íslands gaf sl. vetur út nýtt endurbætt göngu- og örnefnakort af gossvæðinu í Geldingadölum. Kortið nýtst vel nú þegar gos er hafið að nýju, nú í Meradölum. Kortið var gefið á sex tungumálum; íslensku, ensku, þýsku, frönsku, pólsku og kínversku. Eftir því sem best er vitað er þetta í fyrsta skipti sem íslenskt göngukort er gefið út á kínversku og pólsku. Kortið er hannað í anda gömlu dönsku herforingjakortanna og þar má finna helstu gönguleiðir við gosstöðvarnar, en einnig örnefni og forminjar eins og sel.

Skálaverðir í Hvítárnes og Hornbjargsvita

Búið er að opna Kjalveg og veginn inn í Landmannalaugar

Skálaverðir komnir í alla skála á Laugaveginum

Vegurinn inn í Landmannalaugar er þó enn lokaður

Árbækur í þúsundatali!

Allar árbækur hafa verið sendar frá okkur. Félagar sem greitt hafa árgjald 2022 eiga von á henni með póstinum á næstunni.

Sumargöngur FÍ og ON um Hengilssvæðið

Ferðafélag Íslands og Orka náttúrunnar bjóða öllum sem vilja í fjórar áhugaverðar göngur um Hengilssvæðið í sumar! Að sjálfsögðu er ókeypis í allar göngurnar