Fréttir

Línudans í Landmannalaugum

  Mannlífið í Landmannalaugum er að jafnaði afar litríkt og fjölbreytt. En línudans að morgni dags fyrir fjallgöngu hafði ekki sést þar áður fyrr en nú um helgina. Þar var á ferð hinn lífsglaði og skrautlegi 52 fjalla hópur á vegum Ferðafélags Íslands að safna fjöllum. Fimm tindar voru sigraðir um helgina en áður en lagt var á brattann á Bláhnúk á sunnudagsmorgni stjórnaði einn úr hópnum, Davíð Örn Kjartansson, línudansi á planinu fyrir utan.Þar var dansað af krafti og tónlistin bergmálaði í fjöllunum umhverfis Laugar sem skörtuðu sínu fegursta í stilltu haustveðri og sólskini. 88 göngugarpar fóru alsælir heim eftir að hafa smitast fyrir lífstíð af töfrum náttúrunnar á þessu fagra svæði.

Lokaáfangi Laugavegar - haustferð í Þórsmörk - Emstrur - Þórsmörk

Haustferð FÍ 17. - 18 september þar sem ekið er í rútu í Emstrur og gengið í Þórsmörk, lokaáfanginn á Laugaveginum,  Grillveisla og haustlitir í Þórsmörk.

Óvissuferð um næstu helgi

Óvissuferð FÍ er um næstu helgi. Mikil óvissa hvílir yfir ferðaáætlun og taldi farastjóri líklegast að hann færi út og suður en líklega ekki norður og niður, hann var þó ekki viss.

Ratleikur ,,silfur Egils" á Esjudaginn 28. ágúst

Á Esjudaginn 28. ágúst nk. verður ratleikur í tilefni dagsins.  Hundrað þúsund krónum verður komið fyrir í Esjuhlíðum i 20 fjársjóðapokum. Sá á fund sem finnur.  Finnst loksins silfur Egils sem hann faldi fyrir 1000 árum. Allir fá miða með upplýsingum um ratleikinn eftir setningu Esjudags á sunnudag kl. 13.

Esjudagur FÍ og Valitor - kvöldganga með Ólafi Erni laugardag kl. 20.30

Hluti af dagskrá Esjudagsins er kvöldganga á Þverfellshorn með Ólafi Erni Haraldssyni forseta FÍ. Kvöldganga er að kveldi laugardags 27. ágúst og hefst kl. 20.30 frá Esjustofu.  Ef aðstæður eru góðar mun kvöldsólin baða hafflötin við sjónarrönd gulrauðum roða og á bakaleiðinni sjáum við ljósin í bænum vakna við undirspil mána og stjarna.

Esjudagur FÍ og Valitor - Ingó veðurguð stjórnar brekkusöng

Esjudagur FÍ og Valitor er haldinn sunnudaginn 28. ágúst nk.  Ingó veðurguð mætir í gönguferð með Ferðafélagi barnanna og stjórnar brekkusöngi í fyrstu búðum Esjunnar sem settar hafa verið upp í tilefni dagsins. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.  Takið með ykkur nesti og nýja skó.

Esjudagur FÍ og Valitor - morgunganga á Móskarðshnúka með framkvæmdastjóra FÍ

Esjudagur FÍ og Valitor er haldinn sunnudaginn 28. ágúst nk.  Ferðafélag Íslands býður upp á gönguferðir með fararstjórum í tilefni dagsins. Meðal annars er boðið upp á fjölskyldugöngu með Ferðafélagi barnanna að fyrstu búðum, skógargöngu með skógræktarfélagi Reykjavikur, kappgöngu að Steini,  göngu á Þverfellshorn og morgungöngu á Móskarðshnúka með framkvæmdastjóra FÍ.

Esjudagur FÍ og Valitor - Maximus Músikus mætir í Esjuna

Esjudagur FÍ og Valitor er haldinn sunnudaginn 28. ágúst nk.  Maximus Músikus mætir í Esjuna ásamt tónlistarmönnum úr Sinfóníuhljómsveti Íslands og spilar fyrir unga fólkið í ,,fyrstu búðum" í Esjunni sem settar verða upp í tilefni dagsins. Maximus Múskikus hefur slegið í gegn hjá Sinfóníuhlljómsveitinni og verður án efa glaður að komast út í náttúruna.

Esjudagur FÍ og Valitors - 28. ágúst

Esjudagur fjölskyldunnar verður haldinn sunnudaginn 28. ágúst.  Boðið verður upp á gönguferðir, m.a. morgungöngu, skógargöngu, kappgöngu, kvöldgöngu, fjölskyldugöngu, brekkusöng, ratleik, fjöldaupphitun.  Sem sagt margt skemmtilegt  í boði fyrir útivistarunnendur og alla fjölskylduna. Þáttaka er ókeypis og allir velkomnir. Dagskráin auglýst nánar eftir helgi.

Jarðminjaferðamennska

Jarðminjaferðamennska er skilgreind sem ferðaþjónusta sem byggir á sérstæðri jarðfræði og nýtur stöðugt meiri vinsælla á heimsvísu. Einn virtasti sérfræðingur heims á þessu sviði, dr. Ross Dowling, heldur opinberan fyrirlestur á vegum Háskólafélags Suðurlands, Kötlu Jarðvangs og Líf og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins mánudaginn 29. ágúst kl. 15-17.