Fréttir

52 fjalla hópurinn tekst á við Hnúkinn

52 fjalla hópur Ferðafélags Íslands tókst á við Hvannadalshnúk um helgina. Veður var frábært, heiðskírt, stillt og kalt lengi framan af. Á öskjubrún í 1800 metra hæð tók að snjóa og var látlaus ofankoma í fjórar klukkustundir. Brotafæri í hné var á leiðinni yfir öskjuna að Hnúknum og mælt var tæplega 14 stiga frost. Mjög erfiðar aðstæður voru utan í Hnúknum, brattar ísbrekkur og skæni af nýsnævi huldi sprungur. Í tæplega 2000 metra hæð var því ákveðið að snúa frá. Þegar hópurinn var kominn áleiðis aftur til baka yfir öskjuna varð bjart á ný en áfram erfitt göngufæri. Hópurinn mætti þessum erfiðu aðstæðum af kjarki og harðfylgi og gleðin sveif yfir vötnunum enda gafst frábært útsýni yfir stórkostlegt landslag Öræfajökuls á leiðinni.Þátttakendur í förinni voru 92 og með þeim voru 12 fararstjórar. Fararstjórahópurinn steig á stokk í 1100 metra hæð og söng Óbyggðirnar kalla fyrir hópinn undir styrkri stjórn Róberts Marshall sem lék undir á bleikt ukulele. Aðrir fararstjórar sungu, léku á ásláttarhljóðfæri og sýndu danshreyfingar eftir getu.

Með fróðleik í fararnesti - landafræði á hjólum um miðborgina

  Með fróðleik í fararnesti - Landfræði á hjólum: Rýnt í borgarlandið Hvenær hefst þessi viðburður:  5. maí 2012 - 11:00 to 13:00 Staðsetning viðburðar:  Askja Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, leiðir hjólaferð um miðborgina og nágrenni. Staldrað verður við á nokkrum stöðum og fjallað um ýmis atriði borgarumhverfisins með augum landfræðinga. Hvaða öfl hafa öðru fremur mótað þróun Reykjavíkurborgar? Hvernig speglast hugmyndir almennra íbúa, skipulagshöfunda og arkitekta í ásýnd borgarinnar og hvaða breytingum hafa þær tekið í tímans rás? Hvaða afleiðingar hafa breytingar á íbúasamsetningu og atvinnulífi fyrir svipmót hverfa og gatna? Hvernig hefur svo á hinn bóginn hið byggða umhverfi, sem og óbyggð svæði, áhrif á mannlífið í borginni? Síðast en ekki síst, hvernig tengjast umferðarmálin þessu öllu? Þátttakendur mæti á hjóli. Lagt verður af stað frá Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, kl. 11 og er gert ráð fyrir að ferðin taki um það bil tvær klukkustundir. Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands halda áfram samstarfi sínu um gönguferðir sem efnt var til í tilefni aldarafmælis skólans 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum og nú hjólaferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Ferðirnar verða fimm talsins og tekur hver um tvær klukkustundir. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir. Markmiðið með samstarfinu er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi Háskólans og Ferðafélagsins.

Fræðsluferðir FÍ og HÍ - hjólaferð um miðborgina 5. maí

Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands halda áfram samstarfi sínu um gönguferðir sem efnt var til í tilefni aldarafmælis skólans 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í áhugaverðum gönguferðum og nú hjólaferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Ferðirnar verða fimm talsins og tekur hver um tvær klukkustundir. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Met slegið í morgungöngum

Morgungöngum Ferðafélags Íslands og VÍS lauk á föstudag með göngu á Úlfarsfell. Morgungöngur hafa farið fram í átta ár og í þetta sinn var nýtt met slegið í fjölda en 650 manns tóku þátt í göngunum í ár. Lausleg könnun við rætur Úlfarsfell benti til að um 50 manns hefðu mætt í allar göngurnar fimm. Aldursforseti í göngunum var 78 ára og mætti hann hvern morgun og var jafnan með fremstu mönnum. Í morgun var nýjum áfanga náð þegar sex ára göngustúlka tók þátt í göngunni á Úlfarsfell.Að vanda var lesið úr Skólaljóðum á hverjum morgni og stundum brustu göngumenn í söng. Í síðustu göngunni bauð Ferðafélag Íslands upp á morgunhressingu á Úlfarsfelli og gæddu göngumenn sér á volgu hagldabrauði og kókómjólk.Fararstjórar í morgungöngum voru, eins og undanfarin ár, þau Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.

Vinnuferð í Húsadal

Ferðafélag Íslands stendur fyrir vinnuferð í Húsadal í Þórsmörk um næstu helgi og óskar eftir sjálfboðaliðum til að vinna við ýmis vorverk í Húsadal. FÍ leggur til ferðir og mat í vinnuferðinni en þátttakendur leggja fram vinnu í staðinn. Unnið verður á laugardegi frá kl. 9 - 17 og á sunnudegi frá kl. 9 - 16.

Morgungöngur Ferðafélags Íslands og VÍS -92 á Vífilfelli í morgun

Í morgun gengu 92 frískir morgungenglar á Vífilsfellið í svölu og fallegu verði. Sólin skein og fjallahringurinn gladdi. Lesið var úr verkum Jónasar Hallgrímssonar og Hannesar Hafstein.Á morgun -föstudaginn 4. maí verður gengið á Úlfarsfellið. Aka skal þjóðveg 1 (Vesturlandsveg) beygja hjá Bauhaus inn á Lambhagabraut, beygja til hægri inn á Mímisbrunn, aka hann að Skyggnisbraut og eftir henni að uppgöngustað. Sjá kort hér. Á Úlfarsfelli verður hrópað húrra fyrir þeim sem hafa mætt alla morgnana í vikunni og etinn morgunmatur í boði Ferðafélagsins.Athugið að bílar fara úr Mörkinni 6. kl. 06.00 og aka að upphafsstað göngu. Ganga hefst því ca. 06.20 eða þar um bil.                   Morgungenglar hlýða á ljóðalestur á Helgafelli.02. maí - Helgafell við Mosfellsdal03. maí - Vífilsfell04. maí - Úlfarsfell Aðgangur er ókeypis og öllum heimill. Þátttakendur koma á eigin bílum annað hvort í Mörkina 6 að húsakynnum FÍ þaðan sem farið verður í halarófu eigi síðar en kl. 06.00. Einnig er hægt að mæta beint að upphafsstað göngu. Settar verða inn leiðbeiningar hér á heimasíðuna fyrir hvern dag og hvert fjall.Í göngunum er reynt að halda meðalhraða sem allir ráða við og í meginatriðum miðað við að hópurinn sé samferða á toppinn. Undanfarin ár hefur verið lesið úr Skólaljóðunum á hverjum fjallstindi og verður eflaust svo einnig í ár. Fararstjórar eru: Páll Ásgeir Ásgeirsson og Rósa Sigrún Jónsdóttir.

Örgöngur Ferðafélags Íslands hefjast 2. maí

Örgöngur Ferðafélags Íslands                  Á hverjum miðvikudegi í maí, þ.e. 2., 9., 16., 23. og 30. maí, er farið í gönguferðir um Grafarholt og nágrenni þess.  Þátttakendur safnast saman við hitaveitugeymana og þaðan er gengið í 1 ½ - 2 tíma um nærliggjandi holt og heiðar.  Ferðalok eru við geymana.  Ganga hefst  kl 19.  Ferðir sem þessar hafa verið farnar í maí undanfarin 3 ár og eru þátttakendur orðnir samtals um 400.  Þótt aðallega sé gengið á stígum, liggur leið að nokkru um móa og  því ráðlegt að vera í góðum gönguskóm.  Þetta eru ekki hraðgöngur.  Örgöngur eru aldrei felldar niður vegna veðurs. Klæðið ykkur í samræmi við veðurútlit. Göngustjórar eru Guðlaug Sveinbjarnardóttir og Höskuldur Jónsson    Fyrsta gangan er miðvikudaginn 2. maí.  Leið: Gengið um malarstíginn, sem liggur upp Leirdalsklauf og inn á skógarstíg, sem liggur utan í Nónás.  Þá er farið inn á stíg sem liggur sunnan Reynisvatns og síðan inn á stíg er liggur upp á Velli – gamla skotsvæðið.  Frá Völlum er genginn stígur, sem liggur upp á Grenás sunnan Leirdals – þaðan niður Leirdal og að geymunum.                                                         Ekkert þátttökugjald

Hvenær gýs Hekla ?

Dr. Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur, flytur erindi á vegum Hins íslenskanáttúrufræðifélags.  Erindið verður flutt mánudaginn 30. apríl kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.  Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Gestabókarganga á Viðarfjall við Þistilfjörð

Viðarfjall við Þistilfjörð hefur verið tilnefnt í verkefnið “Fjölskyldan á fjallið” sem er einn liður í almenningsíþróttaverkefnum Ungmennafélags Íslands. Héraðssamband Þingeyinga tilnefnir á hverju ári tvö fjöll á starfssvæði sínu í þetta verkefni; eitt í norðurhlutanum og annað í sunnanverðri sýslunni. Gengið verður á Viðarfjallið næstkomandi laugardag, þann 28. apríl nk. til að koma þar fyrir gestabók

Náttúruverndarþing á laugardaginn nk.

Náttúruverndarhreyfingin á Íslandi efnir til náttúruverndarþings 2012 í Háskólanum í Reykjavík laugardaginn 28. apríl kl. 10-16:30. Fjallað verður um stöðu rammaáætlunar, ferðaþjónustu, lýðræði, friðlönd og skipulag og starf náttúruverndarfélaga. Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis. Þeir sem ætla að borða hádegismat á þinginu (1.990 kr.) eru beðnir um að skrá sig í síðasta lagi 26. apríl á netfangið skraning@landvernd.is. Að kvöldi dags verður svo blásið til Náttúruverndarballs með skemmtidagskrá á efri hæð Kaffi Sólon (opnar kl. 20). Ómar Ragnarsson skemmtir.