Fréttir

Aðsóknarmet á myndakvöldi

Myndakvöld FÍ með Helga Björnssyni jöklafræðingi og Þóru Ellen Þórhallsdóttur líffræðingi sló aðsóknarmet vetrarins en 250 gestir mættu til að hlýða á erindi hjónanna og myndasýningar. Gestir fræddust um eðli jökla, íhuguðu hvort fæddur myndi sá Íslendingur sem fengi að sigla inn í Esjufjöll eftir Breiðamerkurfirði og sátu andaktugir undir fyrirlestri Þóru Ellenar um verðmæti íslensks landslag, sérstöðu þess og ýmsar rannsóknir því tengdar. Hinar sívinsælu kaffiveitingar voru á sínum stað. Sigurvegari í ljósmyndasamkeppni FÍ tók á móti verðlaunum og menn hittu gamla ferðafélaga, treystu vinaböndin og skiptust á skoðunum og fréttum úr heimi fjallaferða og útivistar.

Leyndarmál jökla og fegurð landslags á næsta myndakvöldi

Næsta myndakvöld Ferðafélagsins verður haldið miðvikudaginn 17. febrúar í sal Ferðafélagsins í Mörkinni 6 og hefst kl. 20.00 að vanda. Myndakvöldið er að þessu sinni í umsjá hjónanna Helga Björnssonar jöklafræðings  og Þóru Ellenar Þórhallsdóttur líffræðings.  Páll Ásgeir Ásgeirsson umsjónarmaður myndakvölda FÍ segir afar ánægjulegt að  bjóða upp á myndakvöld með þeim hjónum sem hvort fyrir sig er á meðal fremstu vísindamanna þjóðarinnar á sínu sviði.

Niðurstaða dómnefndar í ljósmyndasamkeppni FÍ

Nú hefur dómnefnd skilað inn niðurstöðu í ljósmyndasamkeppni FÍ sem haldin var fyrir áramót.  Vinningsmyndin var tekin í Langadal í Þórsmörk og ljósmyndarinn er Ármann Guðjónsson.  Í texta ljósmyndara með myndinni segir:, ,, Mynd tekin við bústað skálavarða í Langadal 23. ágúst, lítill sætur yrðlingur hvílir sig í sólinni," Í niðurstöðuorðum dómnefndar segir:  "Dómnefnd þótti myndin hafa til að bera það þrennt sem hæfir góðri náttúrumynd; sterka mynduppbyggingu, fallega birtu og hún er tekin á réttu augnabliki. Þá leiðir grunnur fókus (dýptarskerpa) myndarinnar augu áhorfandans beint í auga dýrsins og skapar þannig umsvifalaust tengingu við viðfangsefnið. Þá er tófan táknmynd náttúru Íslands sem eina villta spendýrið á landinu."

Til hamingju Ísland að ég fæddist hér

Nú hefur skapast sú hefð hjá gönguhópum Eitt fjall á viku að syngja eitt lag eða tvö í hverri göngu.  Austurbæingar tóku lagið í tvígang á leið sinni á tind Skálafells.  Fyrra lagið var sérútgáfa af laginu ,,Til hamingju Ísland að ég fæddist hér,,  og var bætt við textann,  eitt fjall á viku, alltaf með þér.  Þegar upp var komið var heldur tekið að blása eins og oft er á Skálafelli og var þá sungið Yfir kaldan eyðisand, einn um nótt ég sveima.  Síðan var haldið niður á leið með byr undir báða vængi. 

Pönnukökur og kleinur á Móskarðshnúkum

Galvaskur hópur Nágranna (stundum nefndir þorparar), einn af þremur hópum FÍ í Eitt fjall á viku,  gengu á Móskarðshnúka í dag og skiptist þar á skin og skafrenningur. Nágrannar telja rúmlega 60 þátttakendur í Eitt fjall á viku og eru eins og nafnið á hópnum gefur til kynna íbúar í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur og reyndar víðar því að einn þátttakandi kemur alla leið frá Vík í Mýrdal í hverja fjallgöngu einu sinni í viku.  Eftir ýmis konar sprell og skemmtilegheit stýrt af hinum glaðbeittu fararstjórum Nágranna var hópurinn hinn brosmildasti á austurtindi Móskarðshnúka. Kökunefnd hafði síðan hrært í nokkra skammta af kleinum og pönnukökum og var þeim raðað í sig af bestu lyst þegar niður var komið. Sjá myndir í myndabanka FÍ 

FÍ Í FJALLINU

Þrír hópar Eitt fjall á viku skunduðu á fjöll í dag. Nágrannar gengu á Móskarðshnúka, Austurbær á Skálafell og Vesturbær á Húsfell, alls um 140 göngugarpar. Nágrannar fögnuðu göngu á Móskarðshnúka með pönnukökum og kleinum þegar niður var komið og Austurbæingar gerðu tilraun til að skrifa FÍ í Skálafell að tillögu elsta göngugarpsins Elínborgar Kristinsdóttur. Alls eru tæplega 170 þátttakendur í verkefninu og nú er fyrstu 6 fjallgöngunum lokið og aðeins 46 fjöll eftir.  Göngudagarnir færast nú yfir á laugardagsmorgna kl. 9 og verða 6 gönguferðir á laugardögum og þá verður skipt yfir á miðvikudaga. Fyrir utan pönnukökubakstur og kleinugerð stefnir hópurinn nú að einum sameiginlegum danstíma í Ferðafélagssalnum og ýmislegt fleira skemmtilegt er í bígerð. Sjá myndir í myndabanka FÍ  

Ferðafélagar, útivistarunnendur og fjallagarpar boðnir á sýningu í World Class Laugum

Laugardaginn 13. febrúar kl. 14 – 17 býður World Class í Laugum í samstarfi við Ferðafélag Íslands upp á sýningu á skiltum sem Ferðafélag Íslands hefur sett upp á vinsælustu gönguleiðum landsins, Laugveginum og Fimmvörðuhálsi og auk þess á Hvannadalshnúk. Sjá skilti

FÍ fjör í Esjunni næstu mánuði

Ferðafélag Íslands býður upp á FÍ fjör í Esjunni næstu mánuði.  Um er að ræða ókeypis gönguferðir með fararstjórn á Esjuna, nokkrar ferðir í mánuði fram á sumar.  FÍ fjör er því tilvalinn vettvangur fyrir ferðafélaga sem eru að undirbúa verkefni sumarins, hvort heldur krefjandi fjallgöngu á Hvannadalshnúk eða sumarleyfisferð.  FÍ fjör verður undir nokkrum fyrirsögnum  eftir mánuði og er fyrsta FÍ fjör prógrammið undir heitinu ,,vertu til er vorið kallar á þig," í tilefni af veðurblíðunni undanfarið.  Fararstjóri er Þórður Ingi Marelsson.

Ferðafélag Ísafjarðar endurvakið

Fyrsta gönguferð Ferðafélags Ísafarðar var farin á sunnudag en félagið var nýlega endurreist. Það var upphaflega stofnað 1949. Um 50 manns mættu í gönguna ásamt 3 ferfætlingum og var fararstjórn í höndum Þrastar Jóhannessonar. Gengið var frá skála Skíðafélags Ísafjarðar á Seljalandsdal og upp á Sandfell og um nágrenni þess. Aðalfundur félgsins var nýlega haldin og er stefnt að framhaldsaðalfundi fyrir 1. mai. Hermann Níelsson leiðir starf undirbúningsnefndar.

Stórir hópar á þremur fjöllum og göngugleðin á fjórða.

Þrír stórir hópar voru í dag á þremur fjöllum í verkefninu ,,Eitt fjall á viku."  Þáttakendum hefur nú verið skipt niður í þrjá hópa, austurbæ, vesturbæ og nágranna. Einhver kom með þá hugmynd að nágrannar yrðu kallaðir þorparar, en nágrannanafnið stendur enn um sinn.  Göngugleðin var fjórði hópurinn frá FÍ í dag á fjöllum en myndarlegur hópur hélt á Hvalfell á meðan hóparnir þrír gengu á Skálafell, Móskarðshnúka og Húsfell.  Sjá myndir á myndabanka FÍ