Hádegisgöngur Ferðafélagsins hefjast 1. des
25.11.2009
1. desember n.k. hefjast hádegisgöngur á vegum Ferðafélags Íslands. Þetta er nýr liður í starfsemi félagsins og ætlað að bjóða upp á hressandi útivist í skemmtilegum félagsskap með reglubundnum hætti.
Göngurnar eru ókeypis og öllum opnar og við allra hæfi. Ferðafélagið leggur til fararstjóra í hvert sinn sem stýrir gönguferðinni, verður með fróðleik og gamanmál á hraðbergi og stjórnar upphitun og teygjuæfingum.
Hádegisgöngurnar verða farnar á þriðjudögum og fimmtudögum. Á þriðjudögum hittast þátttakendur við Árbæjarlaug kl. 12.00 og þá liggur leiðin um Elliðaárdal og þær fjölbreyttu leiðir sem þar eru í boði.
Á fimmtudögum hittast þátttakendur kl. 14.00 í Nauthólsvík fyrir ofan ylströndina. Þá daga liggur leiðin eftir stígakerfi borginnar meðfram sjónum eða um skógarstíga sem þræða má um Öskjuhlíð og nágrenni.
Fyrsta gangan verður farin frá Árbæjarlaug 1. desember n.k. þegar Íslendingar fagna 91 árs afmæli fullveldisins.