Heimilt að fara gangandi á Fimmvörðuháls
24.03.2010
Fólki er heimilt að fara gangandi upp á Fimmvörðuháls en gerir það á eigin ábyrgð. Ferðafélag Íslands tekur undir með deildarstjóra almannavarna hjá ríkislögreglustjóra að gönguferð á Fimmvörðuháls á þessum árstíma sé aðeins fyrir vana og vel útbúna göngumenn. Vegalengd frá Skógum upp á Fimmvörðuháls er um 11 km og hæðarhækkun um 1000 metrar. Þá er göngufæri mjög þungt á köflum um þessar mundir. Fimmvörðuháls er að auki vel þekktur sem mikið veðravíti ef svo ber undir og veður á hálsinum getur verið mun verra en í byggð. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ segir að félagið muni á næstunni bjóða upp á gönguferðir að gosstöðvum með fararstjórum til að tryggja öryggi göngumanna.