Fréttir

Ferðaáætlun FÍ 2010 - gjafakort í ferðir

Ferðaáætlun FÍ 2010 er nú í lokavinnslu. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir að áætlunin sé full af áhugaverðum og spennandi ferðum. ,,Þetta er áætlun á mjög breiðum skala, allt frá örgöngum um göngustíga í borginni yfir í klifur á hæstu tinda landsins og allt þar á milli,  í formi sumarleyfisferða, helgarferða, dagsferða, skíðaferða og jeppaferða,"  Ferðaáætlunin kemur út um miðjan janúar og er þá send heim til allra félagsmanna en fer auk þess í myndarlega dreifingu.  ,,Það er gaman að minna á ferðaáætlunina nú fyrir jólin því gjafakort í ferðir með FÍ er tilvalin jólagjöf ferðafélagans

Vetrarsólstöðuganga FÍ / jólasmákökuganga

Vetrarsólstöðuganga FÍ verður sunnudaginn 20.desember.  Þá verður gengið á Kerhólakamb, upp frá Esjubergi og yfir á Þverfellshorn og komið niður við bílastæðið við Mógilsá.  Lagt verður af stað í rútu frá Mörkinni 6 kl. 9.00.  Komið er til baka um miðjan dag.  Þátttakendur skulu taka með sér sýnishorn af jólabakkelsinu og deila með öðrum í nestisstoppi.  Besta jólasmákakan fær verðlaun.  Fararstjórar í ferðinni eru Þórhallur Ólafsson og Páll Guðmundsson.  Verð er kr. 1000, allir velkomnir.  Takið með ykkur nesti og góðan búnað.

Göngugleði - ferðasaga 6. desember

Sunnudaginn 6. desember mættu  göngugarpar á vegginn í Mörkinni. Þar sem roðinn í austri gaf fyrirheit um bjartan og fallegan dag, kom ekki annað til greina en að ganga á gott útsýnisfjall og var Skálafell (574 m) á Hellisheiði fyrir valinu.

Ferðafélag barnanna býður til leiksýningar

Ferðafélag barnanna og FÍ bjóða til leiksýningar á leikritið Ævintýrið um augastein sunnudaginn 13. desember kl. 12.00.  Leikritið er eftir Felix Bergsson leikara og fararstjóra hjá Ferðafélaginu en hann leikur einleik í þessari fallegu sýningu.

Fréttapóstur 8. des

Fréttapóstur frá Ferðafélagi Íslands 8. desember.  Fréttapóstur er sendur út reglulega á póstlista FÍ. Hægt er að skrá sig á póstlistann hér á heimasíðunni.

Hádegisgöngur halda áfram

Hádegisgöngur Ferðafélags Íslands hófust í síðustu viku. Þeim verður fram haldið og er gengið kl. 12.00 á þriðjudögum frá Árbæjarlaug og Elliðaárdal og nágrenni og kl. 14.00 á fimmtudögum frá Nauthólsvík eftir ýmsum leiðum við sjóinn. Ferðafélagið annast leiðsögn og fararstjórn en göngurnar eru sniðnar við allra hæfi og ætlað að hvetja fólk til holllrar og reglulegrar útiveru í félagsskap fólks með áþekk áhugamál. Öll ferðalög stór og smá hefjast á einu skrefi og kannski reynist þátttakan hádegisgöngum FÍ upphafið að stærri afrekum á sviði útivistar og gönguferða.

Mjór er mikils vísir

Þetta eru þátttakendur í fyrstu hádegisgöngu Ferðafélags Íslands sem gengin var 1. desember frá Árbæjarlaug. Genginn var hringur um Elliðaárdal í logni og nokkru frosti. Eins og sést á myndinni voru þátttakendur ekki ýkja margir en mjór er mikils vísir og við þetta tækifæri var rifjað upp að í fyrstu morgungöngu Ferðafélagsins fyrir fjórum árum voru fimm þátttakendur. Í vor tók nokkur hundruð þátt í morgungöngum. Næsta ganga hefst í Nauthólsvík á fimmtudag kl. 14.00 og Ferðafélagið vonast til þess að sjá eins marga og vettlingi geta valdið.

Fyrsta hádegisgangan

Þann 1. des hefjast hádegisgöngur Ferðafélagsins og hittast menn við Árbæjarlaug kl. 12.00. Þaðan verður gengið um Elliðaárdal í rúman klukkutíma. Veðurspá er fremur hagstæð og má búast við norðanátt og líklega björtu veðri og nokkru frosti og því rétt að búa sig hlýlega. Ferðafélagið leggur til fararstjóra í hádegisgöngurnar og verða þeir tveir saman í þessari fyrstu göngu sem fram fer á fullveldisdegi Íslands. Þetta eru Pálar tveir, Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÍ og Páll Ásgeir Ásgeirsson rithöfundur og stjórnarmaður í FÍ. Báðir eru þeir vanir fararstjórn en heimasíðunni tókst ekki að afla upplýsinga um nákvæma verkaskiptingu milli þeirra í göngunni. Ferðafélag Íslands vonast til þess að sjá sem flesta í göngunni.

Opið hús á afmæli FÍ

Föstudaginn 27. nóv. n.k á Ferðafélag Íslands afmæli og verður 82 ára. Í tilefni dagsins verður opið hús á skrifstofu félagsins í Mörkinni 6 eftir kl. 14.00 á afmælisdaginn og verður gestum og gangandi boðið upp á kaffi og kökur í tilefni dagsins. Þarna gefst tækifæri til að óska Ferðafélagi Íslands til hamingju með daginn yfir kaffibolla og ná tali af starfsmönnum og ýmsum velunnurum félagsins sem væntanlega fjölmenna á staðinn.

Aðventuferð á jeppum í Þórsmörk

Laugardaginn 5. des. n.k verður efnt til aðventuferðar á jeppum inn í Þórsmörk á vegum Ferðafélags Íslands og Safari. Hópurinn mun hittast á Hvolsvelli kl. 11.00 á laugardag og þaðan verður ekið í hóp inn í Langadal undir leiðsögn vanra jeppamanna og fararstjóra sem leiða för yfir vötn í klaka kropin á Þórsmerkurleið. Verði er stillt í hóf en það er kr. 5.000 á hverja fjölskyldu og það gildir fyrir einstaklinga einnig. Gist verður í Skagfjörðsskála í Langadal og efnt til margvíslegra leikja þar sem fjölskyldan getur sameinast við leik og ærsl í fögru umhverfi. Þátttakendur skera saman laufabrauð, grilla og fara í feluleik í myrkrinu og taka þátt í fjöldasöng. Lagt verður af stað heim aftur skömmu eftir hádegi á sunnudag. Hringið á skrifstofu FÍ og látið skrá ykkur.