Fréttir

Áhugavert blogg um náttúruvernd

Páll Ásgeir Ásgeirsson stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands og fararstjóri er atkvæðamikill bloggari og birtast skrif hans á vefsvæðinu Eyjunni. Undanfarna daga hafa birst þar nokkrar færslur þar sem fjallað er um náttúruvernd og utanvegaakstur í víðu samhengi, viðhorf manna til náttúrunnar og verndar hennar. Snarpar umræður hafa orðið í athugasemdakerfi síðunnar þar sem sitt sýnist hverjum en ljóst af viðbrögðum að hér er á ferðinni málefni sem fólki er mjög hugfólgið. "Mér finnst vert að reyna að ræða þessi mál og reyna að vekja fólk til umhugsunar," sagði Páll Ásgeir í samtali við heimasíðu FÍ. Slóðin á bloggsíðu Páls Ásgeirs http://blog.eyjan.is/pallasgeir/ og þar geta áhugasamir lesið umræddar færslur.

Esjan fjóra daga í röð

FÍ fjör í Esjunni - vertu til er vorið kallar á þig er hafið en það felst í því að ganga á Esjuna fjóra daga í röð. Í gær, mánudag fór fyrsti hópurinn upp í köldu veðri en ágætlega björtu. Flestir létu nægja að fara upp að Steini en nokkrir fóru alla leið upp á brún. Í dag og næstu daga verður haldið áfram og ástæða til að hvetja fólk til að mæta í þetta hressilega verkefni. Veðurspáin fyrir daginn er ágæt, spáð er norðan vindi og 2 stiga frosti. Frostið eykst eftir því sem ofar dregur og nokkur vindur var í fjallinu í gær og má gera ráð fyrir svipuðu veðri í dag. En gott skap og hlýr fatnaður er rétta veganestið í fjallgöngur að vetri.  Fararstjóri er Þórður Marelsson.  Lagt er af stað frá Esjustofu kl. 18 alla daga.  Takið með ykkur höfuðljós og góðan búnað. 

Ástarpungar og kleinur

,,Ég var að springa úr mæði á leiðinni upp en að springa úr monti á leiðinni niður," sagði stoltur göngugarpur nýkominn af tindi Móskarðshnúka í gönguhópi Austurbæinga í verkefninu Eitt fjall á viku.  Gengið var á hæsta tind Móskarðshnúka  og útsýni fjallahringsins stórkostlegt í frosnum himni. Þegar niður var komið biðu ástarpungar og kleinur göngumanna.   Þrír fjallahópar FÍ gengu á fjöll í gærdag, Austurbær gekk á Móskarðshnúka, Vesturbær gekk á Skálafell og Nágrannar gengu á  Húsfell, alls um 150 manns.   Sjá myndir í myndabanka FÍ með því að smella á nöfn hópanna.

Fjallaskíðanámskeið

Fjallaskíðanámskeið,1 dagur2 námskeið  27 og 28 febrúar. Mæting í Mörkinni kl 08:00 Einn dagur á fjöllum þar sem að farið er yfir grunn þætti fjallaskíðamennsku s.s mat á snjóflóðahættu, snjóflóðaleit, uppsetningu á öruggri leið og almenna vetrarfjallamennsku. Þetta örnámskeið er ætlað sem verkleg kynning á sportinu og fer fram í nágrenni borgarinnar þar sem aðstæður eru bestar á þeim tímapunkti. Fjallaskíða og öryggisbúnaður fæst leigður á staðnum fyrir þá sem ekki eiga. Verð: 15.000.- Utan búnaðar 

Fjallaskíðamennska í samstarfi við Jökul Bergmann

Kynningarkvöld um fjallaskíðamennsku Í samstarfi við Íslenska Alpaklúbbinn: 25 Febrúar kl 20:00 Jökull Bergmann sýnir magnaðar myndir og videó þar sem fjallaskíðamennska er í aðalhlutverki,ásamt því sem fólki gefst tækifæri til að skoða allan þann sérhæfða búnað sem fylgir sportinu og fá ráðleggingar frá eina faglærða fjallaleiðsögumanni landsins. Spennandi tækifæri til þess að kynna sér þetta magnaða sport.  Allur ágóði rennur í viðgerðasjóð vegna endurbóta á Bratta, skála Íslenska Alpaklúbbsins í Botnsúlum sem er kjörin áfangastaður fjallaskíðafólks á suð vestur horninu.Verð: 500.- eða frjáls framlög

Aðsóknarmet á myndakvöldi

Myndakvöld FÍ með Helga Björnssyni jöklafræðingi og Þóru Ellen Þórhallsdóttur líffræðingi sló aðsóknarmet vetrarins en 250 gestir mættu til að hlýða á erindi hjónanna og myndasýningar. Gestir fræddust um eðli jökla, íhuguðu hvort fæddur myndi sá Íslendingur sem fengi að sigla inn í Esjufjöll eftir Breiðamerkurfirði og sátu andaktugir undir fyrirlestri Þóru Ellenar um verðmæti íslensks landslag, sérstöðu þess og ýmsar rannsóknir því tengdar. Hinar sívinsælu kaffiveitingar voru á sínum stað. Sigurvegari í ljósmyndasamkeppni FÍ tók á móti verðlaunum og menn hittu gamla ferðafélaga, treystu vinaböndin og skiptust á skoðunum og fréttum úr heimi fjallaferða og útivistar.

Leyndarmál jökla og fegurð landslags á næsta myndakvöldi

Næsta myndakvöld Ferðafélagsins verður haldið miðvikudaginn 17. febrúar í sal Ferðafélagsins í Mörkinni 6 og hefst kl. 20.00 að vanda. Myndakvöldið er að þessu sinni í umsjá hjónanna Helga Björnssonar jöklafræðings  og Þóru Ellenar Þórhallsdóttur líffræðings.  Páll Ásgeir Ásgeirsson umsjónarmaður myndakvölda FÍ segir afar ánægjulegt að  bjóða upp á myndakvöld með þeim hjónum sem hvort fyrir sig er á meðal fremstu vísindamanna þjóðarinnar á sínu sviði.

Niðurstaða dómnefndar í ljósmyndasamkeppni FÍ

Nú hefur dómnefnd skilað inn niðurstöðu í ljósmyndasamkeppni FÍ sem haldin var fyrir áramót.  Vinningsmyndin var tekin í Langadal í Þórsmörk og ljósmyndarinn er Ármann Guðjónsson.  Í texta ljósmyndara með myndinni segir:, ,, Mynd tekin við bústað skálavarða í Langadal 23. ágúst, lítill sætur yrðlingur hvílir sig í sólinni," Í niðurstöðuorðum dómnefndar segir:  "Dómnefnd þótti myndin hafa til að bera það þrennt sem hæfir góðri náttúrumynd; sterka mynduppbyggingu, fallega birtu og hún er tekin á réttu augnabliki. Þá leiðir grunnur fókus (dýptarskerpa) myndarinnar augu áhorfandans beint í auga dýrsins og skapar þannig umsvifalaust tengingu við viðfangsefnið. Þá er tófan táknmynd náttúru Íslands sem eina villta spendýrið á landinu."

Til hamingju Ísland að ég fæddist hér

Nú hefur skapast sú hefð hjá gönguhópum Eitt fjall á viku að syngja eitt lag eða tvö í hverri göngu.  Austurbæingar tóku lagið í tvígang á leið sinni á tind Skálafells.  Fyrra lagið var sérútgáfa af laginu ,,Til hamingju Ísland að ég fæddist hér,,  og var bætt við textann,  eitt fjall á viku, alltaf með þér.  Þegar upp var komið var heldur tekið að blása eins og oft er á Skálafelli og var þá sungið Yfir kaldan eyðisand, einn um nótt ég sveima.  Síðan var haldið niður á leið með byr undir báða vængi. 

Pönnukökur og kleinur á Móskarðshnúkum

Galvaskur hópur Nágranna (stundum nefndir þorparar), einn af þremur hópum FÍ í Eitt fjall á viku,  gengu á Móskarðshnúka í dag og skiptist þar á skin og skafrenningur. Nágrannar telja rúmlega 60 þátttakendur í Eitt fjall á viku og eru eins og nafnið á hópnum gefur til kynna íbúar í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og reyndar víðar því að einn þátttakandi kemur alla leið frá Vík í Mýrdal í hverja fjallgöngu einu sinni í viku.  Eftir ýmis konar sprell og skemmtilegheit stýrt af hinum glaðbeittu fararstjórum Nágranna var hópurinn hinn brosmildasti á austurtindi Móskarðshnúka. Kökunefnd hafði síðan hrært í nokkra skammta af kleinum og pönnukökum og var þeim raðað í sig af bestu lyst þegar niður var komið. Sjá myndir í myndabanka FÍ