Fréttir

Aðalfundur Ferðafélags Íslands

Aðalfundur Ferðafélags Íslands verður haldinn miðvikudaginn 10. mars kl. 20 í sal félagsins Mörkinni 6. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf. Stjórnin

Útivist eldri og heldri borgara

4. mars hófust gönguferðir fyrir eldri og heldri borgara á vegum Ferðafélags Íslands. Gönguferðirnar eru á þriðjudögum og fimmtudögum og hefjast ávallt kl. 14.00. Á þriðjudögum hittast þátttakendur við Árbæjarlaug en þaðan er auðvelt að komast inn á kerfi gangstíga sem teygir sig um allan Elliðaárdal og upp að Elliðavatni. Á fimmtudögum hittast menn og konur svo við Nauthól í Nauthólsvík kl. 14.00 og þaðan liggja stígar meðfram sjónum í báðar áttir og hlykkjast ennfremur um alla Öskjuhlíðina. Ferðafélagið leggur til fararstjóra í þessar gönguferðir og hefur Alfreð Hilmarsson tekið þetta verkefni að sér fyrir félagið en Alfreð er vaskur göngugarpur sem er enn léttur á fæti þótt árunum fjölgi. Þetta verkefni er unnið í samvinnu við Valitor sem hefur átt náið og gott samstarf við Ferðafélag Íslands í nokkur ár. Allar rannsóknir sýna að fátt er betri heilsubót til sálar og líkama en að taka sér hressandi gönguferð með skemmtilegu fólki. Í þessum ferðum er vegalengd og gönguhraði stilltur í samræmi við virðuleika þátttakenda og meðalaldur hópsins hverju sinni.

Fundur um utanvegaakstur í kvöld

Félagið Slóðavinir stendur fyrir fundi í kvöld 3. mars kl. 20.00 í húsakynnum Arctic Trucks, Kletthálsi 3. Þar flytja erindi þeir Ómar Ragnarsson ferðalangur og fjölmiðlamaður og Andrés Arnalds fagmálastjóri hjá Landgræðslu ríkisins. Þeir fjalla báðir, hvor með sínum hætti um slóðamyndun, utanvegaakstur og gróðureyðingu samfara aukinni umferð. Nokkur umræða hefur verið opinberlega undanfarið ekki síst að frumkvæði Andrésar sem haldið hefur erindi sem vakið hafa töluverða athygli. Fundurinn er opinn öllum sem áhuga hafa á ferðamennsku og útivist

Vaðnámskeiði frestað fram í apríl

Vaðnámskeiði FÍ sem vera átti um næstu helgi hefur verið frestað vegna aðstæðna. Námskeiðið verður haldið 10. - 11. apríl nk.

Námskeið um Vatnajökulsþjóðgarð

Vatnajökulsþjóðgarður er víðfeðmur og fjölbreytilegur. Hann er stærsti þjóðgarður Evrópu, hátt í 14 þúsund ferkílómetrar að stærð. Á námskeiðinu mun Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur fjalla um náttúru norðausturhorns garðsins, nánar tiltekið Snæfell, Eyjabakka og umhverfi. Aðallega verður fjallað um gerð og aldur jarðlaga á svæðinu, landmótun, eðli og sögu jöklanna og jarðhita sem fáir veita athygli. Auk þess verður komið inn á gróðurfar og dýralíf á svæðinu. Snæfell setur mjög svip sinn á umhverfið og verður ekki um landið fjallað nema nefna það sérstaklega. Nokkrum gönguleiðum á fjallið verður lýst.

Innbrot í bíla á útivistarsvæðum

Borist hefur ábending frá félagsmanni í Ferðafélagi Íslands vegna innbrota í gærdag í bíla á bílastæðinu við Mógilsá við Esjurætur.

Eitt fjall á viku - 27. febrúar

Sjá upplýsingar um ferðir hópanna í Eitt fjall á viku.

"Ljótuhúfudagur" á Keili

Verkefnið Eitt fjall á viku með FÍ er í rífandi gangi og á laugardaginn kemur ganga Vesturbæingar á Keili, Austurbæingar kanna Valahnúka og Valaból en Þorparar ganga á Helgafell ofan Mosfellsbæjar. Ganga hefst kl. 0900 á laugardagsmorgun og gæti orðið meiri snjór fyrir fæti en verið hefur fram að þessu. Vesturbæjarhópurinn efnir til "ljótuhúfudags" á Keili á laugardag og verður veitt viðurkenning fyrir ófrýnilegasta höfuðfatið í leiðangrinum. Mikill keppnishugur er í mönnum og konum og hefur heyrst af sérstökum verslunarferðum af þessu tilefni. Má því búast við harðri keppni og kannski taka aðrir hópar upp þennan sið.

Esjan fjóra daga í röð

FÍ fjör í Esjunni - vertu til er vorið kallar á þig er hafið en það felst í því að ganga á Esjuna fjóra daga í röð. Í gær, þriðjudag  fór hópurinn upp í allhvössum vindi en ágætlega björtu veðri. Mönnum þótti talsvert streð að baksa upp með vindinn í fangið og var því látið nægja að fara upp að Steini. Í dag miðvikudag verður haldið áfram og ástæða til að hvetja fólk til að mæta í þetta hressilega verkefni. Veðurspáin fyrir daginn er áhugaverð, spáð er norðlægri átt og síðdegis gæti orðið einhver ofankoma.  En gott skap og hlýr fatnaður er rétta veganestið í fjallgöngur að vetri.  Fararstjóri er Þórður Marelsson.  Lagt er af stað frá Esjustofu kl. 18 alla daga.  Takið með ykkur höfuðljós og góðan búnað. 

Fjallabók FÍ - þátttakendur 2009

Sl. ár stóð Ferðafélag Íslands fyrir verkefni þar sem þátttakendur söfnuðu fjöllum í til þess gerða Fjallabók FÍ.  Nú hefur póstkassinn sem hefur að geyma allar Fjallabækur ársins 2009 verið opnaður og er nöfn þátttakenda og þeirra sem skráðu niður 10 fjöll sem þeir gengu á árinu að finna hér að neðan.  Þáttakendur fá í verðlaun FÍ buff, FÍ spilastokk og fræðslurit að eigin vali. Aðalheiður Stefánsdóttir, Anna Lára Eðvarðsdóttir, Borgþór Harðarson, Corina Hoffmann, Elínborg Kristinsdóttir, Erlingur Jensson, Fanney Bj. Karlsdóttir, Halla Rún Erlingsdóttir, Hanna María Þorgeirsdóttir, Heiðdís Lilja Erlingsdóttir, Ingibjörg Sveinsdóttir, Jónína Pálsdóttir, Katrín Haraldsdóttir, Margrét Hallgrímsdóttir, Ómar Smári Kristinsson, Sigríður Lóa Jónsdóttir, Sigurður E. Kristjánsson, Snæfríður M. Björnsdóttir, Sveinn B. Sveinsson, Trausti Sigurðsson, Þórhallur Hálfdánarson.