Fréttir

FÍ Í FJALLINU

Þrír hópar Eitt fjall á viku skunduðu á fjöll í dag. Nágrannar gengu á Móskarðshnúka, Austurbær á Skálafell og Vesturbær á Húsfell, alls um 140 göngugarpar. Nágrannar fögnuðu göngu á Móskarðshnúka með pönnukökum og kleinum þegar niður var komið og Austurbæingar gerðu tilraun til að skrifa FÍ í Skálafell að tillögu elsta göngugarpsins Elínborgar Kristinsdóttur. Alls eru tæplega 170 þátttakendur í verkefninu og nú er fyrstu 6 fjallgöngunum lokið og aðeins 46 fjöll eftir.  Göngudagarnir færast nú yfir á laugardagsmorgna kl. 9 og verða 6 gönguferðir á laugardögum og þá verður skipt yfir á miðvikudaga. Fyrir utan pönnukökubakstur og kleinugerð stefnir hópurinn nú að einum sameiginlegum danstíma í Ferðafélagssalnum og ýmislegt fleira skemmtilegt er í bígerð. Sjá myndir í myndabanka FÍ  

Ferðafélagar, útivistarunnendur og fjallagarpar boðnir á sýningu í World Class Laugum

Laugardaginn 13. febrúar kl. 14 – 17 býður World Class í Laugum í samstarfi við Ferðafélag Íslands upp á sýningu á skiltum sem Ferðafélag Íslands hefur sett upp á vinsælustu gönguleiðum landsins, Laugveginum og Fimmvörðuhálsi og auk þess á Hvannadalshnúk. Sjá skilti

FÍ fjör í Esjunni næstu mánuði

Ferðafélag Íslands býður upp á FÍ fjör í Esjunni næstu mánuði.  Um er að ræða ókeypis gönguferðir með fararstjórn á Esjuna, nokkrar ferðir í mánuði fram á sumar.  FÍ fjör er því tilvalinn vettvangur fyrir ferðafélaga sem eru að undirbúa verkefni sumarins, hvort heldur krefjandi fjallgöngu á Hvannadalshnúk eða sumarleyfisferð.  FÍ fjör verður undir nokkrum fyrirsögnum  eftir mánuði og er fyrsta FÍ fjör prógrammið undir heitinu ,,vertu til er vorið kallar á þig," í tilefni af veðurblíðunni undanfarið.  Fararstjóri er Þórður Ingi Marelsson.

Ferðafélag Ísafjarðar endurvakið

Fyrsta gönguferð Ferðafélags Ísafarðar var farin á sunnudag en félagið var nýlega endurreist. Það var upphaflega stofnað 1949. Um 50 manns mættu í gönguna ásamt 3 ferfætlingum og var fararstjórn í höndum Þrastar Jóhannessonar. Gengið var frá skála Skíðafélags Ísafjarðar á Seljalandsdal og upp á Sandfell og um nágrenni þess. Aðalfundur félgsins var nýlega haldin og er stefnt að framhaldsaðalfundi fyrir 1. mai. Hermann Níelsson leiðir starf undirbúningsnefndar.

Stórir hópar á þremur fjöllum og göngugleðin á fjórða.

Þrír stórir hópar voru í dag á þremur fjöllum í verkefninu ,,Eitt fjall á viku."  Þáttakendum hefur nú verið skipt niður í þrjá hópa, austurbæ, vesturbæ og nágranna. Einhver kom með þá hugmynd að nágrannar yrðu kallaðir þorparar, en nágrannanafnið stendur enn um sinn.  Göngugleðin var fjórði hópurinn frá FÍ í dag á fjöllum en myndarlegur hópur hélt á Hvalfell á meðan hóparnir þrír gengu á Skálafell, Móskarðshnúka og Húsfell.  Sjá myndir á myndabanka FÍ

Eitt fjall á viku, sunnudagur 7. febrúar,

Eitt fjall á viku sunnudaginn 7. febrúar, sjá upplýsingar hér á heimasíðunni, www.fi.is/eittfjall

Eins og heitar lummur

"Ég man ekki eftir öðrum eins viðtökum," sagði Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. Frá því að áætlun FÍ var dreift til félagsmanna og almennings s.l föstudag hefur síminn á skrifstofu félagsins ekki hætt að hringja. Á fáeinum dögum eru 6-8 ferðir algerlega uppseldar og óðum að fyllast í nokkrar í viðbót. Hinn sívinsæli Laugavegur milli Landmannalauga og Þórsmerkur selst hraðast en Hornstrandaferðir njóta einnig mikilla vinsælda svo og háfjallagöngur á Hvannadalshnúk, Hrútfjallstinda og Þverártindsegg.

Námskeið; vetrarferðir og fjallamennska

FÍ býður upp á námskeið 6. - 7. febrúar sem hugsað er sem kynning á vetrarferða- og fjallamennsku fyrir útivistarfólk sem vill víkka sjóndeildarhringinn og takast á við vetraraðstæður. Farið er yfir grundvallaratriði s.s. leiðarval, mat á snjóflóðahættu, veðurfræði, göngu og klifur á mannbroddum, notkun ísaxa og annars öryggisútbúnaðar. Námskeiðið er fyrir alla í ágætis líkamlegu formi og engrar reynslu af vetraferðamennsku er krafist. Námskeiðið fer fram í Skíðadal á Tröllaskaga og verður einn af fjölmörgum tindum svæðisins klifinn á námskeiðinu. Umsjónarmaður er Jökull Bergmann. 

Göngu- og fjallaæfingar fyrir ferðafélaga

Heilsuborg býður nú ferðafélögum upp á fjallgöngunámsskeið fyrir sumarið.  Námskeiðin eru tilvalin fyrir göngu- og fjallgöngufólk tl að komast í form fyrir sumarið.  Ný námskeið eru að hefjast.

Ferðafélag Ísafjarðar endurreist

Boðað hefur verið til aðalfundar Ferðafélags Ísafjarðar þar sem áformað er að endurreisa félagið. Ferðafélag Ísafjarðar var stofnað fyrst 1949 og starfaði til 1957. Næst var félagið endurvakið 1979 og starfaði þá með nokkurri reisn í 6-7 ár en lagðist svo í dvala á ný.