Myndakvöld - Í heimi frosts og fanna
18.01.2010
Næsta myndakvöld Ferðafélags Íslands verður tileinkað vetrarferðum á skíðum og er haldið undir yfirskriftinni: Í heimi frosts og fanna
Myndakvöldið fer fram miðvikudagskvöldið 20 jan. n.k. og verður að vanda haldið í sal Ferðafélagsins í Mörkinni 6 og hefst kl. 20.00. Í hléi eru kaffiveitingar með bakkelsi samkvæmt hefð.
Aðgangseyrir er á sannkölluðu kreppuverði eða aðeins 600 krónur á mann.
Fyrrihluti myndasýningarinnar er í umsjá Einars Ragnars Sigurðssonar. Einar er reyndur fjallamaður sem hefur stundað skíðaferðir um hálendi Íslands í áratugi. Hann er verðlaunaður ljósmyndari en myndir hans hafa unnið til verðlauna í alþjóðlegum og íslenskum samkeppnum.
Einar sýnir myndir úr gönguskíðaferðum yfir Vatnajökul, í Landmannalaugar og um Fjallabak, Torfajökul og Laugaveginn.
Seinnihluti myndasýningarinnar er í umsjá Páls Ásgeirs Ásgeirssonar sem sýnir myndir úr gönguskíðaferðum í Öskju og um Síðuaafrétt veturna 2008 og 2009. Páll Ásgeir hefur ferðast um íslensk fjöll í áratugi, skrifað leiðsögubækur og er einn af fararstjórum FÍ auk þess að sitja í stjórn félagsins.