Gengið með Góu
16.03.2010
Næstkomandi sunnudag, 21. mars efna Ferðafélag Ísland og sælgætisgerðin Góa til sérstakrar páskaeggjagöngu á Móskarðshnúka. Gangan hefst kl. 10.00 á sunnudagsmorgun og allir þátttakendur fá að lokinni göngu páskaegg eða ámóta gómsætan glaðning frá Góu.
Gangan hefst við Skarðsá undir Móskarðshnúkum. Til að komast þangað er best að beygja til vinstri rétt ofan við Gljúfrastein í Mosfellsdal og aka afleggjara merktan Hrafnhólar. Við túngarðinn á Hrafnhólum er beygt niður með ánni og stefnt inn í dalinn að sumarbústöðum og þarf að opna hlið á leiðinni. Vegurinn endar á bílastæði við göngubrú yfir Skarðsá.
Þórður Marelsson verður fararstjóri og leiðir hópinn upp á Móskarðshnúka en sá hæsti er 820 metra hár. Gangan ætti því að taka 3-4 tíma og verður gott að fá sér súkkulaði að launum eftir frískandi fjallgöngu.